Niðurstöður

  • Ljóð og leikrit

Í einlægni / Sincerely

Í einlægni geymir ljóð Þorbjargar Ingu og sýnir einlægar birtingarmyndir í litrófi tilfinninganna. Tilefni ljóðanna eru sum hver komin beint frá höfundi, önnur hafa vakið upp spurningu eða setið eftir í huga hennar á einhvern hátt. Titill bókarinnar er heiti á ljóði sem segir í barnslegri einlægni frá kostum ljóss og myrkurs. Þannig má horfa á lífið sjálft- í einlægni ...

Í svartnættinu miðju skín ljós

ljóðaviðtöl

"Síðustu mánuði hef ég átt samræður við fjölda ólíkra einstaklinga, áhugavert fólk sem hefur treyst mér fyrir sögum sínum, frásögnum sem hreyfðu við hverri taug. Í þessari bók hef ég reynt að gera þessum einstöku sögum skil í ljóðaformi. Hvert ljóð er merkt manneskjunni sem á frásögnina."

Jóðl

Hér er komið úrval kvæða og ljóða eftir Braga Valdimar sem þjóðinni er að góðu kunnur fyrir snjalla texta sína. Hér eru gamankvæði, ástarkvæði, lífsspeki og kvæði af öllu tagi.

Klettur

ljóð úr sprungum

Klettur – ljóð úr sprungum er óvenjuleg ljóðabók. Ólafur Sveinn Jóhannesson missti ungur að árum foreldra sína og sem elsta barn þeirra tók hann að sér uppeldi yngri systkina. Hér yrkir hann um sína einstöku lífsreynslu af einlægni og íhugun sem er áhrifamikil og lifir lengi með lesandanum.

Klón – eftir­mynda­saga

Bráðfyndin og nístandi ljóðsaga um ábyrgð mannsins gagnvart lífi á jörðinni, um dauða og endurfæðingu. Í bókinni er rakin ævisaga klónahundsins Samsonar Ólafssonar Moussaieff, sem lætur engan ósnortinn.

Kona fer í gönguferð

799 kílómetrar – 34 dagleiðir

Kona sem komin er í öngstræti í lífi sínu fær tilboð sem hún getur ekki hafnað: Gönguferð eftir hinum heilaga Jakobsvegi á Spáni, leið sem fólk hefur gengið öldum saman í leit að innri ró og svörum við knýjandi spurningum. Ferðin verður henni lærdómsrík og beinir huganum á óvæntar brautir. Þetta er önnur ljóðabók Hönnu Óladóttur.

Kona lítur við

Gáskafullt og femínískt furðuverk í þremur hlutum, fullt af eftirminnilegum myndum og ögrandi meiningum. Víða er litið við, svo sem í sjó, saumaklúbbi, hárgreiðslustofu, bílskúr og fylgsni undarlegs óramanns. Ferðalaginu lýkur loks í stórbrotinni útópíu. Eftirtektarvert ljóðverk sem læðist aftan að lesendum.

Laus blöð

ljóð og textar

Hér má finna tækifæriskvæði, heilræðavísur, minnismiða, ættjarðarljóð, eggjanakvæði, heimsendatexta, jólalög, ádeilukveðskap, ljóð úr fyrri lífum, ástarsöngva, saknaðarljóð, ferðabálka, athuganir, vögguvísur, erfiljóð, grafskriftir, heimspekileg kvæði, gamankvæði í nokkrum tilbrigðum auk lausavísna.

Ljóðasafn

Einar Bragi (1921-2005) var í fylkingarbrjósti atómskáldanna svonefndu og átti stóran þátt í þeim straumhvörfum sem urðu í íslenskri ljóðagerð um og eftir miðja 20. öld. Í þessari veglegu tveggja binda útgáfu birtist meginþorri frumortra ljóða Einars Braga, auk viðamikils úrvals af ljóðaþýðingum hans sem einnig spanna rúmlega hálfa öld. Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðing...

Ljóðvindar

Íslensk alþýðumenning og sjálfsbókmenntir eru samofin hugtög og í þeim felast allskonar ritun s.s eins og bréfaskriftir, sjálfsævisögur, ljóðagerð, rímur og fleira eftir alþýðu manna. Ljóðin í þessari litlu ljóðabók er ort með þeim hætti. Efniviðurinn er persónulegur en um leið alþýðulegur og kallast á við ljóðmenningu Íslendinga.

Loddaralíðan

Ég held fyrirlestur á tækniráðstefnu um hvernig ég komst yfir loddaralíðan og mér að óvörum fæ ég mögnuð viðbrögð, enginn hefur heyrt um hugtakið en allir upplifað þessa líðan. Nokkrum mánuðum síðar hef ég ekki fengið neina endurgjöf í vinnunni og gamalkunni óttinn grípur mig: að ég sé alltof lengi að læra, að ég sé ekki að standa mig, að ég sé ekki eins góð og allir héldu.

Lofttæmi

Nína er fædd í Reykjavík árið 1989. Hún er með bakgrunn í mannfræði, lögfræði og tónlist og hefur undanfarin ár starfað við ritstjórn og blaðamennsku. Vorið 2021 hlaut hún Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir Lofttæmi, sem er hennar fyrsta bók.

Meðal hvítra skýja

Vísur frá Tang-tímanum í Kína 618–907

Fornar og heillandi vísur frá tímum Tang-keisaraættarinnar en þá náði kínversk ljóðlist áður óþekktum hæðum og teljast ljóðin til bókmennta­gersema heimsins. Hjörleifur Sveinbjörnsson þýðir af list á fjórða tug stuttra vísna eftir tuttugu skáld og tekur saman fróðleik og skýringar við hverja vísu til að gefa innsýn í þann framandi heim sem þær eru sprottnar úr.

Menn sem elska menn

Einlæg og margræð, fyndin og átakanleg ljóð um karlmennsku og tilfinningar. Höfundur skoðar efnið í sögulegu og persónulegu ljósi, veltir fyrir sér vináttu og ást, hvernig tilfinningar mótast af hinu innra og ytra. Bókin skiptist í þrjá heildstæða bálka en er bundin saman af þemum, myndmáli og rödd sem talar bæði til lesandans og við hann.

Næturborgir

Næturborgir er heilsteypt ljóðabók sem hverfist um sorg, söknuð, borgina og skáldskap. Þar er á áhrifaríkan hátt slegið saman hversdagslegum myndum og nýstárlegu tungutaki. Jakup Stachowiak er Pólverji fæddur 1991 en yrkir á íslensku. Ljóð hans hafa áður birst í TMM og Skandala. Bókin fékk nýræktarstyrk hjá Miðstöð íslenskra bókmennta.

Orð, ekkert nema orð

Bubbi Morthens er elskaður og dáður fyrir einlæg ástarljóð sín, beittar ádeilur og skarpa sjálfsgagnrýni í söngvum og textum. Hér birtir hann fjölbreytt ljóð um lífið og ástina, orðin og náttúruna, ásamt áhrifamiklum minn­ingar­ljóðum um tónlistarfólk og ágengum prósaljóðum. Allt eru þetta kraftmiklar myndir mótaðar í orð af skáldi sem á erindi við samtímann.

Orðinn að vissu

Aftan úr rökkri alda ennþá mig seiða ljóðin undir hrynjandi háttum hafandi í sér dulmögn. Höfundur sendi árið 2015 frá sér ljóðabókina Hinn óljósi grunur sem hlaut góðar viðtökur lesenda. Grunur þessi er nú orðinn að vissu.