Íslensk skáldverk

Síða 2 af 7

DNA

DNA er fyrsta bók Yrsu Sigurðardóttur um barnasálfræðinginn Freyju og lögreglumanninn Huldar. Hún hlaut Blóðdropann sem besta íslenska glæpasagan og einnig Palle Rosenkrantz-verðlaunin sem besta glæpasagan í Danmörku. Bókin er núna endurútgefin í tilefni af sýningu sjónvarpsseríunnar Reykjavík 112 sem byggð er á DNA.

Dóu þá ekki blómin?

Elínborg situr á handriðinu og horfir yfir spegilslétt vatnið. Þetta er kveðjustund sem endist ævilangt. Þessi staður hefur verið henni skjól þegar heimurinn virtist ætla að klofna. Vatnið í sveitinni er gárað af óuppgerðum áföllum og brotin fjölskylda setur svip sinn á ljóma æskuáranna. Kraftmikil og kímin skáldævisaga Guðrúnar Guðlaugsdóttur.

Draugafans

Draugafans er hrollvekjandi spennusaga sem dregur upp nýja og nútímalega mynd af íslenskum menningararfi. Jaki Valsson vakti verðskuldaða athygli fyrir bók sína Miðsvetrarblót sem kom út á Storytel 2024, fyrstu bókinni í listilega skrifaðri sagnaseríu sem segja má með sanni að veki upp drauga fortíðar, hreinræktaða skelfingu og...

Eftirför

Þegar fjölskyldufaðirinn Hallur hverfur sporlaust stendur lögreglan ráðþrota gagnvart kaldri slóð. Það er ekkert sem gefur til kynna að hann hafi verið flæktur í neitt misjafnt og langþráð vetrarfrí fjölskyldunnar breytist skyndilega í martröð. Það er engu líkara en að jörðin hafi gleypt hann.

Eilífðarvetur

Siðmenningin leið undir lok. Aldir hafa liðið. Á eyju sem eitt sinn hét Ísland ríkir viðvarandi vetur. Tveir sagnaþulir hitta fyrir vélkonu sem grafist hafði undir rústum en er nú fangi þeirra sem fundu hana. Sagnaþulirnir bjarga henni en þá hefst flótti yfir vetrarríki þar sem aðeins eitt lögmál virðist gilda; að komast af, sama hvað það kostar.

Eldri konur

Ung kona gefur rapport af þráhyggju sinni fyrir eldri konum og rekur líf sitt frá barnæsku til fullorðinsára gegnum frásagnir af konum sem hafa heltekið hana. Eldri konur er röntgenmynd af ástandi. Við kynnumst konunni með ólíkum brotum af sögu hennar, uppvexti í flóknum heimilisaðstæðum, mismunandi vinnustöðum, vináttu, ástum, sigrum o...

Emilía

Ung kona, Emilía, flytur með foreldrum sínum og ömmu inn í timburhús í miðbæ Reykjavíkur. Ekki líður á löngu þar til hún uppgötvar að þau eru ekki ein á nýja heimilinu. Ragnar Jónasson sem er einn vinsælasti glæpasagnahöfundur heims sýnir hér á sér óvænta hlið í snarpri draugasögu.

Englar alheimsins

Stórbrotin og eftirminnileg verðlaunasaga Einars Más um mann sem veikist á geði og viðbrögð fjölskyldu og samfélags. Lýsingin á því hvernig skuggi geðveikinnar fellur smám saman yfir er átakanleg en um leið er sagan gædd einstakri hlýju og húmor í frásögn og stíl. Ein víðförlasta íslenska skáldsaga fyrr og síðar. Árni Matthíasson skrifar eftirmála.

Farðí rassgat Aristóteles

Guðgeir Guðgeirsson er andhetja og ólíkindatól sem allt veit, einmitt sú týpa sem fer óstjórnlega í taugarnar á fólki. Hann flyst til borgarinnar til að meika það sem rímnaskáld einhverjum hundrað árum eftir að rímur fóru úr tísku, auk þess sem rímur hans fjalla um efni sem ekki er líklegt til vinsælda eins og raunir bresku konungsfjölskyldunnar.

Fáeinar sögur smáar

Annað smásagnasafn höfundar, en hann hefur að mestu lagt stund á ljóðagerð. Fyrra smásagnasafnið, Nóttin og alveran, kom út árið 2004. Í þessu nýja safni eru sextán smásögur og kennir þar margra grasa. Sumar sagnanna eiga sér nokkra stoð í því tvíræða fyrirbæri sem kallast veruleiki, aðrar eru eingöngu kynjaðar úr hugarheimi höfundar.

Frelsi

Frelsi er önnur bókin í þríleiknum um Marínu, fertuga konu í andlegu sjálfsuppgötvunarferðalagi. Þér er boðið með Marínu í ferðalag á húsbílnum þar sem hún heldur vestur og speglar sjálfa sig í óbeislaðri náttúru fjalla og sjávar. Sagan er sjálfsævisöguleg og byggir á dagbókum höfundar.

Frumbyrjur

Það er aðfangadagur og hjónin á Kölduhömrum búa sig undir jólahaldið. Handan áramóta eiga þau von á sínu fyrsta barni og spennan í kviðnum smitar andrúmsloftið. Snjórinn hleðst upp og vegurinn út úr firðinum hefur ekki enn verið ruddur. Þegar kýrin á bænum tekur sótt hrökkva dyr upp á gátt sem ekki verður lokað.