Þýdd skáldverk

Brúðkaup í Paradís

Catherine Swift er drottning ástarsagnanna og hefur trónað á toppi metsölistanna í áratugi. Hennar eigið ástarlíf hefur ekki verið eins farsælt og hefur það valdið álagi á samband hennar við dæturnar tvær. Catherine býður dætrum sínum í fjórða brúðkaupið sitt og þegar systurnar koma á eyjuna hafa þær afar ólíkar væntingar til þess sem í vændum er.

Bölvunin

Bölvunin er saga um morð og þá sem lifa áfram. Um arfleifð og sekt, tímann og ástina. Hún hlaut frábærar viðtökur við útkomu í Svíþjóð, var tilnefnd sem spennusaga ársins og hefur síðan komið út víða um heim við mikið lof. "Stórkostlega byggð skáldsaga." Aftonbladet.

Daladrungi

Það er vetrarleyfistími í Åre og bærinn iðar af mannlífi. Dag einn finnst illa útleikið lík fyrir utan bæinn. Fórnarlambið, fullorðinn karlmaður sem þekktur var á árum áður sem mikill skíðakappi, virðist ekki eiga sér neina óvini. Lögregluteymið Hanna og Daniel rannsaka málið. Inn í það blandast trúarhópur við norsku landamærin.

Österlen-morðin Dauðinn á opnu húsi

Þegar glæpasagnahöfundur og grínisti skrifa saman krimma í anda Agöthu Christie, getur útkoman varla orðið annað en góð. Ferkantaður rannsóknarlögreglumaður frá Stokkhólmi rannsakar morð í smábæ á Skáni. Sveitalubbaháttur lögreglunnar á staðnum fer mjög í taugarnar á honum en hann á jafnbágt með að þola broddborgarana sem verja sumarfríinu þar.

Draumur um Babýlon

Einkaspæjarasaga frá 1942

Þegar einkaspæjarinn C. Card er ráðinn til að ræna líki úr líkhúsi neyðist hann til að láta af dagdraumunum, finna kúlur í byssuna sína og hefjast handa svo aðrir skjóti honum ekki ref fyrir rass. Í þessari drepfyndnu skopstælingu á harðsoðna reyfarastílnum verða ævintýri hins subbulega og vitgranna C. Card að sannri lestrardásemd ...

Dularmögn

Í gær var Snowfield í Kaliforníu aðlaðandi lítill bær þar sem bæjarbúar nutu lífsins í gullinni síðdegissól. Í dag ráða martraðir þar ríkjum. Ævagamalt ógnarafl hefur numið á brott næstum alla íbúa bæjarins og skilið lík annarra eftir, afkáralega afskræmd. Hvaða von eiga þeir örfáu sem enn lifa? Mögnuð háspennusaga.

Fiðrildafangarinn

Líkfundur raskar friðsældinni í Dalbæ, litlu samfélagi í Norðymbralandi. Áður en langt um líður finnst annað lík. Það eina sem fórnarlömbin virðast eiga sameiginlegt er ástríða fyrir fiðrildum. Þegar Vera Stanhope fer að að rannsaka málið kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist í Dalbæ.

Flóttamaður á krossgötum eigin slóðar

„Nú ætla ég að segja frá öllu. Og ég verð að byrja á endanum. Annars þori ég aldrei að fara alla leið. Ég myrti einu sinni mann. Hann hét John Wakefield og ég drap hann að næturlagi fyrir sautján árum í Misery Harbor.“ Á þessum orðum hefst bókin um Jantalögin, Flóttamaður á krossgötum eigin slóðar, eftir dansk-norska rithöfundinn Axel Sandemose.

Fulltrúi afbrýðinnar og fleiri sögur

Sjö eitursnjallar glæpasmásögur eftir norska krimmakónginn Nesbø. Sterk persónusköpun, hugvitssamar sögufléttur og óvænt endalok einkenna þessar knöppu og vel byggðu frásagnir – sögumennirnir leyna á sér. Í brennidepli eru heitar tilfinningar og mannlegir brestir: afbrýðisemi, þrá, óþol og ótryggð. Grípandi sögur sem koma rækilega á óvart.

Goðsögur frá Kóreu og Japan

Goðsögur frá Kóreu og Japan er endursögn tíu valinna goðsagna á íslensku, fimm kóreskra og fimm japanskra. Þær fjalla um stofnun ríkja, samskipti guða og manna, og sýna að skilin milli mannfólksins og þess yfirnáttúrulega eru oft óljós. Gerð er grein fyrir sögu og menningu landanna og hvernig sögurnar hafa varðveist fram á okkar daga.

Heaven

Sögumaðurinn er fjórtán ára. Hann hefur lengi mátt þola einelti jafnaldra sinna. Dag einn berst honum óvænt bréf frá bekkjarsystur sinni. Það er upphafið að vináttu byggðri á sameiginlegri reynslu þeirra. En hvers virði er vinátta sem á sér rætur í ótta og sársauka? Og hefur þjáningin merkingu? Magnað verk frá einum áhugaverðasta höfundi Japan.

Helköld illska

Lögregluforinginn Gunnhildur trúir ekki á tilvist drauga. En þegar samstarfsmaður hennar telur sig hafa séð mann sem var úrskurðaður látinn fyrir fimmtán árum renna á hana tvær grímur. En hvort sem um er að ræða draug eða mann af holdi og blóði er þessi sýn ekki góðs viti.