Íslensk skáldverk

Svikabirta

Fáeinum árum eftir að himnarnir opnuðust eru grimmileg morð framin á heimskautinu. Sú eina sem getur stöðvað morðingjann er norn sem er fangelsuð í fjarlægu landi. Í Svikabirtu dregur Ingi Markússon lesendur enn lengra inn í hélaðan heiminn sem hann skóp með fyrstu skáldsögu sinni, Skuggabrúnni, sem vakti mikla athygli og einróma lof gagnrýnenda.

Sæluríkið

Mögnuð og áleitin saga um brostna drauma, kalda grimmd og fólk sem á stórra harma að hefna. Líkfundur við Hafravatn hleypir af stað óvæntri atburðarás og upprifjun gamalla frétta og sakamála verður til þess að heiftúðugt andrúmsloft kaldastríðsáranna leitar á huga Konráðs sem var lengi í lögreglunni. Geysivel fléttuð bók frá meistara glæpasögunnar.

Urðarhvarf

Spennandi saga sem heldur lesanda í heljargreipum. Eik tilheyrir hópi sjálfboðaliða sem leitar uppi flækingsketti og kemur þeim í skjól. Við Urðarhvarf situr hún fyrir læðu með kettlingahóp þegar skyndilega birtist skrímsli úr fortíðinni sem rótar upp óþægilegum minningum. Skepna sem Eik hafði talið sjálfri sér trú um að væri bara hugarburður.

Utan garðs

Eftir 27 ár neyðast Júlía og bróðir hennar til að halda aftur heim á æskuslóðirnar. Sem unglingum var þeim útskúfað úr þessu litla samfélagi og Júlía kemst fljótlega að því að það hefur ekkert breyst – þau eru enn talin hafa hafa framið alvarlega glæpi. En minningabrotin raðast saman og afhjúpa hvað gerðist og hverjir frömdu þessa hrottalegu glæpi.

Valskan

Prestsdóttirin Valka á sér ýmsa drauma en náttúran grípur í taumana – bæði sú sem sýnir mátt sinn með veðurofsa og harðindum en líka sú sem býr innra með henni og kveikir ástríðu og losta. Frásögnina byggir höfundur á lífi formóður sinnar og fléttar saman heimildum og skáldskap svo úr verður grípandi saga um harða lífsbaráttu, þrautseigju og ástir.

Vordagar í Prag

Íslenskur námsmaður upplifir hið sögulega Vor í Prag og horfir á hlutina með gests augum. Hann er í hringiðu ólgandi uppreisnar með skrautlegum samnemendum sínum af ýmsum þjóðernum, kynnist ástinni og sósíalismanum, sem hvort um sig vekur með honum mótsagnakenndar tilfinningar. Innfæddir skora á hann að fylgjast með og bera vitni um atburðina.

Þrenna

ár og sprænur; hulda ráðgátan, litlu sögurnar í hálfa samhenginu og ranimosk

Bókin Þrenna samanstendur af bókunum Ár og sprænur; hulda ráðgátan, Ranimosk og Litlu sögurnar í hálfa samhenginu. Í bókunum má finna prósa í hugleiðingaformi sem hverfast um vangaveltur höfundar um málefni líðandi stundar, texta sem ekki urðu að sjálfstæðum bókum ásamt endurminningum sem dansa á línu raunveru­leika og skáldskapar.

Þvingun

Maður finnst myrtur í bústað við Laugarvatn og sú sem kemur að honum er Magga, dóttir Adams sálfræðings og Soffíu rannsóknarlögreglukonu. Mál fara að flækjast þegar í ljós kemur að einn skjólstæðingur Adams hefur fundið hótunarbréf sem tengist morðinu og fyrr en varir er Adam enn á ný kominn í hlutverk aðstoðarmanns fyrrverandi eiginkonu sinnar.

Því dæmist rétt vera

Í Tangavík ríða húsum hættulegar hugmyndir um réttlæti og jöfnuð en yfirvöldum er í mun að bæla niður alla uppreisn. Safarík saga um glæp og refsingu í litlu sjávarþorpi á 19. öld – þorpi sem þó kann að vera nafli heimsins. Þræðir spinnast til allra átta og sagnfræði og skáldskapur togast á um satt og logið, rétt og rangt í litríkum vef Einars Más.

Ævintýrið

Í heitasta landi heims skríða eðlur á veggjum, höfrungar leika listir sínar í sjónum og ljón standa á vegum. Þar búa vinirnir Drengur og Fiskur sem eru líkari en margan gæti grunað. Djúpvitur og hrífandi saga um óvænta vináttu, misskiptingu valds og auðs og fegurðina í óhugnaðinum; skrifuð af einstakri frásagnargleði og næmi fyrir mannlegu eðli.