Ævisögur og endurminningar

Síða 2 af 3

Margrét Lára

Ástríða fyrir leiknum

Margrét Lára Viðarsdóttir er meðal fremstu íþróttamanna sem Ísland hefur alið. Hún er markahæsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu frá upphafi og spilaði í sterkustu deildum heims. Hér segir Margrét Lára sögu sína og deilir reynslu sinni og góðum ráðum. Hún gerir ferilinn upp og segir á einlægan hátt frá sigrum og mótlæti.

Með frelsi í faxins hvin

Riðið í strauminn með Hermanni Árnasyni

Hér segir frá Hermannni Árnasyni. Tamning hrossa og hestaferðir eru hugsjón hans og sum viðfangsefnin með ólíkindum s.s. vatnareiðin, stjörnureiðin og Flosareiðin þegar riðið var í spor Flosa og brennumanna frá Svínafelli að Þríhyrningshálsum til að sannreyna þá reið sem farin var til að brenna inni heimilisfólk á Bergþórshvoli í Brennu-Njáls sögu.

Morðin í Dillonshúsi

Örlagasaga mæðgnanna Sigríðar Ögmundsdóttur og Huldu Karenar Larsen

Storytel-verðlaunin 2025. Fyrir 70 árum gerðist hræðilegur harmleikur í Dillonshúsi við Suðurgötu 2 í Reykjavík. Að morgni 26. febrúar 1953 gaf heimilisfaðirinn eiginkonu sinni og þremur ungum börnum þeirra eitur og svipti svo sjálfan sig lífi. Í þessari bók er rakin saga þeirra sem við sögu komu. Áhrifamikil fjölskyldusaga.

Og þaðan gengur sveinninn skáld

Samferðamenn, vinir og kollegar minnast Thors Vilhjálmssonar hundrað ára

Í tilefni þess að öld er liðin frá fæðingu Thors Vilhjálmssonar, eins frumlegasta höfundar okkar, minnast samferðamenn, vinir og kollegar hans og varpa ljósi á þennan flókna og margbrotna höfund. Hér birtast stuttar svipmyndir, fræðilegar úttektir, ljóð og teikningar auk brota úr verkum Thors. Innleggin eru um 40 og í bókinni er fjöldi mynda.

Óli Gränz

Óli Gränz er Eyjapeyi og grallari. Hann missti aleigu sína í Heymaeyjargosinu, eignaðist sjö börn á átta árum með fjórum konum, en ástarlíf hans var stundum umtalað í Eyjum. Hjá honum hefur gleðin alltaf haft yfirhöndina en stundum hefur þó gefið á bátinn. Hér segir hann á hispurslausan hátt og skemmtilegan frá lífshlaupi sínu sem er engu öðru líkt

Óli Jó

Fótboltasaga

Hér segir Ólafur Jóhannesson sögu sína á fádæma skemmtilegan og beinskeyttan hátt. Uppvöxturinn, fjölskyldan, leikmannaferillinn í fótbolta og handbolta, þjálfun í rúma fjóra áratugi, sigrar og töp, gleði og sorg. Óli hefur upplifað allt sem hægt er að upplifa í íslenskum fótbolta. Einstök frásögn sem varpar ljósi á þróun fótboltans í hálfa öld.

Piparmeyjar

Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi

Hvaða augum leit fólk piparmeyjar og hvaða augum litu þær sig sjálfar? Höfðu þær raunverulegt val í lífinu? Fróðlegt og aðgengilegt sagnfræðirit byggt á metnaðarfullri rannsókn á ævi og kjörum einhleypra, íslenskra kvenna á umbrotatímum í kvennasögunni. Í aðalhlutverki er heillandi safn einkabréfa Reykjavíkurstúlkunnar Thoru Friðriksson.

Fjögur bindi í öskju Saga Eymundar og Halldóru í Dilksnesi

Samfélagið sunnan jökla 1840-1902

Eymundur og Halldóra í Dilksnesi brutust til efna og mannvirðinga í allsleysi 19. aldar, þau eignast 16 börn og koma víða við í atvinnu og menningu. Hann var smiður, hafnsögumaður, læknir og skáld. Erfiðleikar í bland við frelsisþrá leiða fjölskylduna til Vesturheims 1902 en fimm árum síðar koma þau aftur heim í Hornafjörð og búa þar til æviloka.

Séra Bragi - ævisaga

Ævisaga séra Braga Friðrikssonar er stórbrotin saga brautryðjanda og hugsjónamanns. Hann fæddist við erfiðar aðstæður, gekk í gegnum djúpar raunir en varð einn fremsti maður þjóðkirkjunnar, fyrsti heiðursborgari Garðabæjar og var kallaður „faðir Garðabæjar“. Innblásin og áhrifarík frásögn af manni sem mótaði samfélag sitt og helgaði líf sitt Guði.

Stúlka með fálka

Skáldævisaga – fullorðinsminningar

Sjálfstætt framhald fyrri bóka þar sem höfundur rekur eigin ættarsögu og ævi. Hér stendur hún á sjötugu og lítur um öxl, sögutíminn frá miðjum níunda tug síðustu aldar til nútímans. Sem fyrr er Þórunn hispurslaus og opinská og hlífir sér hvergi – frásögnin er full af visku og vangaveltum, fyndin og gáskafull en um leið blandin trega og söknuði.

Þegar mamma mín dó

Hér lýsir höfundur þeirri sáru reynslu að fylgja dauðvona móður sinni gegnum veikindi og sitja við hlið hennar við andlátið. Frásögnin er opinská um þær sterku tilfinningar sem togast á þegar dauðinn knýr dyra, en um leið er fjallað um hvernig búið er að fólki sem á skammt eftir ólifað og það álag sem hvílir á aðstandendum við þær aðstæður.