Fræðibækur og rit almenns efnis

Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu Milli mála 2022

Sérhefti: Nýjustu rannsóknir í annarsmálsfræðum

Sérhefti Milli mála 2022 er helgað nýjustu rannsóknum á sviði annarsmálsfræða og inniheldur ritrýndar fræðigreinar um það efni. Gestaritstjóri er Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands. Allar greinar heftisins eru á íslensku.

Rauð rúlletta

Frásögn innanbúðarmanns af auðævum, völdum, spillingu og hefnd í Kína okkar daga

Í þessari einstöku og upplýsandi bók sviptir höfundur hulunni af ráðandi elítu í Kína og afhjúpar hvað raunverulega gerist á bak við luktar dyr i fjármálaheiminum í þessu fjölmennasta ríki heims þar sem leynd og ógn hefur löngum verið ríkjandi. Gríðarleg spilling, óhóf auðmanna og grimmilegar afleiðingar ef skerst í odda við ráðandi öfl.

Rót

Allt sem þú þarft að vita um Kína og meira til

Bráðfróðleg og skemmtileg bók um ævintýralega nútímavæðingu og uppnám í landi sem ætlar sér að verða stærsta efnahagsveldi heims. Sögulegir atburðir, viðskiptahættir, nýjar atvinnugreinar, listalíf og fjölskrúðugt mannlíf ber á góma í umbúðalausri frásögn af þessu merkilega landi. Litrík og eiguleg bók með fjölda ljósmynda og myndskreytinga.

Rætur Völuspár

Völuspá er mikilfenglegasta kvæði norrænna miðalda og í þessari bók eru átta greinar frá málþinginu „Völuspá — Norrænn dómsdagur“. Fjallað er um rannsóknir á miðaldatextum með áherslu á nýjar rannsóknir á Völuspá og tengsl kvæðisins við myndræna túlkun miðalda svo og frásagnir er fjalla um endalok heimsins, dómsdag, nýjan himin og nýja jörð.

Saga, Chronicle, Romance

Saga, Chronicle, Romance er úrval fræðigreina eftir Robert Cook (1932‒2011), fyrrum prófessor í ensku við Háskóla Íslands. Greinarnar eru flokkaðar í þrennt eftir efni og fræðasviði. Í fyrsta hluta er fjallað um Íslendingasögur og riddarasögur, í öðrum hluta um íslenskar bókmenntir frá árnýöld og í þriðja hluta um viðtökur franskra miðaldabókmennta

Skagfirskar skemmtisögur 6

Fjörið heldur áfram

Sjötta bindið í þessum vinsæla bókaflokki hefur að geyma vel yfir 200 gamansögur af Skagfirðingum. Nýjum persónum bregður fyrir og við bætast sögur af öðrum, eins og Bjarna Har kaupmanni, Hvata á Stöðinni og Ýtu-Kela. Óborganlegar sögur af séra Baldri í Vatnsfirði, sem var borinn og barnfæddur Skagfirðingur. Glettnar gamanvísur fylgja með.

Institute of Archaeology Monograph Series Skálholt: Excavations of a Bishop's Residence and School c. 1650-1790

Volume 1: The Site

Fyrsta bindi af þremur um fornleifarannsókn í Skálholti þar sem upp voru grafin húsakynni biskupa, þjónustufólks og skólasveina. Í þessu fyrsta bindi er fjallað almennt um verkefnið en í því er einnig að finna ítarlega umfjöllun um þær fjölmörgu byggingar sem voru grafnar upp og voru í notkun á tímabilinu 1650-1950.

Snjóflygsur á næturhimni

Um ljósmyndir, minningar og snertingu við veruleikann

Ljósmyndir móta minningar okkar og viðhorf til umhverfis, náttúru og samferðafólks en þær eru líka áhrifamikill miðill í listsköpun og gagnlegar til skynjunar og skilnings á heiminum. Hér fjallar Sigrún Alba á persónulegum og heimspekilegum nótum um hlutverk ljósmynda í daglegu lífi og hvernig þær varpa nýju ljósi á veröldina.

Sprog- og kulturkontakt i Vestnorden

Om det færøske, grønlandske, islandske og norske sprogs møde med dansk

Bókin inniheldur 13 kafla um tengsl tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu. Fjallað er m.a. um: sambýli íslensku, norsku og færeysku við dönsku í sögu og samtíð og áhrif þess á tungumálin þrjú; dönsku sem erlent mál á Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum og sem grannmál í Skandinavíu; málblöndun í færeyskum bókmenntum og stöðu grænlenskrar tungu.