Allar bækur

Síða 18 af 37

Jörð / Earth

Bryndís Jónsdóttir sækir innblástur í náttúruna og leitast við að ná fram hinu lífræna úr ólíkum efnivið. Hún horfir til táknkerfis íslensku fjármarkanna, sem fylgt hafa þjóðinni frá fornu fari. Sýlthamrað, þrístigað eða heilrifað, hún útfærir mörkin í volduga leir- og járnskúlptúra, massíft gler og viðkvæm grafíkverk. Efniskenndin er áþreifanleg.

Klingsor

Þessi ótrúlega ævisaga listamanns er eitt dæmið enn úr smiðju sænska stílsnillingsins Torgnys Lindgren þar sem tekist er á við alvarlegar og flóknar spurningar með vopnum listarinnar. Sagnaheimur þar sem allt getur gerst og skammt er milli ærsla og harms.

Klúbburinn

Ljúflestur með kraumandi ástríðu. Dagarnir líða stefnulaust áfram. Söngkonan Adele er í aðalhlutverki á heimilinu með boðskap sinn um sorg og horfnar ástir. Hvers vegna ekki að lýsa yfir verkfalli á heimilinu? Það verður nú varla heimsendir þótt hún hristi ærlega upp í þessu öllu saman? Hvernig væri að byrja upp á nýtt og flytja norður með börnin?

Klær gaupunnar

Alþjóðleg fjárglæfraöfl hafa hreiðrað um sig nyrst í Svíþjóð og svífast einskis við nýtingu viðkvæmra nátturuauðlinda. Í bænum Gasskas finnst verktaki myrtur. Mikael Blomkvist fer á stúfana og kemst að því að það er maðkur í mysunni. En rannókn hans verður til þess að loftslagsaðgerðarsinni týnir lífinu.

Kona verður orðlaus

Lygilega sönn reynslusaga

Lygilega sönn reynslusaga um málóða konu sem varð „orðlaus“ bæði vegna krabbameins í barka, sem og samskipta við íslenska heilbrigðiskerfið. Bókin er raunsæ, en jafnframt ærslafull ádeila með skáldlegu ívafi. Opinská frásögn um einstaka seiglu í andstreyminu sem vekur lesanda til umhugsunar um hið dýrmæta fjöregg sem líf okkar allra er.

Kortabók skýjanna

Sex sögusvið sem skarast á sex tímaskeiðum með sex ólíkum stílbrigðum. Þessi magnaða skáldsaga rekur sig inn í komandi aldir og aftur til baka. Á því ferðalagi tengjast sögupersónur ólíkra tíma, örlög þeirra fléttast saman, stórar siðferðilegar spurningar kvikna og við blasir næsta ógnvekjandi framtíðarsýn.