Fræðirit, frásagnir og handbækur

Hold og blóð

Saga mannáts

Hér er saga mannáts rakin allt aftur í bernsku mannkyns og grafist fyrir um tákngildi þess, merkingu og orsakir sem liggja að baki. Um leið varpar höfundur ljósi á áhrif þessarar ævafornu iðju á langlífar goðsagnir og venjur, allt frá vampírum og varúlfum til altarissakramentisins, og tengir við sagnir um mannæturaðmorðingja nútímans.

Horfin býli og huldar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu

Í Snæfjallahreppi og Grunnavíkurhreppi urðu mikil umskipti á 20. öldinni. Um aldamótin 1900 var mannlíf í miklum blóma á þessu svæði og íbúafjöldinn umtalsverður á landsmælikvarða. Síðasti bóndinn flutti í burtu 1995. Hér er að finna frásagnir sem þræða hina horfnu byggð, allt frá landnámi til síðustu ábúenda. Fjöldi mynda prýðir bókina.

Hugsandi skólastofa í stærðfræði

14 aðferðir sem styðja við nám og kennslu á öllum skólastigum

Íslensk þýðing á metsölubókinni Building Thinking Classrooms eftir Peter Liljedahl. Einstök handbók fyrir kennara í stærðfræði og öðrum faggreinum. Inniheldur ítarlegar leiðbeiningar um 14 aðferðir sem stuðla að virkri þátttöku nemenda, samræðum í skólastofunni og auknum hugtakaskilningi.

Jæja 1 og 2

Íslenska fyrir byrjendur

Bókunum er ætlað að mæta vaxandi þörf fyrir námsefni í íslensku fyrir erlenda nemendur á öllum aldri og á mörgum getustigum. Efni þeirra er á þyngdarstigi A1‒A2 samkvæmt evrópska tungumálarammanum og bera þemu og orðaforði bókanna þess merki. Í þeim er lögð áhersla á orðaforða og talæfingar um málefni sem standa ungu fólki nær.

Íslensk menning Jötnar hundvísir

Norrænar goðsagnir í nýju ljósi

Jötnar hundvísir er í senn tímamótaverk í alþjóðlegum rannsóknum á norrænni goðafræði og áhugavekjandi íslenskt fræðirit, lifandi og alþýðlega fram sett. Með rannsókn sinni sýnir höfundur fram á að jötnar goðheimsins eru mun flóknari en talið hefur verið; þeir tengjast sköpun heimsins og búa yfir þekkingu um upphaf hans og örlög.

Kjarrá

og síðustu hestasveinarnir á Víghól

Bókin fjallar um veru og störf ungra hestasveina í fjallveiðinni í Kjarrá, um hesta, laxveiði, veiðimenn og náttúruna í heiðarlöndum árinnar. Við sögu kemur fjöldi þjóðþekktra einstaklinga og endurspeglar bókin hið sérstaka samspil manna, hesta og náttúru við laxveiðar á fjalli, fjarri öllum nútímaþægindum.

Laxá

Lífríki og saga mannlífs og veiða. Veiðistaðalýsingar í Mývatnssveit og Laxárdal

Veiðistaðalýsing fyrir Laxá í Mývatnssveit og Laxárdal ásamt þáttum um lífríki, sögu og mannlíf við þessa merku silungsveiðiá. Frásagnir af merku fólki og náttúrufari árinnar sem nýtur alþjóðlegrar friðunar.

Leiðtoginn

Valdeflandi forysta

Ögrandi og nýstárleg bók um leiðtogafærni sem tekur lesandann með í persónulega og krefjandi vegferð þar sem hann öðlast djúpan sjálfsskilning. Á tímum hraða og örra breytinga er tilfinningagreind leiðtoganum mun mikilvægari en vitsmunagreind þar sem árangurinn endurspeglast ekki í því sem hann gerir – heldur öðru fremur í því hver hann er.

Líf á jörðinni okkar

Í þessari mögnuðu bók horfir sjónvarpsmaðurinn David Attenborough um öxl, segir frá lífsstarfi sínu og lýsir þróunarsögu jarðar, áhrifum mannkyns á lífríkið og hvaða augum hann lítur framtíð lífs á jörðu. „Við deilum jörðinni með náttúrunni,“ skrifar Attenborough, „stórkostlegustu öndunarvél sem til er og byggðist upp á milljörðum ára.“