Lúx

Sögukorn

Forsíða kápu bókarinnar

Alda Sif og Sighvatur eru ung íslensk hjón sem búa í Lúxemborg á þenslutímunum fyrir hrun. Þau eru ólík en ástfangin. Hún er háttsett í banka, hann sér um heimilið og einkabarnið.

Leiðir þeirra höfðu legið saman í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á norræn fræði en hún viðskiptafræði.

Að loknu námi kenndi Sighvatur íslensku í efri bekkjum grunnskóla en Alda Sif öðlaðist skjótan frama í bankageiranum og gegnir nú stjórnunarstöðu í Lúxemborg.

Sighvatur kvaddi kennarastarfið og sér nú um heimilið og einkasoninn, sem nálgast skólaaldur, jafnframt því að huga að eilífðarverkefni sínu, ritgerð um „Þróun íslenskra spakmæla frá landnámi til vorra tíma“.

En ekki er hægt að eyða öllum deginum í fræðagrúsk og þegar Sighvatur tekur að rifja upp menntaskólafrönskuna sína undir leiðsögn ungrar kennslukonu dregur til tíðinda.

– # –

Ágúst Guðmundsson er einkum þekktur sem kvikmyndaleikstjóri. Land og synir, Með allt á hreinu og Mávahlátur eru meðal átta bíómynda hans. Af fjölmörgum verkefnum fyrir sjónvarp má nefna Nonna og Manna. Hann átti stóran þátt í gerð bókarinnar Styrjöldin í Selinu sem greinir frá því þegar þriðja heimsstyrjöldin var sett á svið í ársbyrjun 1965. Fyrir tveimur árum kom út eftir hann skáldsagan Maður í eigin bíómynd þar sem Ingmar Bergman var í aðalhlutverki.