Fræðibækur og rit almenns efnis

Játningar bóksala

Shaun Bythell, fornbóksali í Wigtown í Skotlandi, sló í gegn með Dagbók bóksala. Hér heldur hann áfram þar sem frá var horfið — og bregður upp lifandi og bráðskemmtilegum myndum af sérvitringunum og furðufuglunum sem eru daglegir gestir í bókabúðinni og skrýtna fólkinu sem vinnur þar. Hlý, kaldhæðin og sprenghlægileg frásögn af lífi bókabéusannna.

Jón Steingrímsson og Skaftáreldar

Séra Jóni Steingrímssyni var falin peningasending sem nýta átti til að endurreisa byggð á hamfarasvæðum Skaftárelda. Í leyfisleysi deildi hann út fé til nauðstaddra sem og sín sjálfs og var í kjölfarið kærður til yfirvalda í Kaupmannahöfn. Hér kemur fram nýtt sjónarhorn á móðuharðindin og mál Jóns. Í viðauka er Eldrit Jóns og lýsingar samtímamanna.

Lærdómsrit Bókmenntafélagsins Kommúnistaávarpið

Kommúnistaávarpið kom fyrst út á íslenzku árið 1924. Þessi þýðing var gerð 1949 og er nú birt með ítarlegum skýringum, upprunalegum inngangi Sverris Kristjánssonar sagnfræðings og nýjum eftir Pál Björnsson. Fullyrt er að saga mannsins sé í raun saga sífelldrar stéttabaráttu á milli kúgara og hinna kúguðu, á milli arðræninga og hinna arðrændu.

Kvár

Kvár er heimildarmyndasaga um að vera kynsegin; að upplifa sig hvorki karlkyns né kvenkyns, hvort tveggja í senn eða eitthvað allt annað. Þetta er ein fyrsta bókin um þetta efni sem er gefin út á íslensku. Hún er jafnframt fyrsta íslenska heimildarmyndasagan. Sagan er byggð á viðtölum við sex kvár um reynslu þeirra og skoðanir.

Landsnefndin fyrri. Den islandske Landkommission 1770-1771, VI

Skjöl Landsnefndarinnar fyrri gefa einstæða innsýn í íslenskt samfélag um 1770, en nefndin ferðaðist um Ísland og safnaði upplýsingum um land og þjóð. Í sjötta og síðasta bindi eru birt ýmis vinnugögn nefndarinnar þar sem hún tók fyrir efni eins og torfskurð, kálgarða eða sauðfjárpestina og ólík svör almennings, presta og embættismanna um þau.

Let’s talk about horses

Í þessari fallega myndskreyttu bók, er talað um hesta frá ýmsum sjónarhornum. Höfundar skrifa út frá hjartanu um reynslu sína af hestum og lífi sínu með þeim. Sagt er frá eftirminnilegum hestum og inn í frásögnina er fléttað fræðslu, sögum, og því nýjasta sem uppgötvað hefur verið um hesta. Bókin er nú fáanleg á íslensku, ensku og þýsku.

Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar

Verk Lúkíans, sem uppi var á 2. öld, nutu lengi mikilla vinsælda, ekki síst til kennslu í forngrísku, meðal annars við Bessastaðaskóla á fyrstu áratugum 19. aldar. Hér birtast þau í óviðjafnanlegum þýðingum Sveinbjarnar Egilssonar sem varðveittar eru í handritum skólapilta. Már Jónsson bjó til prentunar og skrifar ítarlegan inngang.