Niðurstöður

  • Þýdd skáldverk

Gilgames­kviða

Þetta ævaforna söguljóð um hetjukonunginn Gilgames er eitt elsta bókmenntaverk sem varðveist hefur. Höfuðstefið er mannlegar tilfinningar; einmanaleiki, vinátta, missir, hefnd, ótti við dauðann og leit að ódauðleikanum. Stefán Steinsson þýddi kviðuna og ritar ítarlegan eftirmála og skýringar.

Glæstar vonir

Glæstar vonir er tímalaust stórvirki og af mörgum talin besta saga Dickens. Pipp langar að komast ofar í þjóðfélagsstigann – ekki síst eftir að hann kynnist hinni fögru en drambsömu Estellu. Einn daginn lítur út fyrir að vonir hans muni rætast – en ekki er allt sem sýnist. Dickens dregur hér upp litríkar og raunsannar persónur og glæðir þær lífi.

Grunur

Þegar Blythe eignast dóttur er hún staðráðin í að veita henni alla þá ást sem hún fór sjálf á mis við. En í þreytu­þokunni eftir fæðinguna sannfærist hún um að eitthvað sé afbrigðilegt við barnið. Eða er hún ímyndunar­veik, geðveik? Mögnuð og taugatrekkjandi saga um martröð hverrar móður: að geta ekki elskað barnið sitt. Og um líðan konu sem enginn trúir.

Haf Tímans

Í byrjun 21. aldar leggur fjögurra manna áhöfn Ares af stað í fyrstu mönnuðu geimferðina til Mars. Á rauða hnettinum tekur við þeim óþekktur heimur, fullur af furðum og óvæntum uppgötvunum, ásamt Marsbúanum Tweel sem leiðbeinir ferðalöngunum í gegnum hættur og sögu plánetunnar. Haf Tímans er sígild vísindaskáldsaga frá meistaranum Stanley G. Weinbaum.

Handfylli moldar

Eftir sjö ára hjónaband hefur hin fagra lafði Brenda fengið nóg af lífinu á gotneska sveitasetrinu sem er stolt og yndi eiginmanns hennar, Tonys. Hún fer að halda við hinn grunnhyggna John Beaver, yfirgefur Tony og hverfur á vit samkvæmislífsins í London. Óvænt örlög bíða söguhetjanna í þessari óviðjafnanlegu skáldsögu sem er í senn harmræn og kómísk.

Heimskauts­baugur

Fimm unglingsstúlkur í litlum smábæ nyrst í Svíþjóð ákveða að mynda leshring sem þær kalla Heimskautsbaug. Ein þeirra hverfur sporlaust sumarið 1980. Fjörutíu árum síðar finnst lík hennar. Um jólin 2020 hittast konurnar í fyrsta sinn eftir að vinkona þeirra hvarf. Þá kemur í ljós að það var eitthvað í samskiptum þeirra sem leiddi til hvarfsins á sínum tíma. En hvað var það?

Heyrðu mig hvísla

Tim Blanck er kominn aftur til Palma þar sem sextán ára gömul dóttir hans hvarf fyrir fimm árum. Hann hélt að hann vissi hver örlög hennar hefðu orðið en nýjar upplýsingar setja strik í reikninginn. Gæti hún verið á lífi? Örvæntingarfull leit hans beinir honum inn í óhugnanlegan heim mansals. Hann er reiðubúinn að fórna öllu til að finna dóttur sína.

Hið stutta bréf og hin langa kveðja

Ungur Austurríkismaður fer til Bandaríkjanna til að jafna sig eftir hjónaskilnað. Fljótlega verður hann þess áskynja að fyrrverandi eiginkona hans veitir honum eftirför. Hann leggur á flótta og hún eltir hann – eða elta þau hvort annað? Býr ást eða hefndarhugur að baki? Það er óljóst eins og svo margt í þessari mögnuðu bók sem er allt í senn ferðasaga, spennusaga og skemmtisaga.

Hið undarlega mál Jekylls og Hyde

Ofbeldisfullur maður lætur að sér kveða í Lundúnaborg nítjándu aldar. Ekkert er vitað um hann nema nafnið eitt: Hyde. Lögfræðingurinn Utterson reynir að komast að því hver hann er. Honum til furðu reynist Hyde vera kunningi hins virðulega læknis, Henrys Jekyll. Jekyll neitar í fyrstu að fordæma gjörðir Hydes – en brátt neyðist hann til að horfast í augu við staðreyndir ...

Hittumst í paradís

Lögregluforinginn Thorkild Aske er ráðinn til starfa hjá glæpasagnahöfundinum Millu Lind. Hún segist vinna að nýrri glæpasögu sem byggist á raunverulegum atburðum þegar tvær stúlkur hurfu með dularfullum hætti af munaðarleysingjahæli. Thorkild verður fljótlega ljóst að ekki er allt sem sýnist, enda var forveri hans í starfinu hjá Millu Lind myrtur ...

Hunda­gerðið

Úkraínsk kona sem býr við fátækt í Helsinki neyðist til að horfast í augu við sára fortíð sína. Í umrótinu sem fylgdi sjálfstæði heimalandsins eftir fall Sovétríkjanna reyndi hver að bjarga sér og konur seldu það eina sem þær höfðu að selja. Áhrifarík og grípandi saga um spillingu og græðgi, þar sem stungið er á samfélagskýlum í beittri og vel byggðri frásögn.

Hún á afmæli í dag

Fimm rauð kerti á köku. Zana hlakkaði til og það hvarflaði ekki að henni að í lok dags yrði allt breytt. Það eina sem hún óskaði sér var að syngja: „Hún á afmæli í dag!“ Þegar lögreglumaðurinn Ewert Grens kemur í íbúðina fyllir óþefur vit hans. Hann á aldrei eftir að gleyma því sem blasir við honum. Tveimur áratugum síðar kemur hann aftur í sömu íbúð ...

Hýperíon

eða einfarinn á Grikklandi

Hýperíon er þroskasaga ungs manns sem gerist á Grikklandi á 18. öld og er lýsing á viðleitni skáldsins til að ná fótfestu í heimi þar sem verðmæti á borð við ást og fegurð eru lítils met­in. Sagan er rómantískur óður til náttúrunnar, áskorun um að vernda hennar miklu gersemar. Frásögnin er ljóðræn og tilfinningaþrungin, skrifuð með hjartablóði eins af fremstu ljóðskáld...

Hættuleg sambönd

Í þessari frægustu bréfaskáldsögu allra tíma segir af Merteuil markgreifynju og Valmont vísigreifa, lífsreyndu og kaldrifjuðu aðalsfólki sem finnst vanta krydd í tilveruna. Þau ákveða að draga fólk á tálar ýmist sér til skemmtunar eða í hefndarskyni og skrifast á um árangurinn. Úr verður magnað manntafl þar sem allar hvatir og tilfinningar mannsins takast á.

Istanbúl, Istanbúl

Undir yfirborði hinnar töfrum slungnu borgar, í klefa fjörutíu, hírast fjórir fangar. Þar skiptast neminn Demirtay, læknirinn, rakarinn Kamo og Küheylan frændi á sögum um borgina fyrir ofan til að drepa tíma og hughreysta hver annan. Heillandi saga um mátt ímyndunaraflsins andspænis mótlætinu.

Í landi annarra

Myndarlegur liðsforingi frá Marokkó fangar hug frönsku stúlkunnar Mathilde og hún fylgir honum til heimalands hans. Með ástina og hugrekkið að vopni tekst hún á við framandi samfélag í hrjóstrugu landi og mætir erfiðleikum og fordómum úr öllum áttum. Leïla Slimani sló í gegn með Barnagælu, sem hlaut hin virtu Goncourt-verðlaun.

Í leyndri gröf

Mannabein finnast á lítilli eyju norður af Sandhamn í sænslka skerjagarðinum. Grunsemdir vakna um að þetta séu líkamsleifar tveggja kvenna sem hurfu sporlaust fyrir tíu árum. Thomas Andersson tekur við rannsókn málsins og Nora Linde vill leggja sitt af mörkum. Þá reynir á samband æskuvinanna – og ekki síst þegar farið er að róta í gömlum leyndarmálum ...

Í útlegð

Í útlegð hefur að geyma texta sem mörkuðu upphaf og endi útlegðarára rithöfundarins Josephs Roth í París eftir að nasistar komust til valda í Þýskalandi. Helgisaga drykkjumanns greinir frá nokkrum dögum í lífi sómakærs drykkjumanns en í Mannsandinn brenndur á báli gerir Roth upp sakirnar við nasista skömmu eftir að þeir hófu opinberlega að brenna b...