Niðurstöður

  • Íslensk skáldverk

Farangur

Ylfa stendur á brautarpallinum, loksins búin að gera upp hug sinn. Hún verður að komast burt. Undir eins, áður en hann vaknar. Ekkert má koma í veg fyrir að hún komist af stað. Ekki einu sinni þessi óvænti farangur sem hún fær í fangið. Farangur er grípandi og hrollvekjandi spennusaga sem erfitt er að leggja frá sér fyrr en að lestri loknum.

Fegurðin ein

Síðasta sýningin á söngleiknum um Fríðu og Dýrið. Anna dansari er í stuði í lokapartíinu – þar til bæði kærastinn og viðhaldið mæta. Hún tekur því fagnandi óvenjulegu verkefni fyrir auglýsingastofu: að fara til Tenerife og finna fallegt en venjulegt fólk í auglýsingar. Grátbrosleg samtímasaga.

Ferðalag til Filippseyja

Í enda fyrsta hluta þessarar sannsögulegu frásagnar var sögumaður nýlentur á Reykjavíkurflugvelli eftir stutt ferðalag. Við endurnýjum nú kynni okkar við hann daginn sem hann ætlar að halda ferðalaginu áfram og fljúga til Maníla á Filippseyjum með viðkomu í Dubaí þar sem unnustan bíður hans. Lífið er ævintýri og ástin saga sem þarf að segja frá.

Fíkn

Líf Ellerts umturnast þegar hann heillast af myndlistarkonunni Freyju Negroni, sem hefur nýlega snúið heim frá Ítalíu eftir erfiðan skilnað. Hann reynir að fylgja Freyju eftir í tryllingslegri rússíbanareið þar sem fíkn er yfir og allt um kring. Villt kynlíf og vímugjafar virðast aldrei langt undan. Lygarnar og svikin vinda upp á sig. Rannveig Borg slær hér nýjan og djarf...

Fjarvera þín er myrkur

Er það ábyrgð eða hugleysi að sætta sig við örlög sín? Hér tvinnast saman yfir staði og tíma, kynslóð fram af kynslóð, líf sem kannski eru jafn tíðindalítil og girðingarstaurar en halda þó öllu uppi. Kornabarn sem rétt er yfir eldhúsborð, löngu dáið þýskt skáld og döpur rokkstjarna. Sum bros geta breytt heimum og sum líf kvikna eingöngu vegna þess að heimar gengu úr skorðum.

Gaddavírsátið

og aðrar sögur

Í bókinni er úrval af smásögum eftir eitt umtalaðasta utangarðsskáld Íslandssögunnar, Jochum Magnús Eggertsson, sem tók sér skáldnafnið Skuggi. Skuggi var þekktur fyrir frumlegar kenningar, þrasgirni og frábæran skáldskap. Titilsagan er með fyndnari nóvellum sem skrifaðar hafa verið á íslensku.

Guð leitar að Salóme

Í örvæntingarfullri leit að kisunni sinni venur Salóme komur sínar á Kringlukrána til að skrifa bréf stíluð á Helgu. Með lifandi frásagnargleði afhjúpar hún sjálfa sig og leitar skilnings á fjölskyldusögunni, ástinni og sálarstríði ungrar konu í grátbroslegum smábæjarharmleik. Hér er á ferðinni martraðarkennd uppvaxtar- og ástarsaga úr rammíslenskum veruleika.

Haustið 82

Haustið 1982 er krefjandi fyrir Möggu. Hún er í erfiðu háskólanámi og námslánin duga skammt, pabbi hennar veikist og mamma hennar gerir bara illt verra. En þegar líður að jólum ákveður Magga að leyfa sér að vera hvatvís og eyða þeim hjá vinkonu sinni í Bandaríkjunum, þó hún sé nýbúin að kynnast spennandi strák. Haustið 82 er eins og önnur haust, fullt af lífi.

Hálf­gerðar lyga­sögur með heilag­an sannleika í bland

Guðbergur hefur einstaka sýn á mannlegt eðli og samfélag. Hér má lesa sögur úr heillandi blöndu af fyndni og sársauka, sannleika og uppspuna. Þegar lesandinn heldur að hann hafi áttað sig á hvert stefnir er honum komið í opna skjöldu með óvæntum snúningi, órum, háði eða skyndilegri viðkvæmni – sem höfundurinn hefur flestum betur á valdi sínu.

Hið heilaga orð

Ung kona hverfur frá nýfæddu barni sínu og bróðir hennar leggur í leit að henni. Hið heilaga orð er spennandi saga um ástríðu og lestur, flótta og ferðalög, og undursamleg völundarhús mannshugans. Sigríður Hagalín er fréttamaður á Ríkisútvarpinu. Fyrsta bók hennar, Eyland, vakti verðskuldaða athygli og kemur nú út víða um Evrópu.

Hitinn á vax­mynda­­safninu

Sjö nútíma­kraftaverka­sögur

Kraftaverk nútímans láta ekki alltaf mikið yfir sér. Stundum varpar óvænt atburðarás eða óútskýrt atvik nýju ljósi á allt sem var og er og verður, eða fólk kemur auga á samhengi sem umturnar lífi þess. Ísak Harðarson skrifar hér af djúphygli og hlýju um furður tilverunnar í snjöllum og gáska­fullum smásögum um leitina sígildu að sann­leik­anum og hamingjunni.

Hjálp!

Á fallegum sumardegi finnst lík af nakinni konu í sorpgeymslu við safnaðarheimili Dómkirkjunnar í Reykjavík. Henni hafði verið misþyrmt með hrottafengnum hætti. Brátt vakna grunsemdir um að fleiri konur kunni að vera í hættu. Jónas og félagar hans hjá sérdeild rannsóknarlögreglunnar keppast við að leysa málið. En það tengir anga sína í óvæntar áttir ...

Horfnar

Það er sumarbjart og sólin skín við Kirkjubæjarklaustur. Tvær þýskar vinkonur á bakpokaferðalagi heillast af stórbrotinni náttúrunni. Undir friðsælu yfirborðinu við Klaustur leynast þó myrk leyndarmál sem stúlkurnar tvær vilja ekki vita af. Hörður Grímsson lögreglumaður er mættur að Klaustri til afleysinga. Þar gerist aldrei neitt. Að hann heldur.

Hrafninn

Hrafninn er sjötta bókin í Hjartablóðsseríunni. Ester og Gissel eru á flótta frá yfirvaldi í Mariestad. Þau ferðast að rótum fjallanna þar sem flokkur Ara tekur þeim opnum örmum. Í húmi nætur sjá þau ekki hrafnana sem fylgja skuggum þeirra en þau finna að dauðinn er nærri. Meðal flokksins búa djúpstæð leyndarmál sem gætu breytt lífinu til frambúðar.

Hringferðin

Sumarið 2020 finnst er illa útleikið lík fjölskylduföður, og skilaboð frá morðingjanum eru skilin eftir á vettvangi, rituð með blóði. Áður en langt um líður teygja angar málsins sig víða um land. Fimm manna fjölskylda af stað í hringferð um landið, ómeðvituð um hættuna sem fylgir. Hringferðin er æsispennandi krimmi sem talar beint inn í samtímann.

Hugfanginn

Þegar líður yfir Smára kemur leyndur hjartagalli í ljós. Þórgunnur, æskuvinkona hans, spyr hvort slíkur galli geti verið arfgengur? Leitin að svari við þeirri spurningu leiðir hann að sögu foreldra sinna, sem hann kynntist aldrei. Hugfanginn er saga um ást og þrá, um fíkn og ábyrgð, um hlekki hugans sem setja tilfinningunum strangar skorður, og um frelsið handan þeirra.

Hylurinn

Hylurinn er dramatísk og spennandi saga af heillandi mannlífi, andlegum þroska, ástum og fallegri vináttu. En við hittum einnig fyrir hinar myrkustu hliðar mannlífsins og lesandinn dregst inn í spennu þar sem við sögu koma bein manns og hests í litlu heiðarvatni. Hylurinn er fyrsta bók höfundar sem hefur yfir að ráða næmum og fallegum stíl.

Hægt og hljótt

til helvítis

Rannsóknarlögregluþjónarnir Aron Freyr og Jóhanna mæta á vettvang alvarlegs glæps í miðborginni. Fjölskylduföður dreymir um góð efni og glæsta framtíð fyrir sig og sína, graðir bankamenn leggja allt að veði nema eigin hagsmuni og miðaldra fasteignasala dreymir um betra líf. Græðgi og hatur ólmast og birtast í kimum kommentakerfanna.