Íslensk skáldverk

Kverkatak

Sakamálasaga, sálfræðitryllir um fertugan lögfræðing sem er að fá gráa fiðringinn og hrífst af ungri konu sem byrjar að vinna með honum. Hann flækist inn í morðmál og kynnist af eigin raun hrottaskap reykvískra undirheima. Í stuttu máli fer líf hans allt í vaskinn á ótrúlega skömmum tíma.

Kyrrþey

Vægðarlaus glæpasaga um þrúgandi þögn og heitar tilfinningar. Í fórum látins manns finnur ekkja hans lúna skammbyssu sem reynist vera morðvopn úr gömlu og óupplýstu máli. Forvitnin grípur Konráð, fyrrverandi lögreglumann, vegna sams konar vopns sem faðir hans átti og leiðir hann á vit fortíðar. Og úr djúpi tímans birtist fleira en hann óraði fyrir.

Leyniviðauki 4

Þriðja bókin um Stefán Bjarnason verjanda sem er hörkutól í dómsal en eins og leir í höndum fagurra fljóða. Hrottalegt morð er framið í bandarísku herstöðinni á Miðnesheiði og Íslendingur er grunaður um verknaðinn. Það flækir stöðuna mjög að Bandaríkjamenn krefjast þess að fá forræði málsins og hóta brottflutningi Varnarliðsins.

Lindarbrandur

Lindarbrandurinn hefur staðið fastur í svörtum steini svo árþúsundum skiptir. Þegar sverðið hverfur svo með dularfullum hætti bendir allt til þess að Malena hafi tekið það...en hvar er hún? Amma hennar Rúna og málaliðinn Hervar hefja leit að henni - því hver ætti annars að gera það?

Ljósagangur

Við Hringbraut fer að heyrast undarlegur niður og smám saman fjölgar dularfullum fyrirbrigðum. Vísindamenn standa á gati. Hlutabréfamarkaðurinn tekur dýfu. Ljóðabækur yfirtaka metsölulistana. Kettir hverfa unnvörpum. Og ástin blómstrar hjá ungu pari í Hlíðunum. Þegar eðlisfræðin og ljóðið mætast verður til Ljósagangur, skáldsaga engri lík.

Lungu

Fjölskrúðug skáldsaga sem teygir anga sína vítt og breitt um 20. öldina. Jóhanna tekur upp af rælni ættarsöguna sem faðir hennar skrifaði. Þar fléttast saman sögur af brostnum draumum, töfrum og forboðnum ástum – sem smám saman draga fram í dagsljósið leyndarmál sem legið hefur í þagnargildi í heila mannsævi.

Mannsmyndin

Bláleitur litur á líki verður Ölmu Jónsdóttur blaðamanni að rannsóknarefni. Hún er að þreifa sig áfram á nýjum slóðum, taka hlaðvarpsviðtal. Dulrænar sýnir viðmælanda hennar vekja óhug og einnig bernskuár hans og fortíð þar sem undarleg dauðsföll koma við sögu.

Merking

Þjóðin er klofin í afstöðu sinni til samkenndarprófsins, byltingarkenndrar tækni sem spáð getur fyrir um andfélagslega hegðun. Framundan er þjóðaratkvæðagreiðsla um málið sem snertir líf persónanna með ólíkum hætti. Merking er fyrsta skáldsaga eins eftirtektarverðasta höfundar landsins og hlaut frábærar viðtökur þegar hún kom út.

Meydómur

Fullorðin dóttir skrifar látnum föður sínum bréf sem jafnframt er bréf til ungu meyjarinnar sem hún eitt sinn var. Meydómur er saga af leiðinni sem hún fetar frá sakleysi bernskunnar til uppreisnar unglingsáranna þegar meydómi hennar lýkur.

Millibilsmaður

Heimildaskáldsaga frá fyrstu árum 20. aldar. Læknishjón eru nýflutt að norðan. Í Reykjavík geisar mikið fár yfir hinni nýju stefnu, spíritismanum. Bærinn er klofinn, jafnt í afstöðu sinni til sjálfstæðismála sem spíritisma, þar sem vísindi og trú eiga að fallast í faðma. Læknirinn er krafinn svara um hin dularfullu fyrirbrigði á miðilsfundum.

Morðið í Öskjuhlíð

Þrettánda bókin um Stellu Blómkvist gerist árið 1995. Stella er nýútskrifuð og fæst við dularfullt hvarf rannsóknarblaðamanns. Málið snýst upp í snúna morðgátu sem teygir anga sína víða og við sögu koma valdamiklir aðilar sem svífast einskis. Stella er söm við sig, kjaftfor og úrræðagóð og berst fyrir lítilmagnann, vopnuð innsæi og spakmælum mömmu.

Opið haf

Mögnuð frásögn um ótrúlega mannraun. Fiskibát hvolfir úti á opnu hafi í vetrarmyrkri og brátt er aðeins einn sjómannanna eftir ofansjávar. Einn maður andspænis algeru ofurefli, bjargarlaus á óravíðu hafi. Í örvæntingu syndir hann af stað … Einar Kárason segir hér frá bráðum lífsháska og sterkum lífsvilja, og byggir verkið á sönnum atburði.

Óvissa

Horfinn eiginmaður, kafbátaumferð í Reykjavíkurhöfn að næturþeli og ímyndunarveikur unglingur. Allt eru þetta óvæntar hliðar á nýju máli sem vinirnir Linda Lilja og Gabríel sogast inn í. Hörkuspennandi bók þar sem gullleit, njósnir og glæpir koma við sögu. Sjálfstætt framhald Mannavillt sem kom út 2021 og hlaut góða dóma.

Reimleikar

Ungur maður finnst kyrktur í Heiðmörk með rúmal, klút sem indverskir atvinnumorðingjar notuðu fyrr á öldum. Reimleikar er fimmta glæpasaga Ármanns Jakobssonar um rannsóknarlögreglurnar Kristínu, Bjarna og þeirra lið, sem notið hafa mikilla og vaxandi vinsælda.