Íslensk skáldverk

Rambó er týndur

Kennarinn og karókídrottningin Sandra sinnir unglingum af natni á daginn og stundar kaup og sölu á notuðum húsgögnum á kvöldin. Þegar huggulegur maður blikkar hana um hábjartan dag í Sorpu verður hún strax gagntekin og sannfærð um að hrifningin sé gagnkvæm. Þegar hún kemst að því að smáhundurinn hans er týndur veit Sandra að örlögin hafa talað.

Reykjavík

Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni og engin skýring kemur fram á hvarfi hennar. Í ágúst 1986 fer ungur blaðamaður að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sálarhlekkir

Komið er að tímamótum í lífi Halldóru Hallbjargar Orradóttur þegar farið er að líða á ævikvöldið. Hún þarf að segja skilið við lífið sem hún þekkir og flytjast á hjúkrunarheimili með lítið annað með sér en dularfullt umslag. Nýr kafli hefst í lífi hennar en um leið rígheldur fortíðin í hana. Myrk leyndarmál, sem hlekkjað hafa sál hennar alla tíð fr

Hrímland Seiðstormur

Síðari bókin í Hrímlandstvíleiknum, sem hefur notið vinsælda í Bretlandi og Bandaríkjunum. Samveldið Kalmar riðar til falls og hungrið sverfur að í Reykjavík. Elka flýr til Vestmannaeyja og kemst þar í kynni við skuggalegan sértrúarsöfnuð. Seiðskrattinn Kári tekur þátt í leynilegum leiðangri á hálendinu en órar ekki fyrir ógeðfelldum tilgangi hans.

Sextet

Í Sextet heimsækir Sigurður Guðmundsson gömul verk (Tabúlarasa, Ósýnilega konan, Dýrin í Saigon og Musa) og horfir á þau frá nýju sjónarhorni. Lesandinn fær aðra sýn á verkin sem mynda nú nýja heild. Sextet er frumlegt skáldverk listamanns, gegnum lífið, ástina og listina.

Sigga Vigga og tilveran

Heildarsafn

Margir þekkja teiknimyndasögurnar um Siggu Viggu, fyrstu íslensku myndasöguhetjuna. Fyrsta bókin um Siggu Viggu og félaga hjá Þorski há/eff kom út árið 1978, en í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá fæðingu höfundarins er komin út vegleg endurútgáfa á öllum fimm bókunum í myndskreyttri öskju með formála eftir Úlfhildi Dagsdóttur.

Sigurverkið

Söguleg skáldsaga sem gerist á Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn á 18. öld; margslungin frásögnin lýsir á áhrifaríkan hátt beiskum örlögum alþýðufólks og valdinu sem það verður að lúta. Sagnameistarinn Arnaldur fetar hér nýja slóð, því bókin er að hluta byggð á raunverulegum atburðum og persónum sem stíga fram á sviðið í trúverðugri og mergjaðri sögu.

Sjávarhjarta

Ása Marin er að góðu kunn fyrir heillandi skáldsögur sínar um ævintýri á framandi slóðum. Hér segir frá Díu sem fer í sannkallaða draumasiglingu um Karíbahafið með sínum ástkæra Viðari. Litríkt mannlíf og gómsætur matur eyjanna standa sannarlega undir væntingum, en dularfull og daðurgjörn kona úr fortíðinni setur strik í reikninginn.

Snjór í paradís

Meginstef þessarar áhrifamiklu bókar eru nánustu sambönd fólks; hjóna, foreldra og barna, elskhuga og vina; og hvernig hið leyndasta í lífi sérhvers manns, það sem hugur einn veit, getur breytt öllu komi það upp á yfirborðið. Snjór í paradís er mögnuð bók um ást og von, blekkingu og afhjúpun, hliðarspor og heiðarleika.

Sólskinshestur

Áhrifamikil saga um ástlausan uppvöxt í stóru húsi og óhöndlanlega hamingju, um draumóra og kaldan veruleika, æskuást sem týnist og birtist á ný, djúpa sorg – og um dauðann. Þessi einstaka skáldsaga, í senn bráðfyndin og nístandi sár, kom fyrst út 2005 og er ein skærasta perlan í höfundarverki Steinunnar. Guðrún Steinþórsdóttir skrifar eftirmála.

Strákar sem meiða

Maður finnst myrtur í sumarbústað í Skorradal. Á veggnum fyrir ofan hann hafa verið skilin eftir blóðug skilaboð. Elma, sem aðdáendur Evu Bjargar þekkja úr fyrri bókum hennar, glímir hér við sérlega erfitt mál sem teygir anga sína víða um samfélagið og tugi ára aftur í tímann – ekki síst eftir að gömul dagbók ungs drengs finnst.

Sumarblóm og heimsins grjót

Grípandi örlagasaga um ást og vináttu, flókin fjölskyldubönd og aðferðir fólks til að bjarga sér á fyrri hluta 20. aldar. Þegar Sóley stendur ein uppi með nýfætt barn þarf hún að gangast undir samkomulag sem færir henni bæði frelsi og fjötra. Áföllin dynja yfir en seiglan fleytir henni langt. Fyrsta skáldsaga höfundar, innblásin af sönnum atburðum.

Sumar með Rebekku

Listmálarinn Erik býr í foreldrahúsum undir ströngu eftirliti móður sinnar. Eitt sumar verður Erik yfir sig ástfanginn af Rebekku. Þrátt fyrir vanþóknun móður Eriks á ástarsambandinu upplifir Erik hamingjusömustu daga ævi sinnar. Á mörkum bjartrar framtíðar og nýs lífs á Langafirði er Erik jafnframt á barmi myrkurs sem á eftir að umsnúa lífi hans.