Fræðibækur og rit almenns efnis

Catilinusamsærið

Rómaveldi á árunum 66–62 f. Kr. Þá gerði öldungaráðsmaðurinn Lucius Catilina ásamt nokkrum félögum tilraun til að ræna völdum í ríkinu. Þótt frásögnin sé lífleg og spennandi dregur höfundur upp dökka mynd af stjórnmálaástandinu í Róm á þessum tíma, enda telur hann að samsæri Catilinu sé eins konar forleikur að falli rómverska keisaraveldisins.

Dagbók úr fangelsi

Bók þessi var skrifuð meðan höfundurinn var vistaður á Litla Hrauni og lýsir lífinu innan veggja fangelsins nánast dag frá degi þá fimm mánuði sem hann dvaldist þar. Bókin lýsir samskiptum fanganna innbyrðis og við fangaverði, aðbúnaði í fangelsinu o.fl. Einstakur vitnisburður um lífið í íslensku fangelsi, skrifuð af mikilli næmni og skilningi.

Farsótt

Hundrað ár í Þingholtsstræti 25

Þetta er saga um sjúkdóma, lækningar og tilraunir til að vernda samfélagið gegn sóttum. Þetta er saga borgar og velferðarkerfis en ekki síst saga af fólki. Aðalpersónan er þó gamla timburhúsið sem byggt var árið 1884 sem fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga. Síðar var það gert að farsóttaspítala, geðsjúkrahúsi og seinast gistiskýli fyrir heimilislausa.

Fáskrúðsfjarðarsaga I-III

Þættir úr sögu byggðar til ársins 2003

Í Fáskrúðsfjarðarsögu er fjallað um fjölmarga efnisþætti, s.s. þróun byggðarinnar, málefni hreppa, sjávarútveg, landbúnað, verslun, starfsemi mikilvægra stofnana og félags- og menningarmál. Þetta er þriggja binda verk og eru margir Fáskrúðsfirðingar, fyrr og nú kallaðir fram á sjónarsviðið. Fjölmargar myndir prýða bækurnar.

Fínir drættir leturfræðinnar

Fallegt og spennandi umbrot gleður auga lesenda og vekur áhuga þeirra. Sé illa hugað að hinum fínni dráttum textans verður lesturinn hins vegar erfiður og gleðin skammvinn. Hér má finna ýmsar lausnir, ekki síst í umbroti og framleiðslu bókarinnar sjálfrar. Ómissandi bók fyrir þá sem áhuga hafa á góðri hönnun.

Smárit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur Fjöltyngi og fjölskyldur

Í þessari bók er að finna umfjöllun um hlutverk og áhrif samfélagsins og fjölskyldunnar á þroska og menntun fjöltyngdra barna. Höfundurinn hefur um árabil rannsakað sambýli tungumála og gefið út bækur og rit um áhrif þeirra á sjálfsmynd, uppeldi og nám ungmenna sem nota fleiri en eitt tungumál í daglegu lífi.

Handbók í íslenskri miðaldasögu IV Fornir hættir

Húsakostur og verkmenning

Hér er að finna rækilega úttekt á húsakosti Íslendinga á miðöldum með hliðsjón af nýlegum rannsóknum á fornleifum og fræðilegri umfjöllun síðustu ára. Efnið er sett í samhengi við hugmyndir um hnignun mannlífs á síðari hluta miðalda og leiddar að því líkur að samspil hnignunar og framfara sé flóknara en áður hefur verið talið.

Fræðabálkur að ferðalokum

Efni skráð 2020-2021

Í þessari bók rekur Þórður Tómasson (1921–2022) meðal annars gamalt orðafar um raddfæri og málfar, geð- og skapbrigði, svefn og svefnhætti, fjallar um lækningajurtir og matargerð fyrri alda og greinir frá margvíslegum fróðleik um mannlíf og menningu fyrri tíðar undir Eyjafjöllum og víðar um Suðurland. Í bókarauka birtist ítarleg ritaskrá höfundar.

Fyrningar

Ritgerðir um bókmenntir fyrri alda 1969–2019

Greinasafn með 22 ritgerðum, á íslensku, ensku og norsku, sem birtust frá 1969 til 2019: greinar um fornan kveðskap, greinar um fornsögur og loks greinar um Snorra Sturluson og verk sem honum hafa verið eignuð. Höfundur kenndi íslenskar bókmenntir við Háskóla Íslands, háskóla á Norðurlöndum og vestanhafs og var forstöðumaður Árnastofnunar í áratug.

Glaðasti hundur í heimi

Biblía hundaeigandans

Glaðasti hundur í heimi er afar kærkomin bók fyrir hundaeigendur. Hún er skrifuð af kostgæfni, reynslu og þekkingu og geymir allt það sem skiptir máli í hundauppeldi og meira til. Þetta er biblía sem allir hundaeigendur verða að eignast. Heiðrún Villa hundaþjálfari er einn helsti hundaatferlisfræðingur landsins og notar afar uppbyggilegar aðferðir.

Gripla 33 (2022)

Alþjóðlegt ritrýnt tímarit Árnastofnunar

Í Griplu er tilraunaútgáfa á ólíkum gerðum Laxdælu, túlkun á kristilegu táknmáli í Heimskringlu og karlmennsku í Kormáks sögu, og greinar um náttúrusteina og hlutverk Margrétar sögu við fæðingar. Þá er rýnt í spássíukrot, messusöngsbækur og heimildir um Þingeyrakalaustur, Sethskvæði, Grobbians rímur og karllæga ritstjórn á sögu um Gríshildi góðu.