Tímaskjól
Þriðja skáldsaga eins athyglisverðasta höfundar evrópskra samtímabókmennta. Bókin kom fyrst út í Búlgaríu 2020 og var verðlaunuð af menningarsjóði landsins sem skáldsaga ársins, en hún hefur síðan hlotið margvíslegar viðurkenningar og ber þar hæst Alþjóðlegu Booker-verðlaunin 2023.
Hinn leyndardómsfulli hugsjónamaður Gaústín opnar meðferðarstofnun fyrir Alzheimersjúklinga þar sem ólíkir áratugir 20. aldarinnar eru endurskapaðir í minnstu smáatriðum. Á þessari fortíðarklíník gefst vistmönnum færi á að hverfa aftur til blómaskeiðs ævi sinnar. En fyrr en varir gera heilbrigðir borgarar líka kröfu um að geta horfið á vit „tímaskjóla“ Gaústíns. Og það er þá sem fortíðin ryðst eins og holskefla inn í nútíðina vítt og breitt um Evrópu með ófyrirséðum afleiðingum.
Gagnrýnendur hafa hlaðið bókina lofi og notað lýsingar á borð við „bókmenntalegur öreindahraðall“ og „bjargar bæði heiminum og bókmenntunum“.