Fræðibækur og rit almenns efnis

Grunnteikning fyrir málm- og bíliðngreinar

Um er að ræða endurskoðaða kennslubók í grunnteikningu, sem hét áður Teikning fyrir hönnunargreinar, en er nú sérstaklega ætluð fyrir nám í málm- og bíliðngreinum. Þetta þýðir að köflum sem sleppt var í fyrri útgáfu hefur verið bætt við að nýju. Jafnframt því hefur val á verkefnum verið endurskoðað og þeim endurraðað í samræmi við nýjar áherslur.

Halldór H. Jónsson arkitekt

Halldór H. Jónsson arkitekt er í senn kunnur sem höfundur þjóðþekktra bygginga og einn helsti áhrifamaður í íslensku athafnalífi á 20. öld. Samhliða rekstri eigin teiknistofu varð hann snemma eftirsóttur til forystustarfa í atvinnurekstri og var á seinni árum gjarnan nefndur „stjórnarformaður Íslands“ vegna setu sinnar í stjórnum stórfyrirtækja.

Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar Heimsins hnoss

Söfn efnismenningar, menningararfur og merking

Í þessari sýnisbók birtast greinar eftir hóp fræðimanna sem varpa ljósi á efnislegar eigur fólks á Íslandi á 18. og 19. öld. Til grundvallar liggja ólíkar gerðir munasafna, annars vegar gripir varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands og hins vegar skráningar á dánarbúum 30 þús. Íslendinga varðveittar á Þjóðskjalasafni Íslands.

Húsameistari í hálfa öld

Einar I. Erlendsson og verk hans

Glæsileg samantekt um ævi og verk Einars I. Erlendssonar arkitekts en fáir íslenskir arkitektar hafa átt lengri og viðburðaríkari starfsævi. Enginn skráði þá merku sögu á meðan Einars naut við en sjálfur gaf hann sig lítt að því að ræða eða skrifa um eigin störf. Nú hefur loks verið ráðin nokkur bót á með þessu yfirlitsriti Björns G. Björnssonar.

Hvað ef?

Róm hefði ekki fallið, Hitler hefði unnið, Bítlarnir hefðu aldrei verið til og fleiri sagnfræðilegar vangaveltur

Kafað í lykilatburði í sögunni og skoðað hvernig þeir hefðu getað farið öðruvísi og hvað hefði þá getað gerst í framhaldinu. Allt frá gullaldarárum Rómarveldis til Þýskalands í fyrri og seinni heimsstyrjöldunum, frá Íslandi á tímum víkinga og útrásarvíkinga til fallvaltra Sovétríkjanna og frá Bítlunum til forsetakosninga í Bandaríkjunum.

Í návígi við fólkið á jörðinni

Segir frá venjulegu fólki í óvenjulegum og stundum ótrúlegum aðstæðum. Náttúruöfl, styrjaldir, hversdagshetjur og illmenni eru meðal þess sem fréttamaðurinn og hjálparstarfsmaðurinn Þórir fjallar um á síðum bókarinnar. Fólkið sem Þórir kynnist hefur ótrúlegan styrk þrátt fyrir hrikalegar aðstæður og er staðráðið í að gera heiminn að betri stað.

Ísland Babýlon

Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi

Um miðja 19. öld gerðu franskir útgerðarmenn út fjölda skipa á Íslandsmið. Óskum þeirra um aðstöðu í landi var mætt með mikilli tortryggni og illur grunur fékk byr undir vængi þegar Napóleon prins kom til Íslands 1856. Viðhorf sem minna á þjóðernispópúlisma nútímans skutu þá upp kolli ásamt ýmsum falsfréttum. En hvað vakti í raun fyrir Frökkum?

Íslandsferð Idu Pfeiffer

Guðmundur J. Guðmundsson þýddi og ritaði inngang

Vorið 1845 steig á land í Hafnarfirði kona að nafni Ida Pfeiffer. Hún var ein á ferð, ferðabókahöfundur að viða að sér efni í bók um Norðurlönd. Hún hafði gert sér háar hugmyndir um land og þjóð og varð ekki fyrir vonbrigðum með náttúru landsins. En kynnin af innfæddum ollu henni vonbrigðum. Henni fannst þeir latir, ágjarnir og hinir mestu sóðar.

Íslenska fyrir okkur hin - tilraunaútgáfa

Vaxandi þörf er á kennslu í íslensku fyrir erlenda nemendur á öllum aldri. Bókin er samin með það að leiðarljósi að hún byggi á markvissan hátt upp orðaforða um nemandann og málefni sem standa honum nær. Í þeim tilgangi er mikil áhersla lögð á að útskýra merkingu orða með myndum. Ítarlegar kennsluleiðbeiningar má nálgast á www.idnu.is

Íslenskar bókmenntir

Saga og samhengi

Íslenskar bókmenntir: saga og samhengi er tveggja binda verk um sögu íslenskra bókmennta frá upphafi Íslandsbyggðar til vorra daga. Þar er sagan rakin á knappan hátt í samhengi við strauma og stefnur hvers tíma og er sú umfjöllun grundvölluð á rannsóknum seinustu áratuga.