Niðurstöður

  • Forlagið - JPV útgáfa

1794

Vaktarinn einhenti, Mikael Cardell, fær óvænta heimsókn þegar fátæk kona leitar til hans með undarlegt erindi. Hún er sannfærð um að dóttir hennar hafi verið myrt á brúðkaupsnóttina en kemur alls staðar að lokuðum dyrum. 1794 er önnur bókin í þríleik en fyrsta bókin, 1793, sló í gegn þegar hún kom út.

Barnið í garðinum

Áhrifamikil saga manns sem tekst að snúa baki við erfiðum uppvexti. Dag einn ákveður Sævar Þór að nú sé nóg komið, hann yfirgefur heim óreglu og lyga og leitar sér hjálpar. Hann er einn fárra íslenskra karlmanna sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og opnað sig um það og hryllilegar afleiðingar þess. Upprisusaga af þjáningu, þrautseigju, fyrirgefningu og von.

Bílamenning

Akstursgleði liðinnar aldar í máli og myndum

Ómissandi verk fyrir alla bílaáhugamenn. Hér eru bílar almennings, lögreglu og slökkviliðs; trukkar jafnt sem eðalvagnar, jeppar, vörubílar og húsbílar. Fjallað er um fjölmargt tengt bílum, svo sem bensín- og smurstöðvar, verkstæði, hjólhýsi og leikföng, að ógleymdri vega- og gatnagerð. Bókina prýða rúmlega þúsund ljósmyndir. Sannkallað stórvirki!

Brúðarkjóllinn

Barnfóstran Sophie er þjökuð af skelfilegum minningaleiftrum úr fortíðinni og öllu sem henni tekst ekki að muna og hún vill ekki muna. Þegar litli drengurinn sem hún gætir er myrtur og sönnunargögnin benda á hana fer hún í felur, lifir á jaðri samfélagsins. Lögreglan finnur hana ekki – en einhver veit hvar hún er og fylgist með hverju skrefi hennar.

Bærinn brennur

Síðasta aftakan á Íslandi

Margt hefur verið skrifað um morðin á Illugastöðum árið 1828, aðdraganda og eftirmál. Bóndinn Natan var myrtur ásamt öðrum manni, rændur og síðan kveikt í til að reyna að dylja verksummerki. Miklar sögur spunnust um glæpinn og sakborn­ingana – en hver er sannleikurinn? Þórunn leitar í frumgögn og varpar nýju ljósi á málið og einstaklingana sem við sögu komu.

Dauða­­hliðið

Þegar harðnaglinn Reacher sér hring í glugga veðlánarabúðar í Wisconsin ákveður hann að leita uppi konuna sem átti hann og komast að því af hverju hún lét hann af hendi. Þar með hefst örlagarík ferð sem leiðir hann um rykuga vegi Miðvesturríkjanna og niðurnídd þorp á heimsenda þar sem allir eiga leyndarmál og spurningum er illa tekið.

Dyngja

Dyngja segir frá ungum flugmanni sem gerist flugfreyja árið 1971. Að baki þeirri ákvörðun býr undraverð saga sem hefst um miðbik 20. aldar, við rætur Ódáðahrauns, en teygir sig smám saman lengra inn í landið, þaðan út í geim og að lokum til tunglsins. Sigrún Pálsdóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins fyrir Delluferðina.

Ég brotna 100% niður

Niðurbrot og endurreisn, ásýnd og innihald, appelsínur og plastpokar – allt verður þetta Eydísi Blöndal að yrkisefni í skörpum myndum og snjöllum hugleiðingum. Hún hefur áður sent frá sér ljóðabækurnar Tíst og bast og Án tillits sem báðar vöktu mikla athygli og fyrir þá síðari hlaut hún tilnefningu til Maístjörnunnar.

Ferðalag Cilku

Örlagasaga stúlku frá Slóvakíu sem er kornung send í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz. Þar fær yfirmaður augastað á henni sem verður til þess að hún lifir af. En í stríðslok er hún sökuð um samstarf við kúgarana og send í næstu fangabúðir, engu skárri, gúlagið í Síberíu. Átakanleg frásögn byggð á sönnum atburðum, eftir sama höfund og Húðflúrarinn í Auschwitz.

Grunur

Þegar Blythe eignast dóttur er hún staðráðin í að veita henni alla þá ást sem hún fór sjálf á mis við. En í þreytu­þokunni eftir fæðinguna sannfærist hún um að eitthvað sé afbrigðilegt við barnið. Eða er hún ímyndunar­veik, geðveik? Mögnuð og taugatrekkjandi saga um martröð hverrar móður: að geta ekki elskað barnið sitt. Og um líðan konu sem enginn trúir.

Hamingja

Felst hamingjan í hinu hversdagslega og venjubundna: rigningunni, vorkomunni, öllu því sem lífið færir okkur? Felst hún í því að fá það sem maður vill – eða kannski frekar í því að vilja það sem maður fær? Didda hefur áður sent frá sér bækur og birt ljóð og greinar í tímaritum, auk þess sem hún hefur samið texta fyrir ýmsar hljómsveitir.

Hálf­gerðar lyga­sögur með heilag­an sannleika í bland

Guðbergur hefur einstaka sýn á mannlegt eðli og samfélag. Hér má lesa sögur úr heillandi blöndu af fyndni og sársauka, sannleika og uppspuna. Þegar lesandinn heldur að hann hafi áttað sig á hvert stefnir er honum komið í opna skjöldu með óvæntum snúningi, órum, háði eða skyndilegri viðkvæmni – sem höfundurinn hefur flestum betur á valdi sínu.

Hitinn á vax­mynda­­safninu

Sjö nútíma­kraftaverka­sögur

Kraftaverk nútímans láta ekki alltaf mikið yfir sér. Stundum varpar óvænt atburðarás eða óútskýrt atvik nýju ljósi á allt sem var og er og verður, eða fólk kemur auga á samhengi sem umturnar lífi þess. Ísak Harðarson skrifar hér af djúphygli og hlýju um furður tilverunnar í snjöllum og gáska­fullum smásögum um leitina sígildu að sann­leik­anum og hamingjunni.

Hulduheimar

Draumadalurinn / Vatnaliljutjörn

Tvö ný og töfrandi ævintýri um Evu, Sólrúnu og Jasmín og vini þeirra í Hulduheimum. Í Draumadalnum liggja allir íbúarnir andvaka af dularfullum ástæðum og í Vatnaliljutjörn leita stúlkurnar að enn einu hráefni í töfradrykkinn handa Teiti konungi. Skemmtilegar og ríkulega myndskreyttar léttlestrarbækur sem eiga marga aðdáendur.

Ferðin á heimsenda

Illfyglið

Húgó og Alex eru búin að týna hvort öðru en halda þrátt fyrir það áfram leitinni að síðustu steinstyttunni. Á meðan þau kljást við úrillan dreka, blóðþyrsta drottningu og allt of kurteist skrímsli sveimar Illfyglið yfir og veit að brátt mun tími þess renna upp. Þetta er lokabindið í bráðfyndnum fantasíuþríleik fyrir 8–12 ára lesendur.

Í landi annarra

Myndarlegur liðsforingi frá Marokkó fangar hug frönsku stúlkunnar Mathilde og hún fylgir honum til heimalands hans. Með ástina og hugrekkið að vopni tekst hún á við framandi samfélag í hrjóstrugu landi og mætir erfiðleikum og fordómum úr öllum áttum. Leïla Slimani sló í gegn með Barnagælu, sem hlaut hin virtu Goncourt-verðlaun.

Listin að vera fokk sama

Óhefð­bundinn leiðarvísir að betra lífi

Sumar sjálfshjálparbækur hvetja lesandann til að vera besta útgáfan af sjálfum sér, aðrar segja okkur að allt fari vel ef við bara óskum þess nógu heitt. Ekki þessi bók. Höfundinum er fokk sama um alla jákvæðni og góða strauma. Bókin mun ekki losa þig undan vandamálum þínum eða þjáningum. En þér gæti orðið fokk sama um þau.

Meðal hvítra skýja

Vísur frá Tang-tímanum í Kína 618–907

Fornar og heillandi vísur frá tímum Tang-keisaraættarinnar en þá náði kínversk ljóðlist áður óþekktum hæðum og teljast ljóðin til bókmennta­gersema heimsins. Hjörleifur Sveinbjörnsson þýðir af list á fjórða tug stuttra vísna eftir tuttugu skáld og tekur saman fróðleik og skýringar við hverja vísu til að gefa innsýn í þann framandi heim sem þær eru sprottnar úr.