Útgefandi: Forlagið - JPV útgáfa

Doggerland Að duga eða drepast

Á sólríkum degi koma íbúar Doggerlands saman við höfnina. Gleðin breytist í martröð þegar skotið er á fólk en byssumaðurinn finnst síðan látinn. Karen Eiken Hornby, sem er komin átta mánuði á leið, er ákveðin í að komast að því hvað bjó að baki árásinni. Um leið stofnar hún lífi sínu og annarra í hættu. Þetta er fjórða bókin í Doggerland-seríunni.

Blóðmáni

Harry Hole ætlar að drekka sig í hel því líf hans er í rúst. Þegar velgjörðarkona hans lendir í klandri ákveður hann að bjarga henni og á sama tíma fær hann tilboð um að vinna fyrir norskan auðmann. Tvær konur hafa fundist myrtar og er hann meðal grunaðra. Harry hefur nauman tíma til að leysa málið og flestir í lögreglunni eru andsnúnir honum.

Österlen-morðin Dauðinn á opnu húsi

Þegar glæpasagnahöfundur og grínisti skrifa saman krimma í anda Agöthu Christie, getur útkoman varla orðið annað en góð. Ferkantaður rannsóknarlögreglumaður frá Stokkhólmi rannsakar morð í smábæ á Skáni. Sveitalubbaháttur lögreglunnar á staðnum fer mjög í taugarnar á honum en hann á jafnbágt með að þola broddborgarana sem verja sumarfríinu þar.

Grátvíðir

Hin íslenska Jóhanna dregst óvænt inn í rannsókn á dauða ungrar konu á Norður-Ítalíu og leit þeirra Robertos lögreglumanns að svörum leiðir þau um um alla Ítalíu og allt til Sikileyjar. Nístandi fjölskylduleyndarmál leita dagsljóssins og á milli Jóhönnu og Robertos vakna sterkar tilfinningar. Rómantísk og spennandi saga á suðrænum slóðum.

Sjávarhjarta

Ása Marin er að góðu kunn fyrir heillandi skáldsögur sínar um ævintýri á framandi slóðum. Í Sjávarhjarta segir frá Díu sem fer í sannkallaða draumasiglingu um Karíbahafið með sínum ástkæra Viðari. Litríkt mannlíf og gómsætur matur eyjanna standa sannarlega undir væntingum, en dularfull og daðurgjörn kona úr fortíðinni setur strik í reikninginn.

Spænska ástarblekkingin

Catalina þarf að mæta í brúðkaup systur sinnar. Kærastanum hennar er boðið líka. Vandinn er bara sá að það er enginn kærasti – hún skáldaði hann! Þegar hinn óþolandi vinnufélagi hennar, Aaron, býðst til að koma með henni ákveður hún því að láta á það reyna. Þau hafa þrjá daga til að sannfæra fjölskylduna um að þau séu brjáluð hvort í annað …

Urðarhvarf

Spennandi saga sem heldur lesanda í heljargreipum. Eik tilheyrir hópi sjálfboðaliða sem leitar uppi flækingsketti og kemur þeim í skjól. Við Urðarhvarf situr hún fyrir læðu með kettlingahóp þegar skyndilega birtist skrímsli úr fortíðinni sem rótar upp óþægilegum minningum. Skepna sem Eik hafði talið sjálfri sér trú um að væri bara hugarburður.

ÚPS! Mistök sem breyttu heiminum

Öll gerum við mistök. En í stað þess að svekkja okkur á því ættum við frekar að opna þessa bók og lesa okkur til um alls konar fólk sem gerði mistök sem leiddu til stórkostlegra hluta. Björguðu jafnvel mannslífum. Eða færðu okkur popp. Þriðja léttlestrarbókin í Vísindalæsisflokknum – með frábærum litmyndum Elíasar Rúna á hverri opnu.

Þar sem malbikið endar

Í þessari ævintýralegu bók stíga borg, náttúra og mannlíf saman dans, ýmist hægan eða trylltan, angurværan eða ágengan. Tónninn er bæði hlýr og beittur í tæpitungulausum ljóðum sem einkennast af húmor og skarpri sýn á samfélag og samtíð. Það er langt síðan Magnea hefur sent frá sér skáldskap en í bókinni eru yfir fjörutíu ljóð frá löngu tímabili.

Þriðja röddin

Í Stokkhólmi finnst starfsmaður hjá Tollinum hengdur heima hjá sér. Lögreglan úrskurðar að um sjálfsmorð sé að ræða en þegar Olivia Rönning dregst inn í málið áttar hún sig á að ekki er allt sem sýnist. Og allt í einu er hún, þvert gegn vilja sínum, komin á kaf í morðrannsókn sem teygir anga sína til Frakklands en líka á óvænta staði nær henni.