Barnabækur - Skáldverk 6-12 ára

Lending

Flugvélin hristist og skelfur. Allt leikur á reiðiskjálfi. Hávaðinn er ærandi, hlutir kastast til og frá... Þannig hefst sagan um Kareem sem kom til Íslands eftir lengsta ferðalag í heimi, kastaði upp, lærði að telja á dönsku, gleymdi því strax, eignaðist vini og óvin, var sakaður um þjófnað og barðist við að týna ekki voninni.

Leyndardómar Draumaríkisins

Nóttina eftir að hinn ellefu ára Davíð varð fyrir höfuðhöggi í körfubolta er hann skyndilega staddur í Draumaríkinu, töfrandi stað þar sem draumar eru búnir til. Þar hittir hann Sunnu sem kynnir hann fyrir nýjum og spennandi heimi. En vandi steðjar að Draumaríkinu – martraðaskrímsli eru byrjuð að skemma drauma. Spennandi og skemmtileg verðlaunabók!

Loki: leiðarvísir fyrir prakkara í vanda

Loki er þekktur fyrir prakkarastrik og ekki gengur honum vel að sanna fyrir Óðni að hann geti hagað sér almennilega! Hér kemur önnur bókin í ritröðinni um Loka og dvölina á jörðinni sem Óðinn skikkaði hann til. Bráðskemmtileg og fyndin bók með rætur í menningararfinum. Fyrsta bókin um Loka og leiðangur hans kom út hér á landi árið 2022.

Múmínálfarnir og Hafshljómsveitin

Hugljúf endursögn úr Minningum múmínpabba eftir Tove Jansson. Múmínfjölskyldan siglir um höfin og lendir í ótal ævintýrum: þau bjarga frænku hemúlsins úr lífsháska, leggja lævísa gildru fyrir risavaxinn dronta og hitta dularfullar slímloppur. En besta ævintýrið bíður þeirra heima. Litríkar myndir varpa töfraljóma á lífið í múmíndal.

Mömmuskipti

Linda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Mamma hennar er áhrifavaldur sem tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd af Lindu er þekkt um allan heim. En nú er illt í efni! Mamma Lindu keppir um pláss í nýjum raunveruleikaþætti. Ef allt fer á versta veg fá þau nýja mömmu í heilan mánuð og alþjóð mun fylgjast með!

Dulstafir Orrustan um Renóru

Eftir hrakfarirnar í marmaraborginni standa Elísa og gæslumennirnir frammi fyrir krefjandi ferðalagi sem fer með þau um gjörvallt landið. Hættur leynast víða, sterkar tilfinningar krauma og ungmennin þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Lokaorrustan við steingyðjuna er framundan og örlög allrar Renóru hvíla á herðum þeirra.

Dagbók Kidda klaufa 17 Rokkarinn reddar öllu

Hér er komin sautjánda bókin í þessum vinsælasta bókaflokki heims, Dagbók Kidda klaufa. Kiddi klaufi vill verða frægur og ríkur. En hvernig fer maður að því? Jú, með því að vera í hljómsveit. Íslenskar þýðingar Helga Jónssonar á bókunum eru margverðlaunaðar. Kiddi klaufi fær alla til að lesa, líka þá sem nenna því ekki.

Skilaboðaskjóðan

Putti þráir ekkert heitar en að lenda í ævintýrum. En þegar Nátttröllið ógurlega rænir honum og lokar inni í helli er Putti ekki alveg viss um að þetta ævintýri endi nógu vel. Ástsæl og æsispennandi saga sem er loksins fáanleg á ný – fyrir alla ævintýraþyrsta krakka með nef fyrir góðum uppfinningum.

Skólaslit 2

Dauð viðvörun

Ár er liðið frá því að hugrakkir krakkar gjörsigruðu myrkraverur sem höfðu lagt Reykjanesið undir sig. Allt endaði vel og allir gátu andað léttar. Eða hvað? Þegar hópur unglinga skellir sér í ferðalag út á land kemur í ljós að enginn er óhultur. Allra síst krakkarnir í öftustu rútunni ... Sjálfstætt framhald metsölubókarinnar Skólaslita.

Skrímslavinafélagið

Fyndin og fjörug saga, full af litríkum myndum, sem á örugglega eftir að kitla hláturtaugar 6 til 10 ára lesenda. Allir vita að bestu leyndarmálin eru geymd í leynifélögum. Þess vegna stofna Pétur og Stefanía Skrímslavinafélagið. Þegar þau finna dularfullt og hættulegt svart duft í skólanum sínum fara leikar að æsast.

Ævintýri morgunverðarklúbbsins Skrímslið og týndi fótboltinn

Marcus verður fyrir því óláni að týna fótboltanum sínum og þegar hann fer að leita að honum, ásamt vinum sínum, kemst hann að því að ekki er allt sem sýnist. Bráðskemmtilegt ævintýri, bara pínulítið stressandi, fyrir alla fótboltakrakka - og hina líka.