Allar bækur

Síða 21 af 37

Líf

Fjölskyldufaðir finnst látinn á heimili sínu og virðist hafa fallið fyrir eigin hendi. Við krufningu kemur í ljós örlítið frávik sem breytir öllu. Guðrún Ýr Ingimarsdóttir rannsóknarlögreglumaður tekur að sér málið. Hún er eldskörp en líka þrjósk og rekst gjarnan á veggi kerfisins. Í ljós kemur að þetta er aðeins upphafið að miklu stærri ráðgátu.

Líf á jörðinni okkar

Vitnisburður minn og framtíðarsýn

Bók sem á sérstakt erindi. „Ég hef átt ótrúlega ævi. Núna fyrst kann ég að meta hve einstök hún hefur verið. Þegar ég var ungur fannst mér eins og ég væri þarna úti í óbyggðunum og upplifði ósnortinn heim náttúrunnar – en þetta var tálsýn,“ skrifar David Attenborough og lítur yfir sviðið í þessari fróðlegu bók.

Geðraskanir án lyfja Líf án geðraskana

Bók 3

Tilgangur þessara bóka er að fólk með geðraskanir nýti sér fleiri leiðir til að takast á við þær, að aðstandendur fái dýpri innsýn inn í heim fólks með geðraskanir og geti þannig umborið ástand þeirra með meiri þolinmæði og skilningi. Að ný sýn og meiri áhugi náist hjá læknum til að tengja við óhefðbundnar leiðir til að vinna með geðraskanir.

Lífsins blóð

Saga úr sagnabálkinum Hvísl hrafnanna

Þegar á 18. öld er Elias nálægt því að afhjúpa leyndarmál guðanna. En Óðinn vill ekki deila valdi sínu og í refsingarskyni drepur hann fjölskyldu Eliasar. Spámaður segir Eliasi að það sé til framtíð og bætir við: „Finndu þann sem ræður yfir tímanum.“ En þegar Elias gerir það breytist allt og hann stendur frammi fyrir erfiðum valkosti.

Lífsins ferðalag

Höfundur á að baki litríkan atvinnuferil hér á landi og erlendis. Hann var m.a. hótelstjóri á Hótel Sögu og Holiday Inn í Reykjavík og starfaði síðan lengi sem hótelráðgjafi víða erlendis, m.a. í Simbabve, Úkraínu og Rússlandi. Frásögn Wilhelms veitir fágæta innsýn í þróun hótelreksturs, veitingaþjónustu og ferðamennsku á Íslandi og erlendis.

Lína fer í lautarferð

Það er indæll haustdagur. Tommi og Anna eru í leyfi frá skólanum og Línu finnst tilvalið að fara í lautarferð út í haga. Á vegi þeirra verða bæði sauðþrá kýr og nautheimskur tarfur – auk þess sem herra Níels hverfur sporlaust. En Lína er bæði sterk og ráðagóð og getur leyst hvers kyns vanda. Sígild saga eftir Astrid Lindgren í nýjum búningi.

Ljóðasafn

Djúpur og kjartnyrtur skáldskapur, stílbrögðin áhrifamikil, tungutakið meitlað og myndmálið ríkulegt. Yrkisefnin spegla næmi fyrir því óræða og fíngerða, en líka skoplegum hliðum tilverunnar og ekki síður því sem miður fer í torræðum og ögrandi samtíma. Safnið hefur að geyma allar tíu ljóðabækur Guðrúnar frá 2007-2024.

Ljóðasafn II

1989-1992

Þrjár bækur sem hafa verið ófáanlegar um áratugaskeið en eru nú saman komnar í einu lagi í þessari vönduðu heildarútgáfu á verkum skáldsins. Hér birtast Tvö tungl (1989), Vetraráform um sumarferðalag (1991) og Mold í Skuggadal (1992). Ómissandi verk í safn allra bókaunnenda.

Loki: Leiðarvísir fyrir prakkara – hvernig afla skal óvina

Fjórða bókin í ritröðinni um Loka. Honum gengur ekki vel að vinna í sjálfum sér og nú er svo komið að hann þarf að leysa eftirfarandi verkefni: 1. Endurheimta vinskap Georgínu. 2. Lifa af hólmgöngu gegn hefnigjörnum álfi sem beitir göldrum. 3. Bjarga heiminum frá illum öflum. www.kver.is

Lesið með Lubba Lubbi og lömbin & Lubbi eignast vin

Tvær fallegar og litríkar léttlestrarbækur um Lubba eftir höfunda bókarinnar Lubbi finnur málbein. Lubbi lendir í ævintýrum og á hverri síðu eru hljóðin og táknrænar hreyfingar þeirra sýnd. Þannig verður lesturinn skemmtilegur og gagnlegur en táknrænu hreyfingarnar mynda brú á milli málhljóða og bókstafa.