Jólahreingerning englanna

Forsíða kápu bókarinnar

Englarnir Trú, Von og Kærleikur eru í vinnu hjá Guði. Verkefni þeirra er að taka til í veröldinni fyrir jólin. Með englaaugunum sínum sjá þeir af hverju mannlífið er ekki alltaf friðsælt og gott. Á vegi þeirra verða ýmsar furðuverur. Á augabragði hreinsa þeir til í veröldinni svo allir geti átt friðsæl og gleðileg jól. Fyrir allan aldur.

Englarnir Trú, Von og Kærleikur eru í vinnu hjá Guði. Hann hefur falið þeim það erfiða verkefni að taka til í veröldinni fyrir jólin. Þetta er strembið verkefni og oft þurfa þeir að nýta sér einstaka hæfileika sem englum einum eru gefnir. Með englaaugunum sínum sjá þeir hvernig stendur á því að mannlífið er ekki alltaf friðsælt og gott. Á vegi þeirra verða ýmsar furðuverur. Á augabragði hreinsa þeir til í veröldinni svo allir geti átt friðsæl og gleðileg jól. Skondin saga fyrir börn á öllum aldri.

Engillinn Trú er fjörug og glöð. Hún verður stundum hrygg þegar enginn trúir eða treystir neinu. Hún hefur fallegan kross í fanginu sem hún ber með sér hvert sem hún fer.Engillinn Von er með mjög skrýtinn hlut í fanginu sem heitir akkeri. Þótt það sé þungt getur hún alveg flogið með það. Hennar hlutverk er að gefa okkur mannfólkinu von þegar allt er erfitt.Engillinn Kærleikur er bústinn og brosmildur með stórt rautt hjarta í fanginu sem hann knúsar og kreistir. Hann vill að allir séu góðir hverjir við aðra.

VIÐVÖRUN!

Fýlupokar: Litlir brúnir pokar með græna fætur. Iðulega mjög fýldir á svip. Hafa niðurdrepandi áhrif á alla nærstadda. Megn fýlupúkamengun getur haft slæmar afleiðingar fyrir þjóðlífið.Frekjudósir: Litlar grænar dósir með bláa fætur og áberandi framtennur. Hafa skelfileg áhrif á hvern þann sem þær setjast á.Væluskjóður: Litlar grábrúnar skjóður með rauða fætur. Hengja sig utan í fatnað fólks og dreifast mjög auðveldlega á milli manna.

Hrekkjalómar: Litlir, rauðir og boltalaga með úfið hár og margar tennur. Alltaf mjög illkvittnislegir á svip. Bannaðir í öllum leikskólum og skólum.

Ólátabelgir: Litlir, gulir og boltalaga með lítið hár og fremur heimskulegir á svip. Þeir hafa munninn ávallt opinn upp á gátt til þess að óhljóðin frá þeim heyrist sem best. Afar óvinsælir hjá foreldrum, kennurum og öðru fullorðnu fólki.

Letipúkar: Litlir og bleikir, með hvít horn og letilegir á svip. Þeir hreiðra gjarnan um sig í þægilegum sófum, undir teppum og alls staðar þar sem notalegt er að halla sér. Þeir hafa mjög lamandi áhrif á alla í kringum sig.

Kjaftaskúmar: Litlir og fjólubláir með afar áberandi varir. Þeir hafa munninn gjarnan opinn og þagna aldrei. Þeirra uppáhalds iðja er að tala illa um aðra. Setjast gjarnan á axlir fólks.

Prakkarastrik: Hvít strik með græna fætur og rauðar hendur. Mjög prakkaraleg á svip. Þau geta lætt sér á hina ólíklegustu staði og fá börn til þess að gera hluti sem þeim dytti annars alls ekki í hug að gera.

Kjánaprik: Mjúk og beygluð prik í öllum regnbogans litum. Þau eru svolítið illkvittin á svipinn og fá fólk til þess að gera mjög kjánalega hluti. Kjánaprikin geta leynst alls staðar.