Útgefandi: Forlagið - Mál og menning

Heimsmeistari

Í miðju köldu stríði öttu fulltrúar stórveldanna kappi um heimsmeistaratitil í skák í smáborginni Reykjavík. Sigurvegarinn ungi var sérvitur en eignaðist þó vinskap heimafólks sem löngu síðar bjargaði honum úr ógöngum. Knöpp og kynngimögnuð saga um snilling sem er ævifangi síns hrjúfa lundernis, listilega samin af sagnameistaranum Einari Kárasyni.

Spæjarastofa Lalla og Maju Kappreiðaráðgátan

Allir krakkar þekkja Ráðgátubækurnar! Sjálfstæðar sögur sem henta vel fyrir spæjara sem vilja æfa lesturinn því að letrið er stórt, setningarnar eru stuttar og það eru skemmtilegar litmyndir á hverri síðu. Einn af öðrum detta hestarnir á kappreiðavelli Víkurbæjar úr leik og Lalli og Maja átta sig fljótt á að það er maðkur í mysunni.

Kerlingarfjöll

og fleiri náttúruperlur við hjartarætur Íslands

Vegna náttúrufegurðar og fjölbreytileika eru Kerlingarfjöll einhver áhugaverðasti staður landsins. Hér er bent á fjölda ferðamöguleika, fjallgöngur, skíðaleiðir, hjólaleiðir og lengri ferðaleiðir um Kerlingarfjallasvæðið og nágrenni þess. Bókin geymir glöggar leiðarlýsingar, fjölda heilræða og ábendinga auk sagna og fróðleiks af ýmsu tagi.

Land næturinnar

Eftir þungt áfall á Íslandi hafa örlögin beint Þorgerði í faðm Herjólfs kaupmanns sem er á leið með varning sinn austur til Garðaríkis. Þar bíða þeirra launráð og lífsháski og brátt skilur Þorgerður að það getur krafist meira hugrekkis að lifa en deyja. Áhrifarík og æsispennandi saga að hætti Vilborgar, ævintýraför á slóðir víkinga í Austur-Evrópu.

Múmínálfarnir og Hafshljómsveitin

Hugljúf endursögn úr Minningum múmínpabba eftir Tove Jansson. Múmínfjölskyldan siglir um höfin og lendir í ótal ævintýrum: þau bjarga frænku hemúlsins úr lífsháska, leggja lævísa gildru fyrir risavaxinn dronta og hitta dularfullar slímloppur. En besta ævintýrið bíður þeirra heima. Litríkar myndir varpa töfraljóma á lífið í múmíndal.

Mömmuskipti

Linda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Mamma hennar er áhrifavaldur sem tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd af Lindu er þekkt um allan heim. En nú er illt í efni! Mamma Lindu keppir um pláss í nýjum raunveruleikaþætti. Ef allt fer á versta veg fá þau nýja mömmu í heilan mánuð og alþjóð mun fylgjast með!

Næturheimsókn

Jökull Jakobsson var eitt vinsælasta leikskáld landsins og ástsæll útvarpsmaður. Ferilinn hóf hann hins vegar sem sagnaskáld og árið 1962 sendi hann frá sér smásagnakverið Næturheimsókn. Jökull hefði orðið níræður á árinu og af því tilefni kemur bókin út í nýrri útgáfu. Sögurnar gefa glögga innsýn í íslenskt samfélag á mótunarskeiði.

Paradísarmissir

Stórbrotið söguljóð frá 17. öld eftir eitt af höfuðskáldum Englendinga. Frásögnin spannar alla heimssöguna, frá sköpun til dómsdags, en kjarni hennar er syndafallið og klækjabrögð Satans þegar hann freistar Adams og Evu í aldingarðinum. Jón Erlendsson þýðir kvæðið af eljusemi og listfengi og skrifar skýringar, en inngang ritar Ástráður Eysteinsson.

Hrímland Seiðstormur

Síðari bókin í Hrímlandstvíleiknum, sem hefur notið vinsælda í Bretlandi og Bandaríkjunum. Samveldið Kalmar riðar til falls og hungrið sverfur að í Reykjavík. Elka flýr til Vestmannaeyja og kemst þar í kynni við skuggalegan sértrúarsöfnuð. Seiðskrattinn Kári tekur þátt í leynilegum leiðangri á hálendinu en órar ekki fyrir ógeðfelldum tilgangi hans.