Útgefandi: Forlagið - Mál og menning

Armeló

Elfur hatar að ferðast. Einhverra hluta vegna er hún samt komin hingað, til þessa óspennandi smábæjar, með Birgi. Nema Birgir er allt í einu horfinn, ásamt bílnum og öllum farangrinum. Hún skilur þetta ekki, hann er ekki beint hvatvís. En það var eitthvað sem hann sagði kvöldið sem þau rifust í fyrsta skipti. Kvöldið áður en þau komu til Armeló.

Bóksalinn í Kabúl

Vorið 2002, skömmu eftir að talibanar misstu völd í Afganistan, dvaldi norska blaðakonan Åsne Seierstad um skeið hjá fjölskyldu í Kabúl og skrifaði í kjölfarið þessa mögnuðu frásögn af landi í rústum og fólki sem togast á milli rótgróinna hefða og nýrra hugmynda í leit sinni að frelsi og betra lífi. Bókin fór sigurför um heiminn og er orðin sígild.

Ból

LínLín er ekki fisjað saman. Þrátt fyrir sáran missi og þung áföll stendur hún keik. En nú er komið að ögurstund: Náttúran fer hamförum við sælureitinn hennar í sveitinni. Einbeitt heldur hún þangað, til móts við minningarnar, leyndarmálin og sorgirnar stóru. Mögnuð saga um ofurást og hjartasorg, styrk og uppgjöf, eldheitt verk frá snilldarhöfundi.

Ég vil líka eignast systkin

Pétur langar í lítið systkini. Aldrei þessu vant þarf hann ekki að rella lengi. En þegar Lena litla fæðist er Pétur ekki alveg viss lengur. Hann hefði kannski frekar átt að biðja um þríhjól. Yndisleg saga sem hefur skemmt og yljað stækkandi fjölskyldum í áratugi. Einstakar myndir Ilon Wikland gæða frásögnina töfrum.

Ég þori! Ég get! Ég vil!

Þegar íslenskar konur höfðu svo hátt að allur heimurinn heyrði í þeim

Gullfalleg myndabók eftir verðlaunahöfundinn Lindu Ólafsdóttur um kvennafrídaginn 1975, þegar íslenskar konur tóku sér frí, gengu út af heimilum sínum, skólum og vinnustöðum og kröfðust jafnréttis og breytinga. Bókin hefur þegar komið út í Bandaríkjunum og hlotið afar jákvæðar viðtökur.

Flagsól

Í þessari undurfallegu myndskreyttu ljóðabók fáum við að kynnast leyndarlífi íslenskra sveppa. Raddir þeirra berast okkur úr skógarbotninum og vegkantinum, af trjábolum, greinum og steinum; við kynnumst sveppum sem skjóta, springa, seyta, fettast og brettast, trega og syrgja, daðra og elska. Á fjórða tug vatnslitamynda eru í bókinni.