Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Árstíðir

Vinnubók

Verkefnabók ætluð þeim sem tileinka sér íslensku sem annað mál. Bókin styður við lestur og kennslu örsagnasafnsins Árstíðir sem notið hefur mikilla vinsælda og verið kennd á ýmsum skólastigum á Íslandi og erlendis. Efnið var unnið í samráði við nemendur og kennara í faginu og nýtist í sjálfsnámi jafnt sem grunn-, tungumála-, framhalds- og háskóla.

Bernska

Tove Ditlevsen ólst upp í verkamannafjölskyldu á Vesturbrú í Kaupmannahöfn. Hún þykir með merkari höfundum Dana og hefur notið vinsælda hjá mörgum kynslóðum. Verk hennar gefa einstaka innsýn í líf kvenna á 20. öld og eru nú lesin sem sígildar bókmenntir. Bernska er fyrsti hlutinn í endurminningaþríleik en Gift, lokahlutinn, er þegar kominn út.

Best fyrir

Framtíðin er ekki óskrifað blað í augum þeirra höfunda sem deila hér reynslu sinni. Í níu sannsögum er ferðast um tímann í gegnum heimaslátrun, átök við íslenska veðrið, skíðakennslu á Ítalíu, ástir, eftirpartí, undarlegt háttalag konu um nótt og súran kvíða samtímans. Hér er tekist á við kunnuglegan tilvistarótta og gefin fyrirheit um framhaldið.

Depurð

Af hverju líður okkur svona illa þegar við höfum það svona gott?

Mikilvægasta hlutverk heilans er að lifa af, ekki að líða vel. Kvíði og depurð eru náttúrulegt ástand, leifar langt aftan úr forneskju þegar lífsbaráttan var hörð og við áttum sífellt á hættu að deyja. Geðlæknirinn Anders Hansen útskýrir hér á aðgengilegan hátt ákveðna þætti í virkni heilans og hvað við getum gert til að létta okkur róðurinn.

Deus

Skáldið Sigfús missir tökin á lífinu þegar hann finnur guð. Unglingurinn Ísabella glímir við stórar og flóknar tilfinningar. Blaðamaðurinn Andri Már þarf að fóta sig á nýjum og ókunnuglegum vettvangi. Örlög þeirra fléttast saman við áform nýsköpunarfyrirtækisins DEUS Technologies um að þróa trúarbrögð sem gervigreind.

DJ Bambi

Bambi er 61 árs gömul trans kona sem vann áður sem plötusnúður en er í dag sérfræðingur í smæstu byggingareiningum mannslíkamans, frumum. Þetta er saga hennar frá því hún deildi móðurkviði með tvíburabróður sínum og þar til hún fór að taka kvenhormón. Auður Ava heldur hér áfram rannsókn sinni á kynjuðum heimi.

Eden

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. Hjá íbúum í nálægu þorpi kviknar óvæntur áhugi á málvísindum. Á fjörur söguhetju rekur handrit að ljóðabók fyrrverandi nemanda hennar sem fjallar um ást ungs karlmanns á eldri konu. Eden fjallar um mátt orðsins og ábyrgðina sem við berum.

Hamingja þessa heims

Riddarasaga

Sagnfræðiprófessor í útlegð, ásakaður um ósæmilega framkomu, finnur gamalt handrit sem varpar nýju ljósi á löngu liðna sögu. Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna. Hér stíga helstu persónur hennar ljóslifandi fram; með Ólöfu ríku í broddi fylkingar.

Hver er flottastur? / Hver er sterkastur?

Segir hér af hinum hégómlega – en óneitanlega töluvert glæsilega – úlfi sem spígsporar um skóginn og krefst þess að aðrir dáist að honum. Hann hittir meðal annars Rauðhettu og Mjallhvíti og sjö litla menn, sem öll hrósa honum í hástert – en hann hefði betur hugsað sig um tvisvar áður en hann truflaði drekabarnið sem er í feluleik við fuglinn.

Mánasystirin

Fimmta bókin í bókaflokknum um systurnar sjö

Eftir dauða Pa Salt, milljarðamæringsins sem ættleiddi sex dætur allsstaðar að úr heiminum, lætur ein þeirra, Tiggy D’Aplièse, innsæið ráða og flytur á afskekktan stað í skosku hálöndunum til að hugsa um villt dýr á landareign héraðshöfðingjans fjallmyndarlega Charlie Kinnaird sem er í óhamingjusömu hjónabandi og á í baráttu um landareignina.

Mér líður ágætlega en mér gæti liðið betur

Úrval sagna eftir Lydia Davis, einn frumlegasta og vitasta rithöfund Bandaríkjanna. Sögurnar eru hnyttnar og átakanlegar í senn og einkennast af glettni og innsæi. Viðfangsefnin eru margvísleg: Barneignir, vínkjallarar og tryggingar, hvort sælla sé að gefa en að þiggja, forsendur langlífis, fiskiát heima við eða á veitingastöðum og gæði vináttu.

Móðurást: Oddný

Oddný Þorleifsdóttir, fædd 1863, elst upp í Bræðratungu, í hópi duglegra og glaðsinna systkina. Lífsbaráttan er hörð. „Móðurfólk mitt hélt ekki dagbækur sem ég veit af, það afmáði ummerki, gekk svo snyrtilega um að það skildi ekki eftir sig efniskennd spor. Að skrifa söguna eru því drottinssvik við móðurfólk mitt, einnig skuld við það og þökk."