Sumarljós, og svo kemur nóttin
Sumarljós, og svo kemur nóttin er sjötta skáldsaga Jóns Kalmans. Hún kom fyrst út árið 2005 og færði höfundi Íslensku bókmenntaverðlaunin. Jón Kalman hefur sent frá sér fimmtán skáldsögur, síðast Himintungl yfir heimsins ystu brún (2024). Bækur hans hafa verið þýddar á yfir 20 tungumál.
„Við ætlum ekki að segja frá öllu þorpinu, förum ekki hús úr húsi, það myndir þú ekki afbera, en hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur, frá hamingju- sömum flutningabílstjóra, dimmum flauelskjól Elísabetar og honum sem kom með rútunni; frá Þuríði sem er hávaxin og full af heimullegri þrá, manni sem gat ekki talið fiskana og konu með feiminn andardrátt – frá einmana bónda og fjögurþúsund ára gamalli múmíu. Við segjum frá hversdagslegum atburðum, en líka þeim sem eru ofvaxnir skilningi okkar, og þá hugsanlega vegna þess að það eru ekki til neinar skýringar á þeim; menn hverfa, draumar breyta lífi, næstum tvöhundruð ára gamalt fólk virðist gera vart við sig í stað þess að liggja hljóðlátt á sínum stað. Og að sjálfsögðu ætlum við að segja þér frá nóttinni sem hangir yfir okkur og sækir afl sitt djúpt út í geiminn, frá dögunum sem koma og fara, frá fuglasöng og síðasta andartakinu, þetta verða áreiðanlega margar sögur, við byrjum hér í þorpinu og endum úti á hlaði í norðursveitinni, og nú byrjum við, hérna kemur það, kátína og einsemd, hófsemd og rökleysa, líf og draumur – já, draumar.“