Íslensk skáldverk

Kyrrþey

Vægðarlaus glæpasaga um þrúgandi þögn og heitar tilfinningar. Í fórum látins manns finnur ekkjan lúna skammbyssu sem reynist vera morðvopn úr gömlu og óupplýstu máli. Forvitnin grípur Konráð, fyrrverandi lögreglumann, vegna sams konar vopns sem faðir hans átti, og leiðir hann á vit fortíðar. Og úr djúpi tímans birtist fleira en hann óraði fyrir.

Ljósbrot

Þegar þú stendur frammi fyrir sannleikanum eða ímyndinni, hvort velurðu? Kolbrún er farsæll framkvæmdastjóri, hamingjusamlega gift og fjölskyldumyndin gæti auðveldlega fylgt rammanum úti í búð. Þegar hún býður sig fram til forseta fer af stað atburðarás sem hún hefði aldrei getað séð fyrir.

Mandla

Þegar grindhoruð læða birtist á hjúkrunarheimili tekur öldrunarlæknirinn Eva henni fagnandi. Hún veit að gæludýr hafa góð áhrif á vistmenn slíkra stofnana og berst fyrir því að kötturinn fái að vera. Fljótlega tekur hún eftir því að allir sem læðan Mandla tekur ástfóstri við látast skömmu síðar. Getur verið að hún geti spáð fyrir um andlát fólks?

Miðillinn

Á köldum vetrarmorgni er rannsóknarlögreglan kölluð út að Hólavallagarði. Innan um þá sem þar hafa verið lagðir til hinstu hvílu finnst lík eldri konu og fljótt er ljóst að dauðdaga hennar hefur borið að með saknæmum hætti. Hver getur hafa átt eitthvað sökótt við þessa eldri konu sem virðist hafa verið hlédræg, vanaföst og einförul?

Mikilvægt rusl

Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu?

Moldin heit

Ástin í lífi Karenar deyr. Hún mætir í jarðarförina óboðin, situr aftast og segir engum hver hún er. En eftir að hafa borið eina fortíð til grafar skýtur önnur upp kollinum. Moldin heit fjallar um ástina, listina, sorg og missi. Hér er á ferðinni feikisterk skáldsaga frá nýrri og spennandi rödd í íslenskum bókmenntaheimi.

Múffa

Markús er 33 ára, býr enn hjá föður sínum og stjúpmóður og heldur sig inni í herbergi á kafi í heimi tölvuleikja. En einn daginn fær hann pakka í pósti sem markar skil fyrir þau öll. Áleitin og grípandi skáldsaga frá snjöllum höfundi, saga um fjölskyldubönd og vináttu, rými og mörk, frelsi og hyldýpi – og það hvernig fólk kýs að lifa lífi sínu.

Sandárbókin

pastoralsónata

Ein vinsælasta saga höfundarins, sterk og áleitin, þar sem ótal kenndir og tilfinningar krauma undir sléttu yfirborðinu. Málari sem hefur sest að í hjólhýsabyggð ætlar að einbeita sér að því að mála tré, en dvölin er þó öðrum þræði hugsuð til að öðlast hugarró eftir ýmis áföll í lífinu. Útgáfan er hluti af nýrri ritröð bóka Gyrðis Elíassonar.

Sextíu kíló af sunnudögum

Þegar Gesti Eilífssyni berst óvænt sendibréf leggur hann upp í langferð. Í Ameríku kynnist hann nýjum og framandi heimi en líka áður ókunnum hliðum á sjálfum sér. Á meðan breytist allt í firðinum hans heima. Hér lýkur Hallgrímur Helgason stórvirkinu um síldarævintýrið á Segulfirði, þríleik þjóðar sem þráði betra líf, þurr gólf og ljós í tilveruna.