Útgefandi: Skrudda

Afkvæmi óttans

Í ársbyrjun 2022 hitta tvær stelpur og tveir strákar í 10. bekk gamla konu sem segir: „Heimskan er afkvæmi óttans.“ Og unglingarnir vakna til umhugsunar. Fáfræðin verður að víkja fyrir trú á mannkynið og trú á að heimurinn geti orðið betri. Fyrr en varir eru þau stödd í alþjóðlegri hringiðu sem er hlaðin spennu og að þeim er ráðist úr öllum áttum …

Beta frænka

Beta frænka er saga heitra tilfinninga sem stýra gerðum manna. Hér er fulltrúi tryggðar og hollustu og takmarkalausrar sjálfsafneitunar. Önnur persóna er holdgervingur öfundar og kolsvarts haturs og hin þriðja er spillingunni vígð. Þarna birtast sem sagt tvö meginöfl sálarlífsins – ást og hatur – Eros og Þanatos – engill og djöfull.

Dagbók úr fangelsi

Bók þessi var skrifuð meðan höfundurinn var vistaður á Litla Hrauni og lýsir lífinu innan veggja fangelsins nánast dag frá degi þá fimm mánuði sem hann dvaldist þar. Bókin lýsir samskiptum fanganna innbyrðis og við fangaverði, aðbúnaði í fangelsinu o.fl. Einstakur vitnisburður um lífið í íslensku fangelsi, skrifuð af mikilli næmni og skilningi.

Fárra orða ljóð

Góð hæka er sem dögg í grasi eða snjókorn á nakinni trjágrein; hún kemur eitt andartak og hverfur jafnharðan, en fer þó hvergi. Þetta kann að hljóma mótsagnakennt, en ætti þó að vera augljóst þeim sem ljóðum unna. Ljóðlist, eins og öll list, er spurning um skynjun, ekki skilning. Sama gildir um tönkur, þær koma og fara, en sitja þó um kyrrt.

Skrifað í þangið

Í þessari bók eru yrkisefni af margvíslegum toga. Einn kafli er helgaður nánasta umhverfi höfundar, 101 í Reykjavík, annar höfðar til fólks á öllum aldri með frjótt ímyndunarafl, sá þriðji er endurminningar, fjórði er helgaður minningu Ástu Lilju, eiginkonu höfundar, og sá síðasti, Trú, fjallar um tilvist mannsins og tengsl hans við náttúruna.