Ljóð og leikrit

Krossljóð

Sigurbjörg Þrastardóttir fer hér nýstárlega leið í skáldskap sínum og slæst í för með 40 erlendum skáldum af ólíkum uppruna. Ásamt því að þýða ljóð eftir hvert og eitt þeirra dregur hún fram óbirt ljóð úr eigin fórum sem kallast á við raddir gestanna.

Ljóðin hennar Vigdísar

Vart verður fundin meiri ástríðumanneskja en Vigdís Finnbogadóttir þegar kemur að íslenskri tungu og menningu. Vigdís hefur alla tíð verið unnandi ljóðlistar og hér tekur hún saman helstu ljóðin sem hafa fylgt henni frá bernsku til dagsins í dag. Einstök verk listakonunnar Guðbjargar Lindar auðga ljóðlínurnar og mynda skemmtilegt samtal við kvæðin.

Máltaka á stríðstímum

Máltaka á stríðstímum er frásögn manneskju sem fylgist með stríði í heimalandi sínu úr fjarlægð. Hennar eigin þjóð, Rússar, hervæðist og ræðst inn í Úkraínu. Andstaða höfundar við stríðsreksturinn vekur margslungnar tilfinningar og spurningar sem glímt er við í bókinni. Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Næturverk

Næturverk eftir meistara Sjón er mögnuð og marglaga, djúpskyggn og draumkennd ljóðabók, þar sem innri sýn og ytri veruleiki mætast í nóttinni. Auðugt myndmálið kveikir sterkar kenndir og knýjandi hugsanir um mannskepnuna og veröldina, myrkar goðsagnir og hversdagslegur veruleiki kallast á og orðfærið er engu líkt.

Ókyrrð

Leikrit

Ókyrrð er gamanleikur um háska í háloftunum. Leikritið gerist í flugvél á tímum heimsfaraldurs og hverfist um fjórar persónur sem allar stefna í ólíkar áttir. Það er ókyrrð í lofti í þessu ærslafulla verki sem fjallar um þrána eftir jafnvægi og óuppfylltar óskir um að hafa stjórn á eigin tilveru, í heimi þar sem ekkert lætur að stjórn.

Ólgublóð / Restless Blood

Úrval ljóða ásamt enskum þýðingum Júlíans D‘Arcys og Ástráðs Eysteinssonar.

Hannes Hafstein steig fram sem nýtt afl í íslenskum skáldskap. Ljóð hans þóttu einkennast af krafti, raunsæi og hispursleysi. Í þeim búa innri átök sem settu einnig svip á feril hans sem stjórnmálamanns og fyrsta ráðherra Íslands.

Plómur

Litsterkar ljóðmyndir sem snerta jafnt við tilfinningum og skilningarvitum. Umfjöllunarefnið eru nýjar kenndir sem ólga í brjóstinu og ekki má tala um. Þetta er fyrsta ljóðabók höfundar sem er ein Svikaskálda og hefur í félagi við þau meðal annars skrifað skáldsöguna Olíu sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021.

Sjófuglinn

Egill Ólafsson situr við dánarbeð föður síns. Upp í hugann koma minningar og svipmyndir úr viðburðaríkri ævi. Ólafur Á. Egilsson var lengi til sjós, kallaður Sjófuglinn, vann margvíslega erfiðisvinnu á stríðsárunum og lá ungur heilt ár berklaveikur á Landakoti ásamt félögum sínum sem dóu einn af öðrum.