Útgefandi: Veröld

Að deyja frá betri heimi

Ævisaga Jónasar Kristjánssonar læknis

Jónas Kristjánsson ákvað að gerast læknir þegar móðir hans dó frá átta börnum í torfbæ í Svínadal árið 1881. Þá var hann 11 ára að aldri. Faðir hans lést nokkru síðar og fjölskyldan var leyst upp. Jónas barðist til mennta og útskrifaðist sem læknir um aldamótin. Fáir ef nokkrir hafa barist eins ötullega fyrir bættu heilbrigði þjóðarinnar en Jónas.

Afi minn stríðsfanginn

Skömmu eftir að Bretar hernámu Ísland í síðari heimsstyrjöldinni handtóku þeir alla Þjóðverja sem bjuggu á landinu, skipti þá engu hvort þeir studdu málsstað nasista eður ei. Karl Hirst, afi Elínar Hirst, var einn þessara manna og beið hans eins og hinna vist í fangabúðum í Englandi. Og þegar vistinni í fangabúðunum lauk tók við annar hryllingur.

Betri tjáning

Örugg framkoma við öll tækifæri

Langar þig til að eiga auðveldara með að spjalla við fólk í fjölmenni, sér í lagi þegar þú þekkir fáa? Viltu verða betri í að halda tækifærisræður? Finnst þér þú tala of hratt þegar spennan tekur völdin? Hvernig er best að tjá sig á fjarfundum? Betri tjáning er bók fyrir alla þá sem kljást við vandamál af þessu tagi – og marga aðra.

Blóðmjólk

Í Blóðmjólk sogast lesandinn inn í vinkvennahóp sem verður fyrir miklu áfalli þegar ein þeirra deyr með hræðilegum hætti. Sjónarhornið flakkar á milli kvennanna þannig að lesandinn kynnist persónunum frá ýmsum hliðum. Hvað gerðist eiginlega? Og ef það var framinn glæpur, hver er hinn seki? Þessi skvísukrimmi fékk glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn.

Dúnstúlkan í þokunni

Drauma-Jói fæddist um miðja 19. öld norður á Langanesi og var af galdramönnum kominn í beinan karllegg. „Árum saman, sérstaklega á milli tvítugs og þrítugs, bjó hann yfir mikilli fjarskyggnigáfu,“ sagði dr. Ágúst H. Bjarnason um hann í vísindagrein árið 1915. Í þessari sögulegu skáldsögu er byggt á sögum af þessum einstaka manni og örlögum hans.

Forystufé og fólkið í landinu

Íslenskar sauðkindur eru fagrar og harðgerðar. En málið er ekki alveg svo einfalt. Þær geta verið tvenns konar: forystufé og annað fé. Forystufé hefur fylgt íslensku þjóðinni allt frá landnámi og hafa bændur í gegnum aldirnar notfært sér einstaka hæfileika þess. Hér er að finna aðgengilegan fróðleik og fjölda sagna um þessar sérstöku kindur.

Frýs í æðum blóð

Nágrannaerjur í Grindavík, þar sem tvenn hjón takast á, fara úr böndunum. Ung kona er óvænt ráðin sem afleysingakokkur á loðnuskip og brátt fara undarlegir atburðir að gerast um borð. Og torkennilegur beinafundur á sér stað í Reykjavík. Ólíkir þræðir fléttast hér listilega saman í spennandi glæpasögu þar sem ekki er allt sem sýnist.

Heim fyrir myrkur

Hin 14 ára Marsí skrifast á við strák sem býr hinum megin á landinu. En hún gerir það í nafni systur sinnar. Bréfaskiptunum lýkur með því að þau ákveða að hittast. Marsí kemst ekki til að hitta hann en þar sem þau höfðu mælt sér mót finnst blóðug úlpa systur hennar sem er horfin. Tíu árum síðar hefur þessi óþekkti pennavinur samband á ný.

Hljóðin í nóttinni

Minningasaga

Eymd og niðurlæging í Höfðaborginni í Reykjavík og sársaukafullt uppgjör við margt af því ljótasta sem lífið hefur upp á að bjóða. Björg var fyrst til að greina frá því hvernig Skeggi Ásbjarnarson níddist á börnum sem áttu undir högg að sækja. Þessi minningasaga Bjargar Guðrúnar Gísladóttur var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014.

Hvítalogn

Elín S. Jónsdóttir, frægasti glæpasagnahöfundur þjóðarinnar, er horfin, sjötug að aldri. Verk hennar hafa notið mikillar alþjóðlegrar hylli en undanfarin tíu ár hefur hún haft hægt um sig. Lét hún sig hverfa eins og hún gerði eitt sinn fyrir mörgum áratugum – eða hefur einhver gert henni mein?

Í hennar skóm

Sam dreymir um betra líf, þar sem hún er laus við áhyggjur og erfiðan eiginmann. Einn morguninn tekur hún vitlausa tösku í ræktinni og í henni reynast vera rándýrir hönnunarskór. Hún klæðir sig í skóna og finnst hún vera orðin allt önnur kona. Nisha á töskuna. Líf hennar virðist fullkomið en þegar hún glatar töskunni umbreytist veruleiki hennar.

Kuldi

Ung stúlka ræðst til starfa á unglingaheimili á áttunda áratug liðinnar aldar en dvöl hennar þar á eftir að umbylta lífi hennar. Þegar ungur maður fer löngu síðar að rannsaka starfsemi heimilisins taka undarlegir atburðir að skekja tilveru hans og dóttur hans.

Leyndardómar Draumaríkisins

Nóttina eftir að hinn ellefu ára Davíð varð fyrir höfuðhöggi í körfubolta er hann skyndilega staddur í Draumaríkinu, töfrandi stað þar sem draumar eru búnir til. Þar hittir hann Sunnu sem kynnir hann fyrir nýjum og spennandi heimi. En vandi steðjar að Draumaríkinu – martraðaskrímsli eru byrjuð að skemma drauma. Spennandi og skemmtileg verðlaunabók!

Lífið er staður þar sem bannað er að lifa

Bók um geðröskun og von

Eftir tæplega þrjátíu ára leit að bata tókst Steindóri Jóhanni Erlingssyni loksins að snúa vörn í sókn í baráttu sinni við ægivald þunglyndis og kvíða. Allan þennan tíma höfðu þessar geðraskanir fylgt honum sem áleitinn skuggi. Það var ekki fyrr en hann fór að skoða þau áföll sem hann hafði orðið fyrir að honum fór að batna.

Reykjavík

Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni og engin skýring kemur fram á hvarfi hennar. Í ágúst 1986 fer ungur blaðamaður að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.