Hrafnskló

Forsíða bókarinnar

Kinga Jedynak er sextán ára. Pabbi hennar lést í vinnuslysi þegar hún var tólf ára og síðan þá hefur mamma hennar unnið myrkranna á milli til að framfleyta þeim. Kinga var rekin úr Hólabrekkuskóla fyrir ofbeldi og á kærasta sem er dópsali. En hún er enginn vitleysingur.

Arnaldur Barkarson er fimmtán ára. Hann er nýbyrjaður í Seljaskóla, eins og Kinga, en ólíkt henni er hann hvorki talinn hættulegur né töff. Arnald dreymir um að falla í kramið hjá vinsælu krökkunum í skólanum, sem eru á kafi í leiknum Raven’s Claw. Hann byrjar að spila og spennandi heimur opnast.

Þau Kinga og Arnaldur kynnast í gegnum leikinn og með þeim tekst vinátta sem breytir lífi þeirra beggja. Bæði þurfa þau sárlega á samherja að halda, því þau hafa eignast hættulega óvini. Andstæðingarnir svífast einskis og hættur leynast við hvert fótmál.