Íslensk skáldverk

Getnaður

Getnaður vann samkeppni Forlagsins Nýjar raddir 2022. Hnyttnar og hispurslausar ástarsögur um þrítuga Reykvíkinga sem fléttast saman á óvæntan hátt. Djammið dunar en fullorðinspressan fer sívaxandi – en er tímabært að búa til barnabarn handa mömmu þegar ekki er einu sinni hægt að vera sammála um sjónvarpsdagskrána?

Gratíana

Framhald Hansdætra. Framtíðarvonir Gratíönu eru að engu orðnar eftir árin í Bótarbugt en Evlalía móðir hennar er óbuguð enn. Með kænsku kemur hún Gratíönu suður og markar nýja stefnu fyrir þær Ásdísi litlu. En ekki allar mæður komast frá börnunum sínum. Áhrifarík og hjartastyrkjandi skáldsaga um sögupersónur sem lifa áfram með lesandanum.

Guli kafbáturinn

Miðaldra rithöfundur staddur í almenningsgarði í London á brýnt erindi við Paul McCartney sem situr þar undir tré. Fortíðin sækir á hann í líki gamals Trabants þar sem sitja m.a. faðir hans og Guð með vodkaflösku, mamma hans og heill kirkjugarður af dánu fólki. Skáldsaga um listina, dauðann og þó miklu frekar um lífið, ímyndunaraflið og Bítlana.

Gættu þinna handa

Fimm vinir halda til Vestmannaeyja um miðjan vetur. Tilefnið er sorglegt, jarðarför gamallar vinkonu, en endurfundirnir eru líka ánægjulegir. Fljótlega verður þó ljóst að þau eiga óuppgerð mál úr partíi sem þau héldu sjö árum fyrr á stúdentagarði og hlaut örlagaríkan endi. Og ekki er víst að allir eigi afturkvæmt úr þessari ferð.

Hamingja þessa heims

Riddarasaga

Sagnfræðiprófessor í útlegð, ásakaður um ósæmilega framkomu, finnur gamalt handrit sem varpar nýju ljósi á löngu liðna sögu. Fimmtánda öldin er öldin sem týndist í Íslandssögunni, þegar þjóðin lenti skyndilega í hringiðu evrópskra stjórnmála og viðskiptahagsmuna. Hér stíga helstu persónur hennar ljóslifandi fram; með Ólöfu ríku í broddi fylkingar.

Heildarsafn ritverka Sjóns

Með einstöku hugmyndaflugi, víðtækri þekkingu og magnaðri stílgáfu hefur Sjón auðgað bókmenntirnar og vakið athygli víða. Hér koma út í einu lagi öll ritverk hans frá 1978 til 2022, þrettán ljóðabækur og tíu skáldsögur. Í hverri bók er eftirmáli eftir fræðimann eða rithöfund; greiningar, skýringar og túlkanir. Verkin koma einnig út sem hljóðbækur

Hungur

Lögreglan í Reykjavík fær tilkynningu um dularfullt mannshvarf. Ungur maður frá Vestfjörðum sem ætlaði að tjalda í borgarlandinu er horfinn sporlaust. Nokkru síðar er tilkynnt um hrottalegt morð um hábjartan dag á heimili í nágrenni Elliðaárdals. Hörður Grímsson telur að málin tengist og að hryllingnum sé ekki lokið. Hið illa er komið á kreik.

Húslestur

Ritgerðir

Í bókmenntatextum sem leika á mörkum sannleika og skáldskapar, arfs og umbyltingar, alvöruþunga og „absúrd kómíkur“, er látið reyna á tjáningargetu ritgerðaformsins sem skáldlistar. Viðfangsefni þessara veraldlegu húslestra eru bæði frumleg og fjölbreytt, en bókin ber keim af fyrri verkum höfundar, Tregahandbókinni og Íslenskri lestrarbók.

Jarðsetning

„Við sýnum teikningar og módel af nýjum byggingum og skálum fyrir því þegar þær rísa. Við leggjum hornsteina og höldum reisugilli. Niðurrif og jarðsetning bygginga fer hins vegar iðulega fram í kyrrþey." Með hversdagslíf borgarinnar í bakgrunni fléttar höfundurinn frásögn af lífi og dauða byggingar saman við sögu hugmynda og sína eigin sögu.

Játning

Tveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins. Þau fella hugi saman en líf þeirra tekur óvænta stefnu þegar yfirvöld fara að sýna þeim áhuga. Áratugum síðar neyðist Elísabet skyndilega til að minnast þessara löngu liðnu daga sem hún vill síst af öllu rifja upp.