Fræðirit, frásagnir og handbækur

Síða 2 af 5

Fyrsti bjórsopinn

og fleiri smálegar lífsnautnir

Þessi litla perla franska rithöfundarins Philippes Delerm, fagurlega myndskreytt, sló hressilega í gegn þegar hún kom út í Frakklandi og hefur selst í meira en milljón eintökum þar í landi. Bókin hlaut frönsku Grandgousier-bókmenntaverðlaunin en þau eru veitt fyrir bækur sem lofa glaðlyndi og lífsins lystisemdir. Sannkallaður óður til Frakklands.

Grænland og fólkið sem hvarf

Hvað varð af norrænu byggðinni á Grænlandi sem hvarf með dularfullum hætti fyrir 500 árum? Hér er reynt að ráða gátuna auk þess sem rýnt er í sögu landsins frá komu danskra nýlenduherra, mikilla þjóðfélagsbreytinga á 20. öld og svo umsvifum Bandaríkjanna eftir síðari heimsstyrjöld og fram á okkar daga. Aðgengilegt sagnfræðirit og ferðasaga í bland.

Gömlu íslensku jólafólin

Fróðleikur og ljótar sögur

Í gamla daga voru sagðar margar ljótar sögur um Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og jólaköttinn. Grýla hefur t.d. búið með sex ferlegum tröllkörlum og Leppalúði haldið framhjá kerlu sinni. Jólasveinarnir eru mun fleiri en þrettán og stundum var sagt að þeir fitnuðu af blótsyrðum. Flotnös og Lungnaslettir koma ekki lengur til byggða, sem betur fer.

Horfin athygli

Hvers vegna er svona erfitt að einbeita sér – og hvað er til ráða?

Börn og fullorðnir eiga æ erfiðara með einbeitingu: að lesa, læra og fást við flókin verkefni. En hver er ástæðan og hvað er til ráða? Hér er rýnt í þá ólíku þætti sem ræna okkur getu til djúprar og sjálfstæðrar hugsunar, með uggvekjandi afleiðingum. Einstaklega áhugaverð og læsileg metsölubók um brýnt málefni.

Hve aumir og blindir þeir eru

Dionysius Piper á Íslandi 1740–1743

„Hinn 2. júlí var presturinn hér við altarisgöngu, en svo drukkinn var hann, að ömurlegt var á að horfa“. Þannig lýsti Herrnhútatrúboðinn Dionysius Piper kynnum af íslenskum presti. Bréf Pipers og önnur gögn, tengd veru hans á Íslandi, birtast í þessari bók, auk inngangstexta.

Í sama strauminn

Stríð Pútíns gegn konum

Í þessari beittu ritgerð fjallar Oksanen um kynferðisofbeldi sem helsta vopn rússneskrar heimsvaldastefnu undir stjórn Pútíns. Hún vísar í sína eigin fjölskyldusögu þegar hún greinir frá og fordæmir það kerfisbundna ofbeldi sem rússneski herinn hefur áratugum saman beitt andstæðinga sína og nágrannaþjóðir. Ekki vera skeytingarlaus, ekki líta undan.