Skagfirskar æviskrár Skagfirskar æviskrár 1910-1950. 10. bindi
Tuttugasta og fyrsta bókin sem Sögufélag Skagfirðinga gefur út af Skagfirskum æviskrám og hin tíunda frá tímabilinu 1910 til 1950. Bókin inniheldur samtals 87 æviskrárþætti fólks sem bjó eða hélt heimili í Skagafirði á fyrri hluta 20. aldar. Bókin er 406 blaðsíður með 160 ljósmyndum.
Í þessum æviskrárþáttum er ekki einungis fjallað um þá sem fengust við hefðbundinn búskap, heldur ýmsa fleiri sem héldu sjálfstætt heimili, hvort heldur var í sveit eða kauptúni. Þótt tímabilið sé miðað við 1910-1950 er í mörgum tilfellum fjallað um fólk sem lifði fram yfir síðustu aldamót, ef það hafði stofnað heimili fyrir 1950. Hér er rakin ætt fólks eða vísað til heimilda í áður komnum æviskrám eða prentuðum ættfræðiritum, talin búseta, æviferill, uppvöxtur og helstu dvalarstaðir, búskapur og önnur störf. Jafnan er einhver persónulýsing, talin öll börn og gerð nokkur grein fyrir þeim og mökum þeirra.
Vönduð mannanafnaskrá er í bókinni og heimildaskrár eru með hverjum þætti sem vísa á frekari upplýsingar um viðkomandi.
Fjórar fyrstu bækur Skagfirskra æviskráa, frá tímabilinu 1890-1910, komu út á árunum 1964-1972 en á árunum 1981-1999 komu út sjö bindi í flokknum 1850-1890. Árið 1994 hófst svo útgáfa á æviskrám frá tímabilinu 1910-1950 en nokkur bindi til viðbótar þarf til að ljúka því tímabili.
Í Skagfirskum æviskrám er saman kominn gríðarmikill fróðleikur um skagfirska persónusögu. Með þessu bindi eru komnir á prent um 3200 æviskrárþættir meira en 6000 einstaklinga frá árunum 1850-1950. Flestar bækurnar eru enn fáanlegar á góðu verði hjá útgáfunni.