Niðurstöður

  • Forlagið - Mál og menning

10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undar­legu veröld

Látin vændiskona liggur í ruslatunnu í skuggasundi og rifjar upp ævi sína: Uppvaxtarárin á íhaldssömu heimili, miskunnarlaust lífið á hóruhúsum Istanbul og dýrmæta vináttuna við annað utangarðsfólk – vináttu sem reynist ná langt út yfir gröf og dauða. Höfundurinn hlaut nýlega Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness.

171 Ísland

Áfangastaðir í alfaraleið

Ítarleg og stórskemmtileg ferðahandbók sem veitir nýja sýn á náttúru landsins og varpar ljósi á þjóðarsöguna og þjóðarsálina. Hér er lesandinn leiddur á staði sem fram að þessu hafa verið á fárra vitorði og sýndar eru nýjar hliðar á vinsælum áfangastöðum...

Af hverju gjósa fjöll?

Þessi fróðlega bók, sem hér kemur út í nýrri útgáfu, geymir 40 spurningar og svör af Vísindavefnum um eldgos og eldvirkni. Öllum svörum fylgja skemmtilegar og skýrandi myndir og kort sýna helstu eldfjöll jarðar, flekaskil og íslenskar eldstöðvar, þar á meðal þá nýjustu: í Geldingadölum.

Andlit á glugga

Úrval íslenskra þjóðsagna með skýringum

Safn íslenskra þjóðsagna og ævintýra með nútímastafsetningu og ítarlegum orðskýringum. Í bókinni eru um 60 sögur þar sem lýst er ástum og grimmum örlögum, heimsku og útsjónarsemi, hugrekki og hryllingi.

Augu Rigels

Áhrifamikil saga um sterka konu, framhald bókanna Hin ósýnilegu og Hvítt haf. Lífið er fallið í fastar skorður eftir stríðið en Ingrid á einhverju ólokið og hún leggur af stað í langferð með tíu mánaða dóttur sína á bakinu í leit að ástmanni sínum. Hún rekur slóð hans en hefur stöðugt á tilfinningunni að hún fái ekki að heyra allan sannleikann.

Alexander Daníel Hermann Dawidsson

Bannað að eyðileggja

Alexander er með ADHD og það er allt í lagi – nema þegar lífið tekur upp á því að fara á hvolf. Bannað að eyðileggja er spennandi saga um Alexander og Sóleyju bekkjarsystur hans, litríku fjölskyldurnar þeirra, mömmuna sem er farin og bandbrjálaðan kennara. Áhrifamikil og skemmtileg saga eftir einn ástsælasta höfund landsins.

Banvæn snjókorn

Hanna er nýflutt til pabba síns á Íslandi, til að ganga í menntaskóla. Imogen er áhrifavaldur með meira en milljón fylgjendur sem kemur til að halda fyrirlestur um samfélagsmiðla í Hörpu. Þegar leiðir þeirra liggja saman er önnur grunuð um morð, leitin að sannleikanum leggur hina í lífshættu. Æsispennandi ungmennasaga eftir metsöluhöfund.

Barnalestin

Amerigo er sjö ára og býr í sárri fátækt með móður sinni í Napólí. Heimsstyrjöldinni er nýlokið og allt er í rúst. Fjölmörg börn úr borginni eru send til vetrardvalar norður í landi, þar sem ástandið er skárra. Sum snúa aldrei aftur. Ljúfsár og heillandi saga byggð á sönnum atburðum, um harða lífsbaráttu, fjölskyldubönd og neyðina sem markar fólki bás og örlög.

Bál tímans

Örlagasaga Möðruvalla­bókar í sjö hundruð ár

Ofan í læstri hvelfingu í Reykjavík eru varðveitt ómetanleg skinnhandrit sem voru skrifuð fyrir mörg hundruð árum. Eitt þeirra er Möðruvallabók. Hér segir hún sögu sína þar sem við sögu koma hetjur og skúrkar Íslandssögunnar og hvernig hún slapp aftur og aftur naumlega frá báli tímans. Bók sem öll fjölskyldan getur notið saman.

Bjarmalönd

Rússland, Úkraína og nágrenni í nútíð, fortíð og framtíð

Í senn stórfróðleg og bráðskemmtileg svipmynd af heimshluta sem fjallað er um í næstum hverjum fréttatíma, hvort sem um er að ræða stríð í austurhluta Úkraínu eða mótmæli gegn Lúkasjenkó í Hvíta-Rússlandi, átök um Nagornó Karabak eða ráðgátuna Pútín. Skyldulesning allra sem vilja fylgjast með.

Bréf Vestur-Íslendinga III

Í þriðja og síðasta bindi þessarar merku ritraðar birtast bréf vesturfara sem hófu að skrifa heim á 20. öldinni. Bréfin eru heillandi lesning og ómetanleg heimild um vesturíslenskt samfélag. Efni þeirra litast af innreið nútímans og mörgum hinna eldri þykir sárt að horfa upp á afkomendurna samlagast nýju þjóðfélagi og tapa niður íslenskunni.

Djúpið

Árið 1975 er vísindafólk ráðið til starfa hjá Búseturöskun ríkisins í þeim tilgangi að efla mannlíf og atvinnu í Djúpinu. Þar rekst líffræðineminn Valborg á veruleika þar sem hlutverk konunnar er að hella upp á kaffi og stjana við karlana, sem taka allar ákvarðanir þótt svo eigi að heita að það sé kvennaár. Heillandi saga eftir höfund Hansdætra.

Draumasafnarar

Ellefta ljóðabók Margrétar Lóu geymir myndræn og tregafull ljóð um horfna vini og hlátur sem ómar ekki lengur, en er um leið óður til lífsins og ferðalagsins framundan, þar sem ný kynni kvikna og nýjar sögur verða til. Einvera og vinátta, lífsþorsti og heit þrá, draumar og ævintýri sem enda ekki alltaf vel; minnisstæð ljóð um allt það sem lifnar og deyr.

Dreki í múmíndal

Hugljúf og falleg saga um síðasta drekann í veröldinni, sem múmínsnáðinn finnur í gruggugri tjörn. Drekinn glitrar sem gull, lifir á flugum og er ákaflega þrjóskur. Múmínsnáðinn þráir ekkert meira en að eiga dreka en drekinn kýs miklu frekar félagsskap Snúðs! Litríkar teikningar varpa töfraljóma á lífið í múmíndal.

Drottningin sem kunni allt nema ...

Bambalína drottning kann allt! Nema kannski eitt. Hvað ætli það sé? Kannski kemur það í ljós daginn sem hún þeysir í hestvagninum sínum til að opna nýja leikskólann. Sprenghlægileg saga handa börnum sem kunna líka (næstum) allt og foreldrum sem kunna gott að að meta.

Eftirlifend­urnir

Þrír bræður heimsækja yfirgefið kot á afskekktum stað, þar sem þeir dvöldu í barnæsku, til að uppfylla hinstu ósk móður sinnar. Um leið þurfa þeir að horfast í augu við undarlegan uppvöxt og rifja upp sársaukafullan atburð sem hefur haft mikil áhrif á líf þeirra.

Eikonomics

Sumir halda að hagfræði sé hrútleiðinleg og snúist eingöngu um verðteygni, stýrivexti, verga þjóðarframleiðslu og arðsemi eigin fjár á fyrsta ársfjórðungi. En í húsi hagfræðinnar eru fleiri herbergi sem minna hefur farið fyrir, svo sem jóla- og djammhagfræðin auk landabruggs- og bílasöluhagfræðinnar. Hér er hlutur þeirra réttur nokkuð í grútskemmtilegri og stórfróðlegri bók.

Einlægur Önd

Launfyndin og hárbeitt skáldsaga um útskúfun, refsingu og fyrirgefningu. Hér segir frá rithöfundinum Eiríki Erni, sem hefur brennt allar brýr að baki sér, og sögu hans um Felix Ibaka frá Arbítreu, þar sem fólk refsar hvert öðru með múrsteinaburði. Eiríkur Örn Norðdal hefur vakið verðskuldaða athygli heima og erlendis fyrir bækur sínar, sem jafnan eru nýstárlegar og ögrandi.