Fræðirit, frásagnir og handbækur

Saga Hnífsdals

Saga Hnífsdals er saga fólksins þar frá landnámi til sameiningar við Ísafjörð árið 1971. Metnaðarfullt fræðiverk og heillandi saga Hnífsdælinga fram á okkar daga – stór saga af litlu þorpi sem markaði spor í sögu þjóðarinnar. „Efnistök eru fjörleg og bókin lipurlega skrifuð og áhugaverð, ekki bara fyrir Hnífsdælinga.“ Sölvi Sveinsson, Morgunblaðinu

Saga Landsvirkjunar

Orka í þágu þjóðar

Þessi bók segir hálfrar aldar sögu Landsvirkjunar auk sögu raforkunnar á Íslandi frá upphafi. Landsvirkjun er eitt umsvifamesta fyrirtæki Íslands í almannaeigu og hefur gegnt lykilhlutverki við að nýta orkuauðlindir landsins. Í bókinni er brugðið upp svipmyndum úr samtímaheimildum og efnið skýrt með fjölda ljósmynda, korta og skýringamynda.

Sjáum samfélagið

Fræðileg greining á nútímasamfélaginu út frá ljósmyndum úr hversdagslífinu

Hvað er þetta óljósa fyrirbæri sem kallast samfélag? Í þessari nýstárlegu bók er leitast við að gera hið ósýnilega afl samfélagsins sýnilegt með beitingu félagsfræðilegs innsæis á ljósmyndir úr hversdagslífinu. Bókin hentar öllum sem hafa áhuga á lífinu og tilverunni, og varpar ljósi á félagslega töfra samfélagsins sem og vaxandi firringu þess.

Skáldreki

Ritgerðasafn höfunda af erlendum uppruna

Innflytjendur á Íslandi hefur auðgað menningu landsins. Hér segja tíu höfundar af erlendum uppruna frá sögu sinni, löngunum og þrám; fjalla um búferlaflutninga, að fóta sig í nýrri menningu, að skilja og finna rödd sína á íslensku eða að ná til nýrra lesenda á sínu eigin tungumáli. Bókin kom einnig út á ensku undir heitinu Writers Adrift.

Skrímsli

í sjó og vötnum á Íslandi

Bók sem markar tímamót og er fyrsta heildstæða úttektin á þessum óþekktu dýrategundum í náttúru Íslands. Hún byggir á miklu safni frásagna og áratugalangri rannsókn þar sem höfundur hefur rætt við sjónarvotta og safnað hundruðum áður óskráðra lýsinga þeirra á þessum dýrum. „Mjög forvitnileg bók!“ – Kristján Kristjánsson Sprengisandi / Bylgjunni.

Lærdómsrit Bókmenntafélagsins Skynsemin í sögunni

G.W.F. Hegel er einn af áhrifamestu heimspekingum allra tíma. Í riti hans Skynsemin í sögunni er dregin upp heildstæð mynd af hugsun hans um samfélag og sögu. Sú hugsun og ritið sjálft hefur haft, og hefur enn, djúp áhrif á samtíma okkar, ekki aðeins á sviði heimspekinnar heldur einnig á hvernig hugsað er og fjallað um stjórnmál.

Strákar úr skuggunum

Samhengið í sögu gay hreyfingarinnar

Viðburðarík saga gay hreyfingarinnar á Íslandi er rakin í samhengi allt frá grasrótarstarfi til fjöldahreyfingar. Efniviður er sóttur í aðgengilegar heimildir og minningar þeirra sem lifðu þessa tíma og tóku þátt í baráttunni. Sjónum er fyrst og fremst beint að fólkinu sjálfu sem vaknaði til vitundar og skapaði hreyfinguna.