Niðurstöður

  • Ljóð og leikrit

Ísland pólerað

Ísland pólerað er safn örsagna og ljóða eftir Ewu Marcinek, pólskan rithöfund sem búsett er í Reykjavík. Með húmor og kaldhæðni að vopni lýsir hún raunveruleika ungrar konu sem flytur til Íslands til þess að hefja nýtt líf á nýju tungumáli. Bókin hefur þegar hlotið frábærar viðtökur þar sem nýrri rödd í íslenskum bókmenntum er fagnað.

Kona/Spendýr

Þriðja ljóðabók Ragnheiðar Lárusdóttur, en fyrri bækur hennar, Glerflísakliður og 1900 og eitthvað, hlutu mikla athygli og lof, og fyrir þá síðarnefndu fékk Ragnheiður Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Krossljóð

Sigurbjörg Þrastardóttir fer hér nýstárlega leið í skáldskap sínum og slæst í för með 40 erlendum skáldum af ólíkum uppruna. Ásamt því að þýða ljóð eftir hvert og eitt þeirra dregur hún fram óbirt ljóð úr eigin fórum sem kallast á við raddir gestanna.

Lifað með landi og sjó

Höfundur er Strandamaður að ætt og uppruna. Lifað með landi og sjó er sjöunda bók Jóns og fyrsta ljóðabók hans. Ljóðin eru persónuleg – óður til náttúru Íslands og sögu lands og þjóðar. Ása Önnu- og Ólafsdóttir myndskreytti.

Ljóðin hennar Vigdísar

Vart verður fundin meiri ástríðumanneskja en Vigdís Finnbogadóttir þegar kemur að íslenskri tungu og menningu. Vigdís hefur alla tíð verið unnandi ljóðlistar og hér tekur hún saman helstu ljóðin sem hafa fylgt henni frá bernsku til dagsins í dag. Einstök verk listakonunnar Guðbjargar Lindar auðga ljóðlínurnar og mynda skemmtilegt samtal við kvæðin.

Manndómur

Kraftmikið og áleitið verk um uppvöxt drengs til manns, um ást og sorg og það að sættast við sjálfan sig. Þorvaldur hefur birt sögur og ljóð í bókum og tímaritum og sent frá sér tvær ljóðabækur.

Máltaka á stríðstímum

Máltaka á stríðstímum er frásögn manneskju sem fylgist með stríði í heimalandi sínu úr fjarlægð. Hennar eigin þjóð, Rússar, hervæðist og ræðst inn í Úkraínu. Andstaða höfundar við stríðsreksturinn vekur margslungnar tilfinningar og spurningar sem glímt er við í bókinni. Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Með flugur í höfðinu

Sýnisbók íslenskra örsagna og prósaljóða 1922–2012

Í þessu yfirliti eru afar fjölbreyttir textar eftir tugi íslenskra skálda, fyndnir, ljóðrænir, angurværir eða beittir. Allir eiga það sameiginlegt að liggja á mörkum ljóðs og sögu og fá margir spennu sína af því. Kristín Guðrún ritar einnig inngang þar sem hún rekur sögu bókmenntaformsins og veltir fyrir sér skilgreiningum þess.

Meinvarp

Séra Hildur Eir er prestur í Akureyrarkirkju og lýsir hér af einlægni, næmni og húmor glímu sinni við krabbamein og tilfinningunum sem fylgja þeim átökum: Sársauka og sorg en líka gleði, trú, von og sátt.

Næturverk

Næturverk eftir meistara Sjón er mögnuð og marglaga, djúpskyggn og draumkennd ljóðabók, þar sem innri sýn og ytri veruleiki mætast í nóttinni. Auðugt myndmálið kveikir sterkar kenndir og knýjandi hugsanir um mannskepnuna og veröldina, myrkar goðsagnir og hversdagslegur veruleiki kallast á og orðfærið er engu líkt.

Ljóðorð Eirorms

Óða óða, Vonarskjöldur, Úlfamjólk

Ljóðorð Eirorms: Ljóðorð Eirorms: Óða óða, Vonarskjöldur og Úlfamjólk. Þrjár ljóðabækur eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur

Ókyrrð

Leikrit

Ókyrrð er gamanleikur um háska í háloftunum. Leikritið gerist í flugvél á tímum heimsfaraldurs og hverfist um fjórar persónur sem allar stefna í ólíkar áttir. Það er ókyrrð í lofti í þessu ærslafulla verki sem fjallar um þrána eftir jafnvægi og óuppfylltar óskir um að hafa stjórn á eigin tilveru, í heimi þar sem ekkert lætur að stjórn.

Ólgublóð / Restless Blood

Úrval ljóða ásamt enskum þýðingum Júlíans D‘Arcys og Ástráðs Eysteinssonar.

Hannes Hafstein steig fram sem nýtt afl í íslenskum skáldskap. Ljóð hans þóttu einkennast af krafti, raunsæi og hispursleysi. Í þeim búa innri átök sem settu einnig svip á feril hans sem stjórnmálamanns og fyrsta ráðherra Íslands.

Óskalög hommanna

Ljóðin í Óskalögum hommanna eru oftast á fremur glaðværum nótum þótt ýjað sé að erfiðleikum í barnæsku. Oft er vitnað í dægurlagatexta eða þekkt bókmenntaverk og lagt út frá þeim. Ítarlegar skýringar á slíkum tilvitnunum getur að líta í bókarlok.

Plómur

Litsterkar ljóðmyndir sem snerta jafnt við tilfinningum og skilningarvitum. Umfjöllunarefnið eru nýjar kenndir sem ólga í brjóstinu og ekki má tala um. Þetta er fyrsta ljóðabók höfundar sem er ein Svikaskálda og hefur í félagi við þau meðal annars skrifað skáldsöguna Olíu sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021.

Sjófuglinn

Egill Ólafsson situr við dánarbeð föður síns. Upp í hugann koma minningar og svipmyndir úr viðburðaríkri ævi. Ólafur Á. Egilsson var lengi til sjós, kallaður Sjófuglinn, vann margvíslega erfiðisvinnu á stríðsárunum og lá ungur heilt ár berklaveikur á Landakoti ásamt félögum sínum sem dóu einn af öðrum.

Skáld-Rósa

Heildarsafn kveðskapar

Skáldskapur Rósu Guðmundsdóttur (1795–1855) birtist hér í fyrsta sinn í heildstæðu safni sem Ragnar Ingi Aðalsteinsson ritstýrði og bjó til prentunar. Formála ritar Elísabet Jökulsdóttir skáld sem segir þar m.a. „Skáld-Rósa er skáld því hún býr yfir umbreytingarafli, skáldlegum þrótti og skáldlegri sýn. ... hún veinar meðan hjartað springur.“

Skepna í eigin skinni

Sterk og heillandi ljóðabók þar sem eftirminnilegar náttúru- og borgarmyndir fanga athyglina en undir niðri býr annar og sárari veruleiki. Hér er ort um tímann og söguna, lífið og dauðann, í djúpum og myndríkum ljóðum; andrúmsloftið er grípandi og textinn blæbrigðaríkur og tær. Fyrsta ljóðabók Hrafnhildar sem er þekkt fyrir leikrit sín.