Íslensk skáldverk

DJ Bambi

Bambi er 61 árs gömul trans kona sem vann áður sem plötusnúður en er í dag sérfræðingur í smæstu byggingareiningum mannslíkamans, frumum. Þetta er saga hennar frá því hún deildi móðurkviði með tvíburabróður sínum og þar til hún fór að taka kvenhormón. Auður Ava heldur hér áfram rannsókn sinni á kynjuðum heimi.

Dúnstúlkan í þokunni

Drauma-Jói fæddist um miðja 19. öld norður á Langanesi og var af galdramönnum kominn í beinan karllegg. „Árum saman, sérstaklega á milli tvítugs og þrítugs, bjó hann yfir mikilli fjarskyggnigáfu,“ sagði dr. Ágúst H. Bjarnason um hann í vísindagrein árið 1915. Í þessari sögulegu skáldsögu er byggt á sögum af þessum einstaka manni og örlögum hans.

Eden

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. Hjá íbúum í nálægu þorpi kviknar óvæntur áhugi á málvísindum. Á fjörur söguhetju rekur handrit að ljóðabók fyrrverandi nemanda hennar sem fjallar um ást ungs karlmanns á eldri konu. Eden fjallar um mátt orðsins og ábyrgðina sem við berum.

Eftirvæntingin

Sögumaður Eftirvæntingarinnar verður vitni að einkennilegu þruski í kjarri á kvöldgöngu sinni við Vatnið. Skömmu siðar fær hann upphringingu frá dularfullri kvenmannsröddu, sem mælist til að hitta hann með allfurðulegum hætti. Fyrr en varir er hann flæktur inn í atburðarás, sem hann fær lítt ráðið við.

Eitur

Önnur bókin í glæpasagnaflokknum um löggutvíeykið Dóru og Rado, harðsoðinn hörkukrimmi sem fjallar á raunsannan hátt um myrkar hliðar Reykjavíkur samtímans. Tökur á erlendum sjónvarpsþáttum standa sem hæst í Gufunesi þegar illa farið lík finnst innan í leikmyndinni. Fljótlega verður ljóst að málið tengist nýjum og banvænum fentanýl-töflum.

Friðarsafnið

Flóttamaður á ekki marga möguleika en með heppni og hugmyndaflugi má bjarga sér um stund. Eftir að Rakel stofnar Friðarsafnið á það hug hennar og ástina fann hún með manninum sem hún hafði þráð en sambandið gengur á ýmsu. Einn dag biður flóttamaður um að fá að fela sig á safninu. Það er erfitt að neita bjargarlausum manni um aðstoð.

Frýs í æðum blóð

Nágrannaerjur í Grindavík, þar sem tvenn hjón takast á, fara úr böndunum. Ung kona er óvænt ráðin sem afleysingakokkur á loðnuskip og brátt fara undarlegir atburðir að gerast um borð. Og torkennilegur beinafundur á sér stað í Reykjavík. Ólíkir þræðir fléttast hér listilega saman í spennandi glæpasögu þar sem ekki er allt sem sýnist.

Gaddavír og gotterí

Bókin Gaddavír og gotterí segir frá lífi og leikjum barna í sveit á Íslandi fyrir nokkrum áratugum. Lífið snýst um búskapinn og dýrin. Hugarheimur barna er tímalaus en bókin höfðar ekki síst til þeirra sem upplifðu þennan tíma og kynntust því að umgangast hesta alla daga, dýrin voru leikfélagar og náttúran stýrði lífi fólks.

Grátvíðir

Hin íslenska Jóhanna dregst óvænt inn í rannsókn á dauða ungrar konu á Norður-Ítalíu og leit þeirra Robertos lögreglumanns að svörum leiðir þau um alla Ítalíu og allt til Sikileyjar. Nístandi fjölskylduleyndarmál leita dagsljóssins og á milli Jóhönnu og Robertos vakna sterkar tilfinningar. Rómantísk og spennandi saga á suðrænum slóðum.

Hamingja þessa heims

Riddarasaga

Sagnfræðiprófessor í útlegð, ásakaður um ósæmilega framkomu, finnur gamalt handrit sem varpar nýju ljósi á löngu liðna sögu. Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna. Hér stíga helstu persónur hennar ljóslifandi fram; með Ólöfu ríku í broddi fylkingar.

Haugalygi

Minnið er svo dyntótt og lævíst. Þannig hefst fyrsta sagan í Haugalygi sem jafnframt er fyrsta bók Sigtryggs Baldurssonar. Þar rifjar hann upp sögur sem hvorki eru alsannar né upplognar. Brot úr eigin ævi og annarra en líka sögur af alókunnugu fólki.

Heim fyrir myrkur

Hin 14 ára Marsí skrifast á við strák sem býr hinum megin á landinu. En hún gerir það í nafni systur sinnar. Bréfaskiptunum lýkur með því að þau ákveða að hittast. Marsí kemst ekki til að hitta hann en þar sem þau höfðu mælt sér mót finnst blóðug úlpa systur hennar sem er horfin. Tíu árum síðar hefur þessi óþekkti pennavinur samband á ný.