Snerting

Forsíða bókarinnar

Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson var söluhæsta bókin fyrir jólin 2020 og hlaut einróma lof, auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sagan er nú endurútgefin í tilefni af því að Baltasar Kormákur hefur gert kvikmynd eftir henni.

Kristófer hyggst loka veitingastað sínum í miðbæ Reykjavíkur vegna veirunnar, eftir áratuga farsælan rekstur. Sama dag berst honum óvænt vinarbeiðni á Facebook – og tíminn nemur staðar. Það er líkt og áratugirnir gufi upp og hann hverfi aftur um fimmtíu ár, standi við læstar dyr um morgun í London – þegar hann uppgötvaði að þau voru farin.

Hann leggur af stað í ferð yfir þveran hnöttinn. Og um leið heldur hann á vit minninga um ástir, fornar og nýjar, leynd og eftirsjá eftir því sem hefði getað orðið, hugsjónir og veruleika, en undir kraumar spurning sem hefur leitað á hann í hálfa öld: Hvers vegna fóru þau án þess að kveðja?

„Í Snertingu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er dregin upp sannfærandi mynd af samfélaginu og aðstæðum fólks af ólíkum uppruna. Nútíð og fortíð er listilega fléttað saman þannig að úr verður skáldsaga sem skiptir máli.“ Úr umsögn dómnefndar um Íslensku bókmenntaverðlaunin

„Heillandi skáldsaga sem er óskaplega fallega skrifuð. ... Maður vill ekki hætta að lesa ... örugglega ein af bestu bókum Ólafs Jóhanns – örugglega ein af bestu skáldsögum ársins.“ Kolbrún Bergþórsdóttir, Kiljunni

„Heillandi bók sem snertir lesandann og hreyfir við honum.“ Brynhildur Björnsdóttir, Fréttablaðinu

„Fíngerð, hrífandi … Snerting er þrungin spurningum um ást, minningar og áföll sem erfast á milli kynslóða – lausnin er jafn fullnægjandi og hún er heillandi.“ — Vogue