Þýdd skáldverk

Nætursöngvarinn

Hanna Duncker snýr aftur á æskuslóðirnar á eyjunni Öland – þar sem faðir hennar var dæmdur fyrir morð. Og það var nýr yfirmaður hennar í lögreglunni sem kom honum á bak við lás og slá sextán árum fyrr. Mögnuð glæpasaga þar sem leyndarmál voma yfir og samfélagið er langminnugt – og minni þess er miskunnarlaust.

Ríki óttans

Eftir stormasamt tímabil í bandarískum stjórnmálum sest nýr forseti í Hvíta húsið. Nýi utanríkisráðherrann, Ellen Adams, er varla tekin við embætti þegar hún stendur frammi fyrir skelfilegri alþjóðlegri ógn. Mögnuð pólitísk spennusaga eftir vinkonurnar Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og metsöluhöfundinn Louise Penny.

Ru

Ru þýðir á frönsku lítill lækur, sömuleiðis eitthvað sem rennur, á borð við tár eða blóð. Á víetnömsku þýðir orðið vögguvísa eða sú sem svæfir og huggar. Margverðlaunuð bók höfundar sem flúði, líkt og 11 ára sögupersóna bókarinnar, yfirséttarlíf sitt í Saigon á meðan Víetnamstríðið geisaði í von um betra líf í Kanada. – Bókaklúbburinn Sólin.

Sannleiksverkið

Julian Jessop, ríflega sjötugur og sérvitur listamaður heldur því fram að fæstir séu heiðarlegir hverjir við aðra. En hvernig væri ef fólk væri það? Frumleg og áhrifamikil saga með litríkum persónum.Fyrir hana hlaut Clare Pooley RNA-verðlaunin fyrir bestu frumraun í skáldsagnagerð. Bókin varð auk þess metsölubók og hefur komið út í 30 löndum.

Staðurinn

Hann fór aldrei inn á söfn og las eingöngu héraðsblaðið, verkamaðurinn sem varð smákaupmaður. Hann flíkaði ekki tilfinningum sínum en bar þá einlægu von í brjósti að dóttir hans gengi menntaveginn. Dóttirin er Annie Ernaux, Nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum 2022. Í þesssari snilldarlegu bók fjallar hún á nærfarin hátt um samband sitt við föður sinn.

Stórstreymi

Árið 1987 er morð framið í flæðarmálinu á sænskri eyju. Fórnarlambið er ung ófrísk kona sem enginn ber kennsl á. Árið 2011 velur ungur lögreglunemi, Olivia Rönning, málið sem verkefni í lögregluskólanum. Fyrr en varir er hún komin á kaf í þessa dularfullu morðgátu. Það flækir málið enn frekar að Tom Stilton, sem rannsakaði málið, finnst hvergi.

Stuldur

Samastúlkan Elsa verður vitni að því þegar sænskur granni drepur hreindýrskálfinn hennar. Hún segir ekki frá enda skiptir lögreglan sér ekki af því þótt Samar verði fyrir tjóni og grannarnir hæðast að menningu þeirra. Þegar Elsa vex úr grasi berst hún gegn misréttinu en þá vitjar fortíðin hennar. Höfundur byggir söguna á raunverulegum atburðum.

Sumar í strand­hús­inu

Þegar meistarakokkurinn Cliff Whitman deyr í bílslysi breytast aðstæður Joönnu Whitman á svipstundu. Þrátt fyrir skilnað vegna síendurtekins framhjáhalds er áhugi slúðurblaðamanna á henni enn sá sami. Þegar hún kemst að því að unga konan sem var með fyrrverandi eiginmanni hennar í bílnum er ólétt, finnur Joanna sig knúna til að bregðast við.

Svarti engillinn

Karlmaður finnst myrtur í báti á reki við Norður-Grænland. Í farmi bátsins reynist vera mikið magn af hvítabjarnarskinni og náhvala- og rostungstönnum. Við fyrstu sýn virðist hér um að ræða smyglvarning og afrakstur ólöglegra veiða. Önnur bókin um Sika Haslund og blaðamanninn Þormóð Gíslason í sjálfstæðum flokki glæpasagna sem gerast á Grænlandi.

Systirin í skugganum

Þriðja bókin í bókaflokknum um systurnar sjö

Star, dularfyllst systranna, er hikandi við að stíga út úr örygginu sem hún upplifir í nánu sambandi við systur sína CeCe. Vísbendingin sem Pa Salt skildi eftir um uppruna hennar leiðir hana í fornbókabúð í London. Hún stígur út úr skugga systur sinnar og kýs sína eigin framtíð. Bókaflokkurinn um systurnar sjö er einhver sá vinsælasti í heimi.

Systirin í storminum

Önnur bókin í bókaflokknum um systurnar sjö

Ally fær vísbendingu um uppruna sinn við andlát föður síns. Hún rekur slóð sína til Noregs og tengist ævi óþekktrar söngkonu, Önnu Landvik, sem var uppi 100 árum fyrr og söng þegar tónlist Griegs við ljóðabálk Ibsens, Pétur Gaut, var frumflutt. Hvernig tengist Anna föður hennar, hver var hann í raun og veru?

Sælureitur agans

14 ára stúlka hefur varið hálfu lífi sínu í heimavistarskólum í Ölpunum en bíður þess eins að vistinni ljúki svo hið sanna líf geti hafist. Tíminn líður hægt við fullkomna náttúrufegurð og lífsleiða. Hún laðast að skólasystur sem þekkir lífið utan heimavistarskóla ... Einstök skáldsaga um sakleysi æskuára og ógnir fullorðinsára, listilega skrifuð.