Sjálfsævisaga Klemensar Jónssonar
Sjálfsævisaga Klemensar lýsir atburðarás sem hann lifði sjálfur og er rituð frá hans sjónarhorni. Stóran hluta ævinnar stóð hann á miðju leiksviði sögu Íslands. Margt af því sem hann tók þátt í telst til lykilatburða í Íslandssögunni og persónur sem hann átti í samskiptum við eru ýmsar þjóðkunnar.
Endurminningar Klemensar fjalla þó ekki aðeins um störf hans á vettvangi stjórnmálanna heldur eru þær einnig persónuleg frásögn af fjölskylduhögum, innilegri gleði og djúpri sorg.
Klemens Jónsson (1862–1930) lifði mikla breytingartíma. Þegar hann var að slíta barnsskónum á sjöunda áratug nítjándu aldar var Ísland fátækt, efnahagslega vanþróað landsvæði undir danskri stjórn. Þegar hann lést árið 1930 var Ísland fullvalda ríki, atvinnulíf landsmanna hafði tekið stakkaskiptum og landið komið vel áleiðis til þeirrar hagsældar sem við þekkjum í dag. Í krafti lykilstöðu sinnar í stjórnkerfinu í meira en tvo áratugi var Klemens virkur gerandi í þessum breytingum og jafnframt meðal krumkvöðla í mörgum veigamiklum þáttum þeirra.
Klemens lauk lögfræðiprófi frá Háskólum í Kaupmannahöfn, varð sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri, landritari á Heimastjórnartímabilinu, alþingismaður og ráðherra. Síðast en ekki síst var hann fræðimaður og skrifaði nokkur grundvallarrit í Íslandssögunni.
Anna Agnarsdóttir og Áslaug Agnarsdóttir ritstýrðu og bjuggu ævisöguna til prentunar.