Fræðibækur og rit almenns efnis

Veðurskeyti frá Ásgarði

Ferðahandbók um tónverk

Veðurskeyti frá Ásgarði er eins konar ferðahandbók um söngverk Atla Ingólfssonar, Elsku Borga mín, og myndbandsverk sem Jeannette Castioni gerði við það. Verkin byggjast á sendibréfum sem Lilja Magnúsdóttir, bóndakona í Ásgarði í Dölum, skrifaði dóttur sinni um miðja 20. öldina. Bókin samanstendur af greinum fræðafólks úr ýmsum áttum.

Vegabréf: Íslenskt

Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó

Sigríður Víðis Jónsdóttir býður lesandanum að fylgja sér á ferðalögum um heiminn, m.a. til Palestínu, Sýrlands og Rúanda. Í gegnum frásagnir af fólki á hverjum stað miðlar hún heimssögunni af einstakri næmni og virðingu, og minnir okkur á að þrátt fyrir að höf og eyðimerkur skilji okkur að búum við öll undir sama himni, sömu sól.

Venjulegar konur

Vændi á Íslandi

Vændi viðgengst á Íslandi en þó heyrast sjaldan raddir þeirra sem í því lenda. Hér ræðir Brynhildur Björnsdóttir við sex íslenskar konur sem hafa verið í vændi, þær bera sára reynslu sína ekki utan á sér en lýsa aðstæðum sem aldrei ættu að viðgangast. Jafnframt er fyrirbærið vændi kannað frá ýmsum hliðum og rætt við fagfólk sem vinnur með þolendum.

Vítislogar – kilja

Heimur í stríði 1939–1945

Heimsstyrjöldin síðari kostaði um 60 milljónir manna lífið – að meðaltali 27 þúsund manns á dag. Milljónir hlutu ævarandi líkamlegan og andlegan skaða. Heilu borgirnar voru rústir einar. Í þessari bók dregur Max Hastings saman rannsóknir sínar í eitt heildarverk sem fengið hefur frábærar viðtökur og þykir varpa nýju ljósi á blóðugustu ár 20. aldar.

Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl II. 1711‒1715

Yfirrétturinn á Íslandi starfaði á árunum 1563–1800 og var æðsta dómstig innanlands. Í öðru bindi dóma og skjala yfirréttarins birtast dómar áranna 1711–1715. Stór hluti skjalanna tengist rannsókn þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á réttarfari á Íslandi. Í bindinu koma m.a. fyrir galdramál, meiðyrðamál, rekamál og deilur um málsmeðferð.

Það sem ég hefði viljað vita

Þessi bók byggir á reynslu Eddu Falak og hefur að geyma vitneskju sem hún hefði viljað búa yfir þegar hún var yngri, hluti sem hún veit í dag vegna þess sem hún hefur gengið í gegnum. Edda er fjármálafræðingur og stýrir hlaðvarpi sínu Eigin konur. Í bókinni er að finna mikilvæg svör við spurningum sem erfitt er að spyrja – en verður að svara.

Þórir Baldvins­son arkitekt

Þórir Baldvinsson (1901-1986) arkitekt var í senn framúrstefnumaður í anda funksjónalisma og baráttumaður fyrir bættum húsakosti til sveita. Hann veitti Teiknistofu landbúnaðarins forstöðu á árunum 1938-1969. Í þessari bók er yfirlit verka Þóris ásamt greinum um líf hans og starf. Úlfur Kolka sá um hönnun.