Útgefandi: Forlagið - JPV útgáfa

Ameríska goðsögnin

Saga Harley-Davidson-mótorhjóla á Íslandi

Saga hinna goðsagnakenndu Harley-Davidson-mótorhjóla í máli og myndum, frá því að þau fyrstu birtust á Íslandi árið 1917. Þá upphófst sannkölluð gullöld þeirra, en eftir stríð tók lögreglan þau í þjónustu sína. Einnig er fjallað um nokkrar aðrar gerðir amerískra mótorhjóla sem bárust til landsins. Ómissandi bók fyrir áhugafólk um vélknúin ökutæki.

Brotin

Grjóthörð glæpasaga eftir margverðlaunað leikskáld. Unglingsstúlka hverfur í skólaferðalagi á Þingvöllum. Tvær utangarðslöggur eru settar í málið: Dóra sem glímir við heilaskaða eftir vinnuslys og Rado sem er fallinn í ónáð vegna fjölskyldutengsla við pólska glæpaklíku. En hausinn á Dóru er óútreiknanlegur og vill bila á ögurstundum.

Dalurinn

Sif dvelur ein í afskekktum sumarbústað við ritgerðaskrif. Sem betur fer er æskuvinur hennar ekki langt undan og jafnvel ferðamaður í vanda veitir visst öryggi – þar til allt sveipast skyndilega óvissu og Sif veit ekki lengur hverju er hægt að treysta. Hér stígur fram nýr spennusagnahöfundur með grípandi sögu sem engin leið er að leggja frá sér.

Drepsvart hraun

Hröð og fimlega fléttuð spennusaga um dularfull mál og óhugnanleg áform, fjórða bókin um Áróru og Daníel. Þegar Áróra fréttir að ókunnugt barn segist vera systir hennar endurfædd bregður henni illa enda hefur hún leitað hennar í þrjú ár. Sama dag fær Daníel undarlegt kveðjubréf frá leigjanda sínum, dragdrottningunni, og síðan óþægilega heimsókn.

Elsku sólir

Systurnar Ársól og Sunna þurfa að halda fyrirvaralaust til Spánar til að hitta móður sína sem er við dauðans dyr. Æskuvinkona móðurinnar slæst með í för en í Andalúsíu tekur við atburðarás sem engin þeirra átti von á. Elsku sólir er spennandi saga sem fer með lesanda um heillandi borgir og blómlegar sveitir Andalúsíu.

Heildarsafn ritverka Sjóns

Með einstöku hugmyndaflugi, víðtækri þekkingu og magnaðri stílgáfu hefur Sjón auðgað bókmenntirnar og vakið athygli víða. Hér koma út í einu lagi öll ritverk hans frá 1978 til 2022, þrettán ljóðabækur og tíu skáldsögur. Í hverri bók er eftirmáli eftir fræðimann eða rithöfund; greiningar, skýringar og túlkanir. Verkin koma einnig út sem hljóðbækur

Leyniviðauki 4

Þriðja bókin um Stefán Bjarnason verjanda sem er hörkutól í dómsal en eins og leir í höndum fagurra fljóða. Hrottalegt morð er framið í bandarísku herstöðinni á Miðnesheiði og Íslendingur er grunaður um verknaðinn. Það flækir stöðuna mjög að Bandaríkjamenn krefjast þess að fá forræði málsins og hóta brottflutningi Varnarliðsins.

Liðin tíð

Jack Reacher er á leið til Kaliforníu þegar hann kemur auga á skilti með nafninu Laconia – sem er heimabær föður hans. En þegar hann fer að grafast fyrir um fólkið sitt er fátt um svör. Á sama tíma er ungt par á ferðalagi frá Kanada til New York. Þegar bíllinn þeirra bilar finna þau mótel úti í auðninni en þar er ekki allt eins og það á að vera.

Ljósagangur

Við Hringbraut fer að heyrast undarlegur niður og smám saman fjölgar dularfullum fyrirbrigðum. Vísindamenn standa á gati. Hlutabréfamarkaðurinn tekur dýfu. Ljóðabækur yfirtaka metsölulistana. Kettir hverfa unnvörpum. Og ástin blómstrar hjá ungu pari í Hlíðunum. Þegar eðlisfræðin og ljóðið mætast verður til Ljósagangur, skáldsaga engri lík.