Barnabækur - Skáldverk 0-6 ára - myndrík

Ósýnilegur gestur í múmíndal

Hugljúf og falleg endursögn á smásögu Tove Jansson um stúlkuna Ninnu sem varð ósýnileg þegar hún dvaldi hjá kuldalegri frænku. Tikkatú er viss um að hjá múmínfjölskyldunni muni Ninna verða sýnileg aftur en múmínsnáðinn og Mía litla eru ekki sammála um hvaða leið sé best til þess. Litríkar myndir varpa töfraljóma á lífið í múmíndal.

Penelópa bjargar prinsi

Penelópa hefur margoft heyrt ævintýrið um prinsinn sem beit í epli galdrakerlingar og féll í dá. Samkvæmt því hefur hann legið í gullkistu uppi á fjallstindi í heila öld! Hún ákveður að kanna hvort sagan sé sönn, finna kistuna og bjarga prinsinum. Hér er gömlum ævintýraminnum snúið á hvolf svo sagan kemur skemmtilega á óvart.

Pétur og Brandur Pönnukökutertan

Í dag á Brandur afmæli og af því tilefni ætlar Pétur að baka pönnukökutertu eftir sinni eigin uppskrift. Málin vandast þó er í ljós kemur að hveitið er búið og þegar Pétur ætlar að hjóla út í búð reynist afturdekkið á hjólinu hans sprungið. Vandræðin halda áfram að hrannast upp og nú reynir á útsjónarsemi Péturs og hugrekki Brands.