Íslensk skáldverk

Reykjavík

Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni og engin skýring kemur fram á hvarfi hennar. Í ágúst 1986 fer ungur blaðamaður að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Riddarar hringstigans

Eftirminnileg verðlaunabók sem markaði tímamót í íslenskri sagnagerð þegar hún kom fyrst út 1982. Þetta er sígild þroskasaga um viðburðaríka æsku, sögð af barnslegri einlægni drengs en alvitur sögumaður býr yfir visku og yfirsýn. Frásagnarhátturinn er óvenjulegur, orðfærið einstakt og hugarflugið ómótstæðilegt. Halldór Guðmundsson ritar eftirmála.

Saknaðarilmur

Þegar fullorðin dóttir missir móður sína skríða áföllin upp úr gröfum sínum og veröldin fyllist saknaðarilmi. Hér veltir Elísabet steinum og strýkur lesandanum móðurlega um kinn, og heldur óþreytandi áfram leit sinni að ást, friði og sátt. Nístandi falleg saga eftir höfund Aprílsólarkulda sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Sápufuglinn

Sápufuglinn hefur að geyma þrjár sögur um losta og valdadýnamík í samböndum, flókna kynverund og arfgengan hæfileika til að ferðast um í tíma. María Elísabet Bragadóttir sló eftirminnilega í gegn með sinni fyrstu bók Herbergi í öðrum heimi. Sápufuglinn kemur róti á huga lesanda með djúpu innsæi höfundar, óbeisluðu hugmyndaflugi og beittum húmor.

Skerið

Ási vaknar einn og yfirgefinn á hótelherbergi á Tene eftir fyllerí. Hann er rólegur í fyrstu en gamanið er fljótt að kárna. Pési vinur hans er horfinn og Ási er fastur á eyjunni, sem á sér dularfulla fortíð. Fljótt kemst hann að því að hann er í mikilli hættu. Skerið er hljóðsería í sex hlutum þar sem hljóðbókarformið er tekið á næsta stig.

Snarkið í stjörnunum

Ættarsaga og blíðleg minningabók sjö ára drengs í Reykjavík um 1970. Við fylgjumst með lífi hans í kjölfar móðurmissis, samskiptum við föður og vini og hrekkjusvín og þöglu stjúpuna sem birtist einn dag. Saman við söguna tvinnast brot úr lífi ólíkra kynslóða í gleði og sorg. Saga um ástina í ýmsum myndum. Fimmta skáldsaga höfundar, frá árinu 2003.

Sorprit og fleiri sögur

Hvað eiga samhent hjón í sumarleyfi, rithöfundur, sorphirðumaður, flugvallarstarfsmaður, skóbúðareigandi og fíkniefnasmyglari sameiginlegt? Jú, mikilvæg augnablik á lífsleiðinni eins og við öll upplifum. Stundum rötum við jafnvel í hættulegar aðstæður – og ef við sleppum frá þeim fáum við kannski svör við stórum spurningum.

Sólrún

- saga um ferðalag

Sólrún ákveður að láta sig hverfa úr þjónustuíbúð fyrir aldraða og leggur af stað í ferðalag á puttanum. Förinni er heitið í Mývatnssveit en þangað telur hún sig eiga brýnt erindi. Margvíslegt fólk verður á leið hennar og sterkar minningar blandast inn í upplifun hennar, móðurþrá, ást og sekt, og svo dauðinn sem nálgast óðum. Áhrifamikið skáldverk.

Stóri bróðir

Stóri bróðir er saga um hefnd og réttlæti, um kærleika og missi, ofbeldi og gamlar syndir. Svartklædd vera gengur í skrokk á manni við Rauðavatn og hverfur svo eins og vofa út í nóttina. Enginn veit hver árásarmaðurinn er eða hvað vakir fyrir honum. Stóri bróðir er hörkuspennandi glæpasaga sem heldur lesandanum föngnum frá upphafi til enda.

Strákar sem meiða

Maður finnst myrtur í sumarbústað í Skorradal. Á veggnum fyrir ofan hann hafa verið skilin eftir blóðug skilaboð. Elma glímir hér við sérlega erfitt mál sem teygir anga sína víða um samfélagið og tugi ára aftur í tímann – ekki síst eftir að gömul dagbók ungs drengs finnst. Og á Akranesi er fólk sem vill alls ekki að sannleikurinn komi í ljós.

Svefngríman

Átta smásögur sem vega salt á mörkum þess hversdagslega og þess fáránlega. Síðasti kaffibollinn fyrir heimsendi, eðlilegur útlimamissir, úthverfablinda, gervigreindarvinátta, óráð, ímyndun, sambönd og tengslaleysi. Verk sem hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Takk fyrir komuna

Hótel Saga geymir ýmis leyndarmál og ævintýri, þar blandast fólk og aðrar furðuverur eins og skyr og hafragrautur. Nokkrir meistaranemar í ritlist, með aðstoð ritstjóra sinna, töfra hér fram ljóð og sögur sem verða að ljúffengum hræringi með svignandi veisluborðum, klámi, daðri, óvæntum uppákomum, dulúð og dauðum hana.

Tálsýn

Líf Önnu er eins og spegilslétt yfirborð vatnsins. Þar birtist mynd af framakonu sem allir vegir eru færir. En vatnið tekur að gárast og vísbendingar um að óvinveitt öfl sæki að Önnu hrannast upp. Rannveig Borg Sigurðardóttir sló í gegn með fyrstu bók sinni, Fíkn, og fylgir henni hér eftir með afar spennandi bók.

Tól

Líkt og í fyrri bókum Kristínar Eiríksdóttur virðist allt blasa við en ekkert er sem sýnist. Hvernig tengist Villa Dúadóttir hvalveiðimanninum Dimma, sem hún hefur nú gert um heimildamynd? Hvers vegna vill hún segja sögu hans? Er yfirleitt viðeigandi að hún geri það? Og hvað með Amalíu, sem hún klippti út úr myndinni?