Útgefandi: Forlagið - JPV útgáfa

Lítil bók um stóra hluti

Hugleiðingar

Hér tekst höfundur á við stórar spurningar á sinn hátt. Stundum með stríðnislegu glotti eða blíðu brosi, stundum með ögrandi og nýstárlegum hugmyndum og stundum með alvöruþunga og skarpri sýn. Þórunn er fundvís á óvæntar tengingar, hispurslaus og fyndin, angurvær og ljóðræn, margbrotin og einlæg, hún sjálf, engri lík.

Rangur staður, rangur tími

Jen verður vitni að því er sonur hennar vegur ókunnan mann. Þetta kvöld sofnar hún full örvæntingar – en næsti dagur reynist vera gærdagurinn ... svo vaknar hún aftur daginn þar á undan. Jen þarf að nýta tímann til að koma í veg fyrir að voðaverkið eigi sér stað. Eitursnjall og æsispennandi sálfræðitryllir, sem slegið hefur í gegn um víða veröld.

Ró í beinum

Ljóðaþykkni 1982–2022

Úrval ljóða Ísaks sem hann valdi sjálfur og gekk frá til útgáfu skömmu áður en hann lést síðasta vor. Ísak hafði verulega sérstöðu sem ljóðskáld. Hann orti íhugul, trúarleg og heimspekileg ljóð sem stundum lýsa örvæntingu og einmanaleika en einnig von og gleði; í þeim má oft finna óvæntar myndir, gáska og kraft. Andri Snær Magnason ritar eftirmála.

Sjávarhjarta

Ása Marin er að góðu kunn fyrir heillandi skáldsögur sínar um ævintýri á framandi slóðum. Hér segir frá Díu sem fer í sannkallaða draumasiglingu um Karíbahafið með sínum ástkæra Viðari. Litríkt mannlíf og gómsætur matur eyjanna standa sannarlega undir væntingum, en dularfull og daðurgjörn kona úr fortíðinni setur strik í reikninginn.

Skrímslavinafélagið

Fyndin og fjörug saga, full af litríkum myndum, sem á örugglega eftir að kitla hláturtaugar 6 til 10 ára lesenda. Allir vita að bestu leyndarmálin eru geymd í leynifélögum. Þess vegna stofna Pétur og Stefanía Skrímslavinafélagið. Þegar þau finna dularfullt og hættulegt svart duft í skólanum sínum fara leikar að æsast.

Spænska ástarblekkingin

Catalina þarf að mæta í brúðkaup systur sinnar. Kærastanum hennar er boðið líka. Vandinn er bara sá að það er enginn kærasti – hún skáldaði hann! Þegar hinn óþolandi vinnufélagi hennar, Aaron, býðst til að koma með henni ákveður hún því að láta á það reyna. Þau hafa þrjá daga til að sannfæra fjölskylduna um að þau séu brjáluð hvort í annað …

Urðarhvarf

Spennandi saga sem heldur lesanda í heljargreipum. Eik tilheyrir hópi sjálfboðaliða sem leitar uppi flækingsketti og kemur þeim í skjól. Við Urðarhvarf situr hún fyrir læðu með kettlingahóp þegar skyndilega birtist skrímsli úr fortíðinni sem rótar upp óþægilegum minningum. Skepna sem Eik hafði talið sjálfri sér trú um að væri bara hugarburður.

Vísindalæsi ÚPS! Mistök sem breyttu heiminum

Öll gerum við mistök. En í stað þess að svekkja okkur á því ættum við frekar að opna þessa bók og lesa okkur til um alls konar fólk sem gerði mistök sem leiddu til stórkostlegra hluta. Björguðu jafnvel mannslífum. Eða færðu okkur popp. Þriðja léttlestrarbókin í Vísindalæsisflokknum – með frábærum litmyndum Elíasar Rúna á hverri opnu.

Þar sem malbikið endar

Í þessari ævintýralegu bók stíga borg, náttúra og mannlíf saman dans, ýmist hægan eða trylltan, angurværan eða ágengan. Tónninn er bæði hlýr og beittur í tæpitungulausum ljóðum sem einkennast af húmor og skarpri sýn á samfélag og samtíð. Það er langt síðan Magnea hefur sent frá sér skáldskap en í bókinni eru yfir fjörutíu ljóð frá löngu tímabili.

Þriðja röddin

Í Stokkhólmi finnst starfsmaður hjá Tollinum hengdur heima hjá sér. Lögreglan úrskurðar að um sjálfsmorð sé að ræða en þegar Olivia Rönning dregst inn í málið áttar hún sig á að ekki er allt sem sýnist. Og allt í einu er hún, þvert gegn vilja sínum, komin á kaf í morðrannsókn sem teygir anga sína til Frakklands en líka á óvænta staði nær henni.