Með verkum handanna - Íslenskur refilsaumur fyrri alda

Creative Hands - Icelandic laid-and-couched embroideries of past centuries

Forsíða bókarinnar

Í bókinni Með verkum handanna eru lagðar fram niðurstöður áratugarannsókna Elsu E. Guðjónsson textíl- og búningafræðings (1924-2010) á þeim fimmtán íslensku refilsaumsklæðum sem varðveist hafa. Í klæðunum eru varðveitt einhver stórbrotnustu listaverk Íslendinga frá fyrri öldum og þau hafa sérstöðu í alþjóðlegu samhengi.

Elsa skrifar af nákvæmni og alúð um feril, myndefni, tækni og sögulegt og listrænt samhengi hvers klæðis. Rannsóknir hennar eru einstakar í sinni röð og bókin, sem prýdd er hundruðum ljósmynda, ber þeim fagurt vitni.

Elstu klæðin eru frá því seint á 14. öld, nokkur frá því um eða eftir siðaskipti en hið yngsta er frá 1677. Níu klæðanna íslensku eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands en sex eru varðveitti í erlendum söfnum, í Danmörku, Frakklandi og Hollandi.

Refilsaumur er gömul ensk-norræn útsaumsgerð sem varðveittist á Íslandi. Klæði með refilsaum voru framan af frásagnarverk og kunnasta refilsaumsáklæðið er að líkindum refillinn í Bayeux í Frakklandi sem lýsir innrás Normanna í Englandi 1066.

Íslensku klæðin eru nánast öll kirkjuleg verk, en í ýmsum þeirra eru sagðar sögur – svo sem af Maríu mey, heilögum Marteini og Jóhannesi postula.

Í klæðunum eru varðveitt einhver stórbrotnustu listaverk okkar frá fyrri öldum og þau hafa sérstöðu í alþjóðlegu samhengi. Klæðin bera ekki síst vitni um menningarstarf kvenna á fyrri tímum. Með bókarheitinu er vísað til umsagnar um elstu nafnkunnu hannyrðakonu íslenska, Ingunni lærðu á Hólum á 11 öld, sem ekki aðeins kynnti guðsdýrð í orðum heldur og með verkum handanna.

Lilja Árnadóttir fyrrverandi sviðstjóri Þjóðminjasafnsins og samstarfskona Elsu til margra ára, lauk við verkið og bjó til prentunar.

Sigrún Sigvaldadóttir hjá Hunangi hannaði bókina.