Ljóð og leikrit

Skrifað í þangið

Í þessari bók eru yrkisefni af margvíslegum toga. Einn kafli er helgaður nánasta umhverfi höfundar, 101 í Reykjavík, annar höfðar til fólks á öllum aldri með frjótt ímyndunarafl, sá þriðji er endurminningar, fjórði er helgaður minningu Ástu Lilju, eiginkonu höfundar, og sá síðasti, Trú, fjallar um tilvist mannsins og tengsl hans við náttúruna.

Skurn

Ung stúlka stríðir við svefnleysi eftir að tvíburasystir hennar lendir í slysi. Hún reynir að dreifa huganum með því að hugsa um allt sem er kringlótt. Skurn er fíngerð ljóðsaga um aðskilnað og áföll, styrk og viðkvæmni, og eftir stendur spurningin hvort hægt sé að skilja sársauka annarra.

Stórsæ stjarnfræðileg fyrirbæri

Eyrún Ósk Jónsdóttir, handhafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, yrkir hér um föðurmissi, afstæði tíma og rúms, og hvernig megi lifa af missi sem líkist því þegar reikistjarna hverfur af himni. En líka um það sem yfirstígur tíma og rúm, kærleikann, fegurðina og ástina og þá töfra lífsins sem mikilvægt er að við förum ekki á mis við.

Svartdjöfull

Með gömlum hákarlaveiðimanni sækir höfundur á mið myrkurs og sjávar til að gá hvað þar leynist. Á eftir þeim liggur slóð klakahröngls, þunglyndis og ótta. Eða hvað leynist innan við litlar dyr undir súð og bakvið andlit í spegli? Hákarlar, djöflaskötur og mara leggjast yfir og breyta skáldi í marmara.

Talandi steinar

Ljóðabálkurinn Talandi steinar lýsir dvöl á geðdeild og glímu við erfiðar tilfinningar. Þessi áhrifamikla bók hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2022 og segir í umsögn meðal annars: "Þetta heildstæða verk býr yfir framvindu um leið og hvert ljóð stendur sjálfstætt sem sjónhending inn í tilveru þeirra sem glíma við geðsjúkdóma."

Urðarflétta

Fíngerð og dulmögnuð prósaljóð um náttúruna sem býr innra með okkur, viðkvæm augnablik, horfna skóga, uglur sem grípa nóttina, ástvini í handanheimi, eggaldin sem vex úr koki, kreppta hnefa, sár sem aldrei gróa, fljúgandi þakplötur, þeysandi halastjörnur og byltingar sem fæðast í móðurkviði. Urðarflétta er önnur ljóðabók Ragnheiðar Hörpu.

Urta

Urta segir í fáum en áhrifamiklum orðum sögu af harðri lífsbaráttu á hjara veraldar. Gerður Kristný hefur lengi verið eitt ástsælasta skáld þjóðarinnar, enda hafa fáir viðlíka tök á blæbrigðum tungumálsins. Ljóðabálkar hennar hafa vakið aðdáun lesenda hér heima og víða erlendis og því sætir nýr slíkur ævinlega tíðindum.

Það sem hverfur

What disappears / Ce qui disparaît / Was verschwindet

Tvímála ljóðaútgáfa ásamt fjölda ljósmynda af íslenskum eyðibýlum. Verk sem býr yfir miskunnarlausri fegurð hnignunar sem höfundarnir fanga með eftirminnilegum hætti. Tregablandin ljóð kallast á við áhrifamiklar myndir og hreyfa svo sannarlega við lesandanum. Fæst með þýðingum á ensku, frönsku og þýsku!