Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Lofgjörð til Katalóníu

  • Höfundur George Orwell
  • Þýðandi Guðmundur J. Guðmundsson
Forsíða kápu bókarinnar

Í þessari bók lýsir breski rithöfundurinn George Orwell reynslu sinni úr borgarastyrjöldinni á Spáni þar sem hann barðist sem sjálfboðaliði með sveitum sósíalista á árunum 1936–1937. Sú reynsla mótaði stjórnmálaskoðanir hans það sem eftir var ævinnar og gerði hann að hörðum andstæðingi alræðis.

Í bókinni kemur glöggt fram ástríðufull mannúðarhyggja Orwells sem einkennir öll hans verk. Hann lýsir með beisku innsæi hinum björtu vonum og kaldrifjuðu svikum sem einkenndu þessa óreiðukennda tíma á Spáni; byltingarandanum í Barcelóna, hugrekki spænskrar alþýðu, hryllingnum og glundroðanum á vígstöðvunum og grimmdarlegum launráðum manna sem töldust vera bandamenn hans.

Guðmundur J. Guðmundsson íslenskaði og ritar eftirmála þar sem hann setur frásögn Orwells í sögulegt samhengi.

George Orwell (1903–1950) var einn snjallasti rithöfundur Englendinga á 20. öld. Hann var afkastamikill ritgerðahöfundur og skrifaði meðal annars tvær af frægustu skáldsögum aldarinnar, Dýrabæ og Nítján hundruð áttatíu og fjögur, sem báðar hafa komið út í íslenskri þýðingu.