Útgefandi: Forlagið

Ástin fiskanna

Samanta og Hans hittast fyrir tilviljun í útlendri borg. Eftir endurfundi heima á Íslandi og koss undir reynitré um sumarnótt skilur leiðir en sagan er ekki öll. Þessi dáða saga um ást sem ekki fær að dafna kom fyrst út árið 1993. Stíllinn er meitlaður, frásögnin beitt og fyndin en undir niðri sár og tregafull. Eleonore Gudmundsson ritar eftirmála.

Byrgið

Sögur, kjarnyrði, brot

Þessi bók geymir úrval fjölbreyttra styttri texta sem Franz Kafka, einn áhrifamesti höfundur 20. aldar, lét eftir sig óútgefna er hann lést árið 1924: bráðskemmtilegar örsögur, smásögur og nóvellur, kjarnyrði og sögubrot. Safnið sýnir vel tök Kafka á knöppum frásögnum en hann var frumkvöðull í ritun örsagna. Ástráður Eysteinsson skrifar eftirmála.

Englar alheimsins

Stórbrotin og eftirminnileg verðlaunasaga Einars Más um mann sem veikist á geði og viðbrögð fjölskyldu og samfélags. Lýsingin á því hvernig skuggi geðveikinnar fellur smám saman yfir er átakanleg en um leið er sagan gædd einstakri hlýju og húmor í frásögn og stíl. Ein víðförlasta íslenska skáldsaga fyrr og síðar. Árni Matthíasson skrifar eftirmála.

Hefnd Diddu Morthens

Starfsferill Diddu Morthens er að engu orðinn, börnin löngu farin að heiman og eiginmaðurinn er úrvinda öll kvöld. Hún hangir í tölvunni til að drepa tímann og dag einn býr hún til gervimenni á netinu til að hefna sín á gamalli bekkjarsystur. Sprenghlægileg saga sem fékk fyrstu verðlaun í handritasamkeppni Forlagsins.

Mýrin

Þessi sívinsæla bók Arnaldar Indriðasonar markaði tímamót þegar hún kom út árið 2000; fyrsta íslenska glæpasagan sem náði verulegri hylli heima og erlendis og hefur haldið gildi sínu alla tíð. Hér fæst lögregluþríeykið Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg við erfitt sakamál sem teygir anga sína inn í myrka fortíð. Katrín Jakobsdóttir ritar eftirmála.