Útgefandi: Forlagið - JPV útgáfa

Doggerland Að duga eða drepast

Á sólríkum degi koma íbúar Doggerlands saman við höfnina. Gleðin breytist í martröð þegar skotið er á fólk en byssumaðurinn finnst síðan látinn. Karen Eiken Hornby, sem er komin átta mánuði á leið, er ákveðin í að komast að því hvað bjó að baki árásinni. Um leið stofnar hún lífi sínu og annarra í hættu. Þetta er fjórða bókin í Doggerland-seríunni.

Blóðmáni

Harry Hole ætlar að drekka sig í hel því líf hans er í rúst. Þegar velgjörðarkona hans lendir í klandri ákveður hann að bjarga henni og á sama tíma fær hann tilboð um að vinna fyrir norskan auðmann. Tvær konur hafa fundist myrtar og er hann meðal grunaðra. Harry hefur nauman tíma til að leysa málið og flestir í lögreglunni eru andsnúnir honum.

Dauðadjúp sprunga

Snjöll og áhrifarík spennusaga um ógn og ofbeldi, blekkingar og trúnað, fimmta og seinasta bókin um tvíeykið Áróru og Daníel. Áróru líður skár síðan lík systur hennar fannst eftir langa leit en morðmálið er enn óleyst. Peningaþvætti sem hún rannsakar reynist annað og meira, og brátt liggja þræðirnir á ný í Engihjallann, heim til systurinnar sem dó.

Dauði Francos

Árið 1975 fylgist Guðbergur með nokkurra vikna dauðastríði Francos og skrásetur í dagbók. Brot úr dagbókinni birtist á sínum tíma í Þjóðviljanum en hér má í fyrsta skipti líta skrásetninguna í heild sinni. Höfundur dregur upp einstaka mynd af endalokum einræðisherra og þeirri ringulreið sem skapast í spænsku samfélagi við yfirvofandi fráfall hans.

Österlen-morðin Dauðinn á opnu húsi

Þegar glæpasagnahöfundur og grínisti skrifa saman krimma í anda Agöthu Christie, getur útkoman varla orðið annað en góð. Ferkantaður rannsóknarlögreglumaður frá Stokkhólmi rannsakar morð í smábæ á Skáni. Sveitalubbaháttur lögreglunnar á staðnum fer mjög í taugarnar á honum en hann á jafnbágt með að þola broddborgarana sem verja sumarfríinu þar.

Eitur

Önnur bókin í glæpasagnaflokknum um löggutvíeykið Dóru og Rado, harðsoðinn hörkukrimmi sem fjallar á raunsannan hátt um myrkar hliðar Reykjavíkur samtímans. Tökur á erlendum sjónvarpsþáttum standa sem hæst í Gufunesi þegar illa farið lík finnst innan í leikmyndinni. Fljótlega verður ljóst að málið tengist nýjum og banvænum fentanýl-töflum.

Fulltrúi afbrýðinnar og fleiri sögur

Sjö eitursnjallar glæpasmásögur eftir norska krimmakónginn Nesbø. Sterk persónusköpun, hugvitssamar sögufléttur og óvænt endalok einkenna þessar knöppu og vel byggðu frásagnir – sögumennirnir leyna á sér. Í brennidepli eru heitar tilfinningar og mannlegir brestir: afbrýðisemi, þrá, óþol og ótryggð. Grípandi sögur sem koma rækilega á óvart.

Grátvíðir

Hin íslenska Jóhanna dregst óvænt inn í rannsókn á dauða ungrar konu á Norður-Ítalíu og leit þeirra Robertos lögreglumanns að svörum leiðir þau um alla Ítalíu og allt til Sikileyjar. Nístandi fjölskylduleyndarmál leita dagsljóssins og á milli Jóhönnu og Robertos vakna sterkar tilfinningar. Rómantísk og spennandi saga á suðrænum slóðum.

Hrím

Hætturnar leynast víða á annars konar Íslandi þar sem mannfólk deilir landinu með risavöxnum dýrum, ekki síst á veturna þegar hrímsvelgirnir koma niður af hálendinu. Líf Jófríðar umturnast þegar hún þarf að velja á milli tveggja stráka og ábyrgðin á velferð Mývatnsskarans hvílir skyndilega á hennar herðum. Ævintýraleg þroskasaga um ástir og örlög.

Kletturinn

Tuttugu ár eru síðan Gúi hrapaði í klettinum og síðan hafa vinir hans, Einar og Brynjar, þurft að lifa með því áfalli. Hvað gerðist? Það hafa þeir aldrei rætt, en nú verður ekki lengur komist undan uppgjörinu. Heillandi og spennandi skáldsaga um fyrirgefningu, siðferðisspurningar og vináttu karla.