Útgefandi: Forlagið - Vaka-Helgafell

Betri líðan á breytingaskeiði

Heilnæmt mataræði og girnilegar uppskriftir

Konur geta hamið einkenni breytingaskeiðs og aukið lífsgæði sín með því að huga vel að daglegu mataræði. Hér er að finna ráðgjöf um næringu og venjur sem koma jafnvægi á hormón, styrkja bein og vöðva og hafa jákvæð áhrif á geðheilsu. Lífsstíls- og næringarráðgjöf með yfir áttatíu ljúffengum uppskriftum sem auka orku og vellíðan á breytingaskeiði.

Blóðsykursbyltingin

Komdu jafnvægi á blóðsykurinn og breyttu lífi þínu

Með því að ná stjórn á blóðsykrinum má bæta andlega og líkamlega heilsu sína umtalsvert, því sykursveiflur hafa mikil áhrif á líkamann og geta ráðið úrslitum um þróun alvarlegra sjúkdóma. Hér gefur „glúkósagyðjan“ Jessie Inchauspé tíu einföld og aðgengileg hollráð til þess að jafna blóðsykurinn – án þess að hætta að borða það sem manni þykir best!

Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg

Baráttusaga Guðrúnar Jónsdóttur

Guðrún Jónsdóttir er með mikilvægustu brautryðjendum kvennabaráttunnar á síðustu öld og fram á þessa. Hún var í hópi þeirra kvenna sem brutu glerþak stjórnmálanna með Kvennaframboðinu og síðar átti hún stóran þátt í því að rjúfa þagnarmúrinn kringum kynferðisofbeldi. Þetta er saga um mikla baráttukonu sem aldrei lét beygja sig.

Heiðarprjón

Heiðarprjón inniheldur 25 uppskriftir að sígildum og fallegum flíkum fyrir konur. Þetta eru hnepptar og heilar peysur í fjölbreyttum stærðum en að auki kjóll, pils, vesti og smærri prjónaverkefni. Einnig er að finna í bókinni hagnýtar upplýsingar um ýmislegt sem viðkemur prjónaskap, eins og kaðla, fléttur, úrtökur og margt fleira.

Lára fer á jólaball

Það er gaman á aðventunni, að eiga notalegar stundir með fjölskyldunni við jólaundirbúning, en það er líka svolítil spenna í loftinu. Atli og Lára fara saman á jólaball. Þangað mætir góður gestur. Hversdagssögur Birgittu Haukdal um Láru og bangsann Ljónsa hafa verið metsölubækur í fjölda ára og vinsæl leiksýning verið gerð eftir þeim.

Líkaminn geymir allt

Hugur, heili, líkami og batinn eftir áföll

Áföll geta haft gríðarleg áhrif á andlega líðan, tilfinningar, skynjun og félagsfærni, fjölskyldur þolenda og jafnvel næstu kynslóðir, en um leið víðtækar afleiðingar fyrir heilsuna. Í þessari heimsþekktu bók eru raktar sláandi staðreyndir um eftirköst áfalla og kynntar leiðir til bata sem reynst hafa skilvirkar til að lækna huga, heila og líkama.

Múmínsokkar

frá A til Ö

Í þessari litríku prjónabók er að finna uppskriftir að 29 sokkapörum sem innblásin eru af sögum Tove Jansson. Hér birtast múmínálfarnir í glaðlegum mynstrum og hugmyndaríkri hönnun. Sokkarnir eru í fjölbreyttum stærðum sem henta allri fjölskyldunni en auk þess er bent á ýmsar leiðir til að aðlaga uppskriftirnar þannig að þær passi hverjum og einum.

Síðasti seiðskrattinn bók 3 Návaldið

Lokabindið í æsispennandi fantasíuþríleik fyrir börn og unglinga. Hildur, Theódóra og Baldur eru uppgefin eftir innrásina frá Túle. Bjarni vinur þeirra er fastur í öðrum veruleika þar sem Návaldið skelfilega leikur lausum hala. Úrslitaorrustan við hinn hinsta dauða nálgast hratt, en kraftar söguhetjanna eru öflugri en þau grunar.

Prjónasögur

34 rómantískar uppskriftir

Kvenlegri og rómantískri hönnun er gert hátt undir höfði í þessari fallegu bók. Uppskriftirnar eru 34 talsins, flestar að peysum, hnepptum og heilum, og eru þær í fjölmörgum stærðum. Ýmiss konar smáatriði eins og blúndur og fínlegir kragar lífga upp á flíkurnar þótt þær séu bæði hentugar og nútímalegar.

Sigurverkið

Söguleg skáldsaga sem gerist á Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn á 18. öld; margslungin frásögnin lýsir á áhrifaríkan hátt beiskum örlögum alþýðufólks og valdinu sem það verður að lúta. Sagnameistarinn Arnaldur fetar hér nýja slóð, því bókin er að hluta byggð á raunverulegum atburðum og persónum sem stíga fram á sviðið í trúverðugri og mergjaðri sögu.

Sæluríkið

Mögnuð og áleitin saga um brostna drauma, kalda grimmd og fólk sem á stórra harma að hefna. Líkfundur við Hafravatn hleypir af stað óvæntri atburðarás og upprifjun gamalla frétta og sakamála verður til þess að heiftúðugt andrúmsloft kaldastríðsáranna leitar á huga Konráðs sem var lengi í lögreglunni. Geysivel fléttuð bók frá meistara glæpasögunnar.